Page 2 of 6

Drullumallið á Spáni

Á föstudaginn síðasta kláraði ég Andalucia Bike Race í annað skipti á tveimur árum. Keppnin var eins ólík fyrra árinu og mögulegt var, þökk sé veðri og ýmsum öðrum hlutum. Í stuttu máli er þetta 6 daga löng fjöldægrakeppni á fjallahjóli, 400km löng samtals, með leiðum í Cordoba, Andújar og Linares á Spáni. Keppnin er einstaklings, en var áður parakeppni, og er með UCI C1 merkingu sem er næst efsta stig.
Eins og í fyrra lét ég mig fljóta með nokkrum Dönskum félögum, en fyrst og fremst með besta fjallahjólara Færeyja, Helga Winther Olsen. Við gerðum allt saman, sem getur hjálpað ótrúlega mikið í svona langri keppni, en með öllu tekur ævintýrið um 8 daga, og það getur margt gerst á þeim tíma.

Það er margt sem er hægt að segja um hvernig keppnin þróaðist fyrir mig, bæði neikvætt og jákvætt, en ég fókusa yfirleitt á það jákvæða í öllu, þó verandi raunsæismaður. Keppnin byrjaði vel fyrir mig, en tók nokkrar dýfur á leiðinni, og sumar af þeim höfðu ekki bara áhrif á mig. Ég átti góðann fyrsta dag, var með fremstu mönnum og allt leit vel út fyrir framhaldið. Smá óheppni með staðsetningu setti strik í reikninginn á öðrum degi, en ég barðist vel og lengi og náði að lokum ágætum tíma og var ekki of ósáttur, enda nóg eftir. Á degi 3 byrjaði veðurspáin að stríða öllum keppendum, en á dögunum fyrir keppni leit alltaf út fyrir að það yrði rigning á seinni hluta keppninnar. Ég get ekki sagt að mig hafi grunað hversu slæmt það varð samt!

Dagur 3 var högg fyrir mig, bleyta í brautinni hafði þó minni áhrif en mig grunaði, en ég fékk vænann skammt (vonandi ársskammt) af óheppni þegar ég sprengdi dekk þrisvar á einum degi. Ég get engu öðru kennt um en sjálfum mér, var búinn að setja öflug og þykk dekk á hjólið og hafði engar áhyggjur, enda ekki þekktur fyrir að sprengja oft. Eftir þann dag var egóið búið að minnka og ég farinn að hugsa um að eiga bara góða daga það sem eftir var, en allar hugmyndir um heildarúrslit voru farin út um gluggan, ég kom í mark tæplega klukkutíma á eftir sigurvegaranum.

Eftir þetta varð keppnin bara erfiðari, og dagur 4 sennilega sá allra versti, en á sama tíma finnst mér hann hafa sýnt líka góða hluti. Þann dag rigndi stanslaust, kuldinn var mikill og ég var alltaf á bláþræði milli þess að keyra hitann upp, og slakna niður í ofkólnun. Ég eyddi fyrstu 2 tímunum af tæplega 3 með hóp sem var að keppa um 14.sæti, aðeins nokkrum mínútum á eftir fremstu mönnum. Ég tók vel á því á hjólinu, og skv mælingum virðist vera í töluvert betra formi en á sama tíma í fyrra. En ég sprengdi aftur. Ég datt aftur úr, eyddi hellings tíma í að laga dekkið, og þegar ég lagði af stað aftur var ég orðinn kaldur í gegn og kom mér ekki aftur á strik, sem sýndi sig í leiðinlegri dettu á fleygiferð niður grjótakafla um 15 mín eftir að ég lagði af stað. Ég kláraði daginn í mjög óþægilegu ástandi, gat varla haldið um stýrið og fann að ég var búinn að slasa mig í kringum bringuna.

Kvöldið eftir dag 4 var mjög erfitt andlega. Ég fann meira og meira til í rifbeinunum og grunaði oft að ég væri brákaður, en eftir svipuð meiðsli á EM í Slóvakíu í fyrra, vissi ég að þetta væri ekki svo slæmt. En vont var það. Marblettir og rispur á löppum og handleggjum voru ekkert að hjálpa til, en ég hugsaði lítið um það. Morguninn eftir verður að segjast að ég var nálægt því að hætta við að mæta á startlínuna.

Startið var í 50 mín akstri frá Cordoba þannig að það þurfti að fleygja öllu inn í bíl kl 7 um morguninn og leggja af stað í hellirigningu. Rigningin er sennilega sú mesta sem ég hef nokkurn tíman keyrt í, og það á Spáni af öllum stöðum. Þegar við vorum hálfnaðir á keppnisstað og ég enn að reyna að hvetja sjálfann mig til dáða var gefin út tilkynning: degi 5 aflýst vegna veðurs. Flóð í smábæjum og árfarvegir byrjaðir að myndast í brautinni. Ég var ekki ósáttur, fúll eða svekktur yfir þessu, það get ég sagt. Ég tók þessu sem merki um að ég hefði fengið hvíldardag til að koma hausnum í lag.

Ég kláraði dag 6 með öllu sem ég átti eftir, en það var því miður ekki mikið. Ég átti erfitt með að anda vegna rifbeinsins, og bleytan og kuldinn var verri en hina dagana, en samt var ákveðið að starta öllum á lokadegi. Ég gaf allt í þetta, átti ágætt klifur í byrjun og setti mínar bestu afltölur þá vikuna í pedalana, en átti í erfiðleikum með niðurbrekkurnar vegna kulda og einbeitingarleysis. Það var samt gaman að ná þessum 5 sem tóku fram úr mér í síðustu brekkunni. Sótti þá á 2km löngum malbikskafla og sprettaði í burtu að markinu. En marklínan var ekki mín marklína, heldur var löngu búið að ákveða að það yrði heitt bað á hótelinu. Ég gleymdi næstum því að sækja medalíuna, rauk af stað í óráði og tókst að villast í hellidembunni á leiðinni á hótelið. Komst þó þangað á endanum, setti í heitasta bað ævi minnar, og settist þar niður í öllum fötum, skóm og hjálmi. Ég hafði sigrað þessa keppni, og sjálfann mig í leiðinni. Ég náði ekki þeim úrslitum sem ég sóttist eftir, en ég komst yfir aðra erfiðleika og kem frá þessarri keppni enn spenntari fyrir vorinu.

Heimsmeistaramótið í drullumalli

Ég fór á heimsmeistaramót í hjólreiðum í fjórða skiptið síðustu helgi, og það var gott bland af gamani, erfiðleikum og drullu. Ferðalagið hófst á fimmtudegi með flugi eldsnemma frá Kaupmannahöfn. Vaknaði “eldhress” kl 5 um morgun, skellti mér í klassíska 20 mín labbið út á lestarstöð með hjólatösku, venjulega ferðatösku og handfarangur, tók lestina og metroið út á völl sem tekur um 1klst og rauk beint í flugvallar rútínuna. Eftir 3 ár í útlöndum og stanslaust brölt með hjólatöskuna verður þetta ekki gamalt!

Eftir örstutt flug til Eindhoven í Hollandi hitti ég ferðafélagana sem ég hafði þó ekki séð fyrr en eftir flugið, Gústaf og mömmu hans Fríðu. Þarna samanstóð Íslenska landsliðið í cyclocross, þetta árið. Við drifum okkur á skrifstofu Hertz og náðum í bílinn okkar, eftir að starfsmaðurinn var búinn að spyrja mig út í allt milli himins og jarðar um ferðalag til Íslands, muninn á Hollandi og Íslandi ofl ofl. Við rúntuðum þaðan til Valkenburg, sem allir sem fylgjast reglulega með cyclocross ættu að kannast við, en þarna hefur verið haldið World Cup í cyclocross nánast árlega í langann tíma, og staðurinn einnig þekktur fyrir þennan fína hól sem kallast Cauberg, séður í Amstel Gold Race, og þegar Philippe Gilbert varð heimsmeistari í götuhjólreiðum árið 2012.

Hótelstjórinn á Hotel Lahaye tók á móti okkur og var sá allra hressasti. Kallinn, sem var á besta aldri og með hressari Hollendingum sem ég hef hitt, fer rakleiðis á topplistann yfir hótelstjóra eftir þessa ferð. Hann var spenntur fyrir keppninni, sagði okkur frá hinu og þessu sem tengdist hjólasögu bæjarins, fussaði ekkert yfir okkur þegar við gengum um á skítugum skónum, þrifum hjólin með garðslöngunni hans og var alltaf brosandi. Hótelið var í um 3 km fjarlægð frá brautinni sem gerði lífið mjög auðvelt fyrir okkur.

 

Uppáhalds veitingastaðurinn okkar, sem farið var á, á hverjum degi, er De Holle Eik. Lítill bar/veitingastaður í göngufjarlægð frá hótelinu og með einfalt og gott spagetti bolognese, staðurinn gat ekki klikkað. Hjónin sem eiga staðin voru líka mestu snillingar og voru hressari með hverjum deginum sem við mættum í hádegismat.

Fyrsta æfing á brautinni hófst um leið og við kláruðum að setja saman hjólin, allir mjög hressir eftir ferðalagið (kaldhæðnin í botni), og klárir í brautarskoðun. Það var fínt að skoða brautina á fimmtudegi þar sem fæstir voru mættir á staðinn og ekki mikil umferð í brautinni. Það er smá munur á því að skoða braut í litlum keppnum þar sem fólk rúllar bara um og hmm-ar út í loftið, á stórmótunum koma Belgísku og Hollensku liðin, ásamt öðrum, eins og lestir og fljúga brautina með tilheyrandi hrópum og köllum ef einhverjum dettur í hug að vera fyrir. Brautin féll í góðann jarðveg hjá okkur Gústafi um leið og við rúlluðum hana, en fyrsta tilfinning var þó hversu þung hún var og nánast ómögulegt að rúlla hana án þess að setja smá kraft í það.

Ég lenti í vandræðum með keðjuna á hjólinu sem virtist ekki hafa neinn áhuga á að sitja kjurr á tannhjólinu, og það fór heldur betur með brautarskoðunina mína, en sem betur fer náði Gústaf að nýta tímann og fara nokkra hringi. Eftir brautarskoðunina var einfalda rútínan sett í gang: hjólin þrifin (sem tók óratíma því einhverjum fannst sniðugt að hafa bara eina garðslöngu fyrir alla keppendur), beint á hótel í sturtu, og út að finna kvöldmat. Það sofnuðu allir mjög snemma þann daginn, jafnvel á skala Gústafs og mömmu hans, sem passar vægast sagt ekki við minn, sem B- manneskja.

Föstudagurinn var ekki mjög frábrugðinn deginum áður, brautarskoðun og æfingar í brautinni, ásamt viðhaldi á græjum. Fríða fór á alla fundina hjá UCI, sótti keppnisgögn, spurði spurninga og spjallaði við liðsstjóra Norska landsliðsins, sem var í sjokki yfir ansi áhugaverðri staðreynd: Ísland var með fleiri keppendur heldur en Noregur. Við Gústaf sáum augljósann mun á brautinni milli daga eftir að nokkrir höfðu hjólað hana. Allir skurðir, eða rákir, í brautinni voru dýpri, drullan mýkri og sleipari, og allur afgangur af grasi var orðinn að drullu. Það var ljóst að brautin yrði handónýt á sunnudeginum, og stefndi allt í fjöruga keppni.

Við eyddum laugardeginum í að horfa á aðrar keppnir í sjónvarpinu eða á keppnisstað, en þá voru Junior karlar, U23 konur og Elite konur að keppa. Það var gaman að sjá hina flokkana keppa, og það var augljóst að þetta var ein erfiðasta heimsmeistarakeppni síðari ára, eitthvað sem margar sleggjur í sportinu tóku undir og lýstu yfir á félagsmiðlum. Við Gústaf tókum létta æfingu með nokkrum “leg openers” til að vera í topp standi fyrir okkar keppni.

Sunnudagurinn rann upp og við klár með planið. Gústaf var að keppa kl 11 og ég kl 15, sem þýddi að það var hægt að gera allt vel án þess að lenda í tímaþröng á milli keppna. Ég skipti um hatt og gerðist aðstoðarmaður í nokkra klukkutíma á meðan Gústaf gerði sig klárann fyrir keppnina. Við notum hjól hvors annars sem varahjól, en vegna þess að ég var í vandræðum með keðjuna mína þá var það ekki besti kostur, en var þó til staðar. Stuttu fyrir start var ég mættur í pittinn með hjólið, og Fríða var í startinu með Gústaf til að taka af honum jakkann og annað úr upphitun. Keppnin hans fór af stað og á meðan við fylgdumst með Eli Iserbyt jarða samkeppnina, Joris Nieuwenhuis skipta um skó og Tom Pidcock valda Breska heimsveldinu vonbrigðum, stóð Gústaf sig vel í baráttu við tvo Ástrali, ekki langt á eftir nokkrum strákum frá Danmörku. Hann átti góða keppni og var bara ánægður með sig eftirá.

Eftir þetta var kominn tími fyrir mig að kveikja á keppnisskapinu. Að sjálfsögðu fór ég beint á De Holle Eik í spagettí, áður en ég græjaði allt fyrir keppnina. Fullklæddur og klár í slaginn fór ég að hita upp, á meðan Gústaf tók við hlutverki aðstoðarmanns og Fríða fór og beið eftir mér í startinu. Þetta var gott skipulag hjá okkur og ekkert klikkaði, sem róar taugarnar og hjálpar manni að fókusa á keppnina.

Keppnin mín fór af stað með tilheyrandi látum, en ég ákvað að vera sniðugur og taka ekki þátt í látunum, verandi á öftustu startröð. Ég fór rólega af stað, setti lítinn kraft í að elta hópinn og uppskar nokkrum beygjum síðar þegar ég náði öllum aftur í umferðaröngþveitinu sem verður aftast í svona stórum keppnum. Það er vægast sagt erfitt að ná fram úr hópnum frá öftustu röð, þannig að það þótti skynsamlegt að bíða eftir að dreifðist úr hópnum. Eins og mátti búast við var brautin í skelfilegu ástandi, og samkvæmt mínum óvísindalegu ágiskunum hef ég sennilega hlaupið um 70% af brautinni, með hjólið á öxlinni. Við tók slagur við keppendur frá Japan og Írlandi, en ég átti nokkuð góðann fyrsta hring fyrir utan keðjuna sem hoppaði af og kostaði mig um 30 sek. Ég hélt áfram og barðist til síðustu mínútu, flaug á hausinn 3-4 sinnum og var alveg í klessu þarna, en ég er alveg sannfærður um að ég hef aldrei farið úr fullum bensíntank, niður á bensínljósið, á jafn stuttum tíma. Eftir 3 hringi var ég nokkrum metrum fyrir aftan þremeningana, en við vorum allir teknir úr keppni með hinni svokölluðu 80% reglu og þar var því lokið. Ég verð að viðurkenna, ég hef aldrei verið svona feginn að vera dreginn úr keppni.

Það var ótrúlega gaman að koma beint úr keppni, drulluþreyttur og ógeðslegur, og lenda í merkilega stöðugu streymi af fólki sem vildi taka myndir með mér, taka í höndina á mér og óska mér til hamingju með keppnina. Þetta var óvenju mikið, en ég tók líka eftir því að á meðan keppnin stóð yfir þá hættu ekki hrópin og köllin: “Iceland!”, “Hoo!”, “Go ICE!” og svo framvegis.

Þetta var skemmtileg upplifun, ekki laus við uppákomur og smá stress, en almennt séð góð ferð með góðum árangri. Ég get ekki séð að meira hefði verið hægt að gera þarna miðað við aðstæður og styrk liðsins. Takk allir sem fylgdust með, hvöttu okkur áfram og sýndu okkur að við héldum uppi heiðri Íslands í stærstu cyclocross keppni í heiminum.

Hvernig virka sprettir?

Sprettir eru eitthvað sem allir ættu að æfa reglulega, en fæstir gera. Sumum finnst það ekki skipta máli af því þeir eru ekki að spretta til sigurs, og aðrir gera kannski of mikið af því en gleyma úthaldsæfingum. Það eru hins vegar margir sem ekkert endilega tapa endasprettum af því þeir eru ekki góðir sprettarar, heldur tapa tækifærum á að vera í hópnum þegar kemur að endasprettinum, af því þeim skortir sprengikraft til að loka árásum, og að taka eftir tækni og taktík annarra í hita leiksins.

Mér hefur alltaf fundist langbesta æfingin í sprettum felast í hópæfingum, í svokölluðu “fartlek” formi. Grunnhugmyndin er að hópurinn, sem er oft samsettur af hjólurum í svipuðum styrkleika, en þó ekki alltaf, hjólar á ákveðinn óformlegann hátt. Það er ekki farið nákvæmlega eftir interval prógrammi eða föstum meðalhraða, heldur er leikið sér meira með aðstæður og leiðina sjálfa, hjólað á mjög breytilegum hraða, stundum hratt og stundum hægt. En það er oftast góð ástæða fyrir hraðavali, til dæmis hjólað í rólegheitum á milli tveggja punkta, til að safna saman hópnum og hvíla lappir. Svo kemur að brekku, góðri beygju eða skilti sem er búið að ákveða og tilkynna hópnum að sé “skotmarkið”. Það er misjafnt hvernig reglur menn setja, stundum er ákveðið að það megi ekki stinga hópinn af of snemma, heldur á að bíða þar til nokkur hundruð metrar eru eftir, til að keppnin sem fer í gang í miðri æfingu, líkist sprettæfingu sem mest. En til að blanda taktík og innsæi inn í leikinn má stundum segja að allt sé leyfilegt, sem gefur mönnum tækifæri til að taka áhættur og sjá hvort hægt er að stinga af.

Það er alltaf best að æfa spretti á móti góðum andstæðing. Það er staðreynd. Allir reyna meira á sig þegar einhver annar er að spretta við hliðina á þeim, og virðist ekki ætla að gefast upp. Mér finnst þetta langskemmtilegasta leiðin til að æfa sprettina.

Sprettir koma í ótrúlega mörgum tegundum og aðstæðum. Sumir eru langir og flatir, og byrja á háum hraða til að enda í enn hærri hraða. Sumir eru stuttir, út úr mjög krappri beygju, og snúast meira um hver er sneggstur af stað úr litlum hraða (eða hver fer hraðast út úr beygjunni). Sumir fara upp stutta 30-60 sek langa brekku, sem breytir öllu með að nýta kjölsog af öðrum og að tímasetja sprettinn rétt. Mér finnst best að skoða allar þessar tegundir, meta hverju ég er bestur í, og æfa svo allt hitt. Alrei fókusa á það sem maður er bestur í, heldur styrkja það sem maður er veikastur í.

Hvað er hægt að gera til að setja upp æfingar? Hér eru nokkrar hugmyndir:

  • 10x 10s sprettir með 4 mín hvíld á milli. Þetta er gert á flötum vegi eða brekku, startað á litlum hraða en í þungum gír, og allt sett í botn frá fyrstu sekúndu þar til spretturinn er búinn. Hvíldin er mjög róleg
  • 3-5x 30s sprettir með 5 mín hvíld á milli. Langbest að gera í brekku vegna þess hve spretturinn er langur. Hraðaval er frjálst, og fer mikið eftir hallanum í brekkunni. Hvíldin mjög róleg.
  • 10x 20s sprettir með 40s hvíld á milli. Stutt hvíld þýðir að það er ekki hægt að taka alla spretti á hámarksálagi, en það skiptir meira máli að reyna að halda aflinu jöfnu frá fyrsta sprett til þess síðasta.

Ótrúlega margir tala um 1s, max power töluna sem heilagt viðmið í power mælingum. Ég skil það vel, þetta er hæsta talan sem menn sjá frá mælinum og alltaf er stærra betra. En þetta segir afskaplega lítið um menn sem sprettara, því sjaldan er sprettað í eina sekúndu. 5s power er góð mæling, en ég hef alltaf haldið meira upp á 12s power töluna. Ástæðan er að flestir sprettir sem ég hef skoðað hjá sjálfum mér taka um 18 sekúndur eða minna, og það er oft rosalegt fall í poweri frá fyrstu sekúndum þar til undir lokin. Til hvers að vera með brjálað háa powertölu í 5 sek, ef allt aflið er horfið næstu 10 sek eftir þær fyrstu 5? Ég mæli með að skoða muninn á fyrstu sekúndu spretts, og þeirri síðustu, og reyna að æfa að minnka muninn á þeim. Þetta getur þýtt að stýra álagi betur, það er ekki alltaf best að spretta undir algjöru hámarksálagi, sérstaklega þegar það eru 250 metrar í marklínuna.

Tækniatriði skipta miklu meira máli en sumir halda. Með tækniatriðum á ég við ansi margt, en til að safna saman stikkorðum þá getur þetta verið staðan á hjólinu í sprett, staðsetning handa á stýrinu (í droppum alltaf, en fremst eða aftast á stýrinu?), gíraval, bæði í upphafi spretts og enda, staðsetning í hóp og athygli á öðrum keppendum. Mér finnst gott að vera lágur á hjólinu, en ég geri það ósjálfrátt og það er ekki skynsamlegt að mæla með því við hvern sem er, því það virkar ekki fyrir alla. Frekar myndi ég segja að það skipti máli að staðsetja sig þannig að afturdekkið hefur gott grip og er ekki að kastast til hliða, og að vera með hendurnar öruggar neðst á stýrinu, þó með puttana í hæfilegri fjarlægð frá gírskiptum og bremsuhandföngum. Gíraval er rosalega persónubundið og ekki virkar það sama fyrir alla, en ég reyni alltaf að vera með sveifahraðann í kringum 85-90 rpm þegar ég byrja sprettinn, því þá hef ég nóg svigrúm til að auka sveifahraðann á meðan ég spretta, án þess að þurfa að skipta um gír. Ég hef séð allt að 150 rpm í lok spretta hjá mér, og þá skipti ég ekki um gír til að taka enga sénsa.

Nýtt ár, nýjir möguleikar

Það er ansi langt síðan ég tók upp “pennann” og bloggaði smá, en það segir líka margt um hvernig veturinn hefur verið. Eftir síðasta sumar var hausinn þreyttari en líkaminn, og mér fannst gott að taka smá tíma til að slappa af, njóta góðs árangurs síðasta árs, og meta stöðuna fyrir framtíðina.

Haustið getur verið merkilega skemmtilegur tími ef notað rétt. Ég hef prufað undanfarin ár að gera ekki neitt eftir að keppnistímabilinu lýkur, hvíla líkamann, eða svo segi ég. Í hvert skipti hef ég endað á að gefast upp á hvíldinni, byrja of snemma á erfiðum og löngum æfingum og klára andlega orku allt of snemma yfir veturinn, og kem inn í vorið með þreyttann haus. Ég hef líka prufað að halda bara áfram að hjóla eins og venjulega, hugsa haustið eins og það sé vor, og fara bara á fullri ferð inn í veturinn, en það kemur heldur ekki alltaf vel út, sérstaklega þegar álagið eykst með árunum.

 

Ég breytti aðeins til í haust. Kvaddi einkaþjálfarann og hætti að hjóla eftir plani, og það viljandi. Ég hætti ekki að hjóla, heldur tók ég nokkurra vikna tímabil þar sem ég hjólaði nákvæmlega eins og mér sýndist. Ef mig langaði út að æfa stökkpallana á fjallahjólinu gerði ég það, og ekkert annað. Ég fór stundum út á cyclocross hjólinu, fann mér grasflöt og setti upp keilur, hring með uþb 20 beygjum sem tók um 1 mínútu að hjóla, og hjólaði hann þar til grasið var orðið að mold. Rólegir rúntar um hverfið til að skoða nýja slóða og nýja vegi. Hópæfingar með hjólahópum sem ég hafði alltaf hætt við að hjóla með “af því það passaði ekki inn í planið”.

Þetta var frelsandi, svo lítið sé sagt. Ég er ansi vanur því að hjóla samkvæmt plani, taka mínar æfingar hárrétt og gera það aleinn vegna þess að þær passa ekki við hópæfingar, hvort sem það er að hjóla í 4 tíma undir ákveðnu álagi, eða taka interval æfingar inn í skógi. En þetta var mín leið til að brjóta upp hversdagsleikann og taka smá “alternative” frí frá því sem ég geri restina af árinu.

Cyclocross keppnir hafa aldrei verið rosalega ofarlega á forgangslistanum mínum, en mér finnst þær skemmtilegar af mörgum mismunandi ástæðum. Þetta er til að byrja með frábær leið til að finna tilbreytingu frá fjallahjólinu, og til að komast í gegn um vetraræfingarnar með pínulitlum markmiðum, sem finnast í smákeppnum hér og þar á höfuðborgarsvæðinu í Danmörku. Kannski er helsta ástæðan fyrir því að ég tek þátt í þessum keppnum sú staðreynd að þetta er tæknileg áskorun fyrir mig. Ég vinn keppnir með því að vera sterkur, ekki tæknilega góður, og þá veit ég að það er gott að leggja áherslu á að æfa veikleikana. Cyclocross hjálpar með það 🙂

Janúar er að verða búinn og vetrarundirbúningurinn búinn að ganga vel, og “samkvæmt plani”, en næstu helgi ætla ég að bæta einni heimsmeistarakeppni við ferilskránna, þegar ég fer til Valkenburg í Hollandi, á HM í cyclocross. Þessi keppni, fyrir mér, snýst um upplifunina fyrst og fremst. Cyclocross er ekki forgangsatriði hjá mér, en ég er stoltur af því að eiga tækifæri á að taka þátt þarna fyrir Íslands hönd, þannig að ég ætla að grípa tækifærið, hafa gaman af þessu og reyna að lifa af í einni af erfiðustu brautum seinni ára!

Það styttist í keppnistímabilið, sem hefst með Andalucia Bike Race í lok Febrúar. Þaðan byrja æfingar að verða þyngri og styttri, með áherslu á fjallahjólið í tækni, og erfiðar interval keyrslur til að vera í formi fyrir 90 mínútna keppnir þar sem mælirinn er í rauðu frá upphafi til enda. Þetta verður rosalegt ár í keppnum, og ég er búinn að setja mér lengsta lista af markmiðum sem ég hef nokkurntíman gert, og planið er að fylgja því eftir með reglulegu bloggi 🙂

Að þjálfa eða vera þjálfaður?

Ég hef prufað bæði að vera með einkaþjálfara og reyna að skipuleggja sjálfann mig í æfingum og keppnum. Það getur verið ansi misjafnt hvernig maður skilgreinir “einkaþjálfara”, oftast fer það eftir kostnaði og metnaði hjá báðum aðilum.

Einfaldasta formið á einkaþjálfun að mínu mati er að hafa einhvern sem hefur góða þekkingu og reynslu, sem setur saman mánaðarlegt, eða vikulegt, æfingaplan. Planið byggir á almennri þekkingu um hvaða æfingar henta hverju sinni, og byggir á tímabili, tegund hjólara (götuhjólari, fjallahjólari, ofl) og markmiðum eins og keppnum eða stórum viðburðum.
Flóknasta formið, af því sem ég þekki, er einhver sem sér um allt sem tengist æfingum og keppnum, frá A til Ö. Æfingaplanið er sérhannað fyrir tegund hjólara, og þá mun nákvæmar (götuhjólari er sprettari eða klifrari? fjallahjólari er maraþon eða ólympísk týpa?), og miðar við power mælingar, greiningu á veikleikum og styrkleikum, og er sett undir smásjá þannig að hver dagur fær mikla athygli. Keppnisplanið er búið til í samræmi við þetta, þjálfarinn hefur reynslu af hvaða keppnir henta og hverjar ekki, og hvernig er best að raða upp svokölluðum “A-keppnum, B-keppnum og C-keppnum”. Álagspróf eru gerð reglulega til að athuga þróun á formi og fylgjast með því að æfingar séu að gera það sem þær eiga að gera.

En hvað er gott við að hafa þjálfara, hvað græðir maður mest af því, og hvað af þessu sem þjálfarinn býður upp á er hægt að leysa án hans?

Jú, þjálfarinn býr yfir ótrúlega miklu magni af reynslu og þekkingu. Hann hefur mögulega lesið allar bækurnar, greinarnar og viðtölin um æfingahugmyndir nútímans, en er það nóg?
Ég sé fyrir mér tvær tegundir af þjálfurum.

Annarsvegar sá sem hefur, jú, lesið allt um allar gerðir af æfingahugmyndafræðum, hefur lokið við þjálfunarnámskeiðin og getur þulið upp öll helstu hugtökin eins og TSS, NP, w’ balance, VAM, CTL, TSB ofl ofl. Hann þekkir þær pælingar sem eru gamaldags og hafa verið gerðar úreldar, og þekkir allar nýjustu aðferðirnar.

Hinsvegar er sá sem hefur sjálfur verið hinum megin við borðið, sem afreksíþróttamaður, og á að baki mörg ár af ótrúlega erfiðum æfingavetrum, tugi sigra, ósigra, og titla. Hann hefur farið í gegn um háu punktana og lágu punktana sem allir íþróttamenn upplifa, og hefur eigin reynslu af því að vera með þjálfara.

Persónulega myndi ég velja þann síðarnefnda. Að mínu mati skiptir bókaþekking gríðarlega miklu máli, og er grunnurinn af því að geta veitt ráðgjöf í æfingum, og að geta greint það sem vantar upp á til að íþróttamaðurinn geti orðið sterkari og betri. En það sem gerir þjálfarann enn betri er að hafa persónulega reynslu af því sem íþróttamaðurinn, sem hann er að aðstoða, er að ganga í gegn um. Það skiptir svo miklu máli að geta séð litlu smáatriðin sem eru að valda vandræðum, og sjást ekki á Strava eða Trainingpeaks. Það er svo margt sem íþróttamaðurinn sér sem þjálfarinn sér ekki, eins og andlega hliðin sem snýr að því hvernig er best að undirbúa sig fyrir stórmót, að takast á við aðra keppendur í miðri keppni, og að gleyma ekki til hvers maður er að þessu öllu.

Það sem mér finnst vera best við að hafa þjálfara er að taka af sjálfum mér ábyrgðina á því að búa til plan og fylgja því. Það hljómar kannski ekki vel, en staðreyndin er sú að það er auðveldara að svíkja sjálfann sig. Kannski er 4 tíma æfing á föstudaginn, sem inniheldur samtals um 30 mínútur af interval æfingum yfir þröskuld. Veðurspáin lítur vel út en þegar kemur að æfingunni er veðrið skelfilegt og aðstæður til æfinga ekki sem bestar. Hausinn fer í mínus, mann langar ekki að klæða sig í öll vetrarfötin og leggja af stað út í kuldann, og vera þar í ekki 1,2 eða 3, heldur 4 klukkutíma. Eftir tæpa 2 tíma er komið að interval æfingum og maður segir við sjálfann sig að það sé ekkert voðalega sniðugt að taka svona mikið á því í dag, líkaminn er þreyttur og það eru erfiðar æfingar um helgina. Það er kannski betra að stytta æfinguna til að forðast ofþjálfun og taka bara meira á því næst?
Þarna, fyrir mér, er þetta spurning um að vera góður við sjálfann sig og rúlla heim, sannfærður um að þetta hafi verið rökrétt ákvörðun.
En hvað ef æfingin var skipulögð af einkaþjálfaranum? Sá sem eyðir tíma í að setja saman plönin, spjallar við þig um árangurinn og framhaldið, og fær borgað fyrir það? Það er erfitt að óhlýðnast honum, þegar maður kemur heim fær maður skilaboð frá þjálfaranum, “afhverju kláraðiru ekki æfinguna í dag?”, mórallinn leggst yfir mann og manni líður eins og krakka í skóla sem skilaði ekki heimavinnunni.

Með góðri samsetningu af aga, metnaði, og vilja til að læra, er hægt að sjá um æfingarnar án aðstoðar. Eftir 3 ár með einkaþjálfa, sem gerði frábæra hluti fyrir mig og kom mér á “næsta level”, hef ég ákveðið að prufa að þjálfa sjálfann mig. Undanfarin 2 ár hef ég aðstoðað hina og þessa á Íslandi við æfingar og keppnisundirbúning, með góðum árangri. Ég hef meiri áhuga en mig grunaði á því að þjálfa og gefa af mér, en með tímanum hefur aukist sú tilfinning fyrir því að það sé ákveðin skylda að gefa af þeirri reynslu sem ég hef verið heppinn að geta safnað með því að keppa á atvinnumannastigi í hjólreiðum.

Það er endalaust hægt að lesa og læra um þessa hluti, svo lengi sem áhuginn er til staðar. Ekki gleyma þó að hafa gaman af þessu, stundum eru frjálsu, óskipulögðu dagarnir, bestu dagarnir. Hvort sem þú ert byrjandi eða lengra kominn, þá er mín besta ráðlegging einföld: vertu alltaf með einhvern betri/sterkari/sneggri fyrir framan þig eða með þér á æfingum. Spurðu þá sem hafa náð lengra en þú, út í allt milli himins og jarðar, oftast finnst þeim gaman að hjálpa til og gefa ráð.

Takk fyrir sumarið!

Keppnissumarið 2017 er búið. 3.árið í röð sem ég get hef getað litið á hjólreiðar sem atvinnugrein, og beitt mér af fullu afli til þess að ná sem lengst í keppnishjólreiðum.

Það er magnað að fá tækifæri til að hugsa og gera allt tengt hjólum í svona langann tíma. Að fá að afreka hluti eins og að taka þátt í heimsmeistaramótum, evrópumeistaramótum og heimsbikarmótum. Að standa á sömu ráslínu og bestu fjallahjóla og cyclocross keppendur í heiminum. Að vera fagnað sem Íslending, keppandi á stigi í sportinu sem enginn Íslendingur hefur sést á áður. Að búa til ómetanlegar minningar fyrir framtíðina.

Það fylgja þessu ótal fórnir, og það tekur sinn toll að frysta allt annað í lífinu til að uppfylla stærsta drauminn. Keppnishjólreiðar, sérstaklega með erlenda búsetu, getur verið einmanalegt líf á köflum, og manni getur fundist maður vera að missa af vinum og fjölskyldu á meðan æfingar og keppnir taka forgang. Þetta er réttlætanlegur kostnaður þegar góðum árangri er náð, og tækifærin sem bjóðast fullnýtt, sem mér finnst ég hafa gert undanfarin ár.

Mér finnst þó mikilvægt að taka fram að þetta er ekki eins manns verkefni. Án fjárhagslegs stuðnings frá Novator og góðum vinum væri ekkert af þessu hægt, en áður en ég náði svona langt þurfti að byrja á því að leggja grunninn, í samstarfi við vini og fyrirtæki sem sjá tækifæri í samstarfi. Ég mun alla ævi vera þakklátur fyrir þá aðstoð sem ég hef fengið, styrkina sem hafa haldið mér á lofti, og stuðning vina og fjölskyldu.

Stór munur á þessu ári og árinu áður er hversu mikinn tíma fjallahjólið fékk, bæði á æfingum og í keppnum. Ég skilgreini mig sem fjallahjólara, þannig að það er eðlilegt að ég geri meira af því heldur en öðru. Ólíkt fyrstu árunum í sportinu, þegar ég tók þátt í nokkurnveginn öllu sem bauðst, þá hefur ákveðin sérhæfing fylgt því að klifra á hærra stig í alþjóðlegum keppnum.

Bikarmótin í fjallahjólum voru aðeins 3 talsins, en þó var gaman að geta mætt í þau öll, vel skipulögð af HFR og Tind. Upp úr stendur ný braut á Hvaleyrarvatni, skemmtilega krefjandi braut sem líkist brautum sem finna má erlendis.

RB Classic var merkileg keppni, en þrátt fyrir að hafa mætt til leiks í góðu formi 2014 og 2015, hafði mér ekki enn tekist að gera allt rétt í keppni þar sem keppnin getur endað á hverri sekúndu vegna erfiðrar brautar. Í ár gekk allt upp og ég stóð uppi sem sigurvegari, feginn að bæta þessarri keppni við safnið. Þetta er sennilega uppáhalds götuhjólakeppnin mín á Íslandi, að hluta til vegna þess að vegalengdin hentar mér, en helst vegna þess að brautin er byggð á „classic“ keppnunum í Belgíu og Hollandi, þar sem holóttir vegir og hellusteinar ráða ríkjum og láta keppnina snúast um meira en að hjóla hratt og í góðum hóp.

WOW Cyclothon stendur uppi sem hápunktur sumarsins í Íslenskum keppnum. Ég fékk tækifæri til að taka þátt með góðum vinum og spennandi útlendingum fyrir lið CCP. Með samstarfi við Zwift liðið sigraði liðið mitt eftir frábæra keppni. Það er eitthvað magnað við þessa keppni sem dregur mann að henni á hverju ári, en þetta ár er sennilega það besta hingað til.

Íslandsmeistaramótin í fjallahjólreiðum (ólympískum og maraþon) voru spennandi í ár, þökk sé góðri samkeppni frá Hafsteini sem virðist ætla að vera í góðu formi alla ævi. Vesturgatan hefur aldrei verið jafn góð, en ólíkt fyrra ári þar sem ég hjólaði alla leið einn, var keppnin þetta árið töluvert harðari og spennan entist alveg fram að lokametrunum. Sama gildir um ólympísku keppnina, ég leiddi keppnina en var aldrei með nógu öruggt forskot til að geta slakað á, þannig að ég þurfti að setja allt sem ég átti í þetta. Báðir titlarnir voru þó endurnýjaðir, sem gerir góða hluti fyrir mig í UCI keppnum erlendis, þökk sé stigunum sem þessar keppnir gefa.

Ferðalögin til Íslands eru stundum löng og gefa góðann tíma til að heilsa upp á sem flesta og njóta heimalandsins, en flestar eru þær þó heldur stuttar. Það gerir það enn verðmætara að heilsa upp á vini mína í Kríu, grípa góðann mat á Saffran, eða fylla á bensíntankinn fyrir keppnir sumarsins hjá Hreysti. Reglulegar heimsóknir til Iron viking fyrir Compressport vörur, og að heilsa upp á Rikka í Garmin búðinni, og ævinlega skemmtilegt spjall við Ævar á Slippnum á meðan hann forðar mér frá hellisbúa lúkkinu. Ferðalagið sjálft er í boði WOW air, sem hafa aðstoðað mig með ferðalögin frá upphafi. Í ár bættist við Skoda á Íslandi, eftir frábært samstarf við Skoda liðið sem ég keppti með í WOW Cyclothon árið 2016, og ég gæti ekki verið ánægðari með það sem við höfum gert og ætlum okkur saman í framtíðinni.

Eins og sjá má er listinn af stuðningsmönnum og styrktaraðilum langur og öflugur. Þetta er eina leiðin til að ná langt í sporti sem gengur á einhverju sem enskumælendur myndu kalla „grit“. Eins konar þörf fyrir að standa upp aftur eftir hvert áfall eða mistök.

Ef ég er ekki að gera þetta fyrir sjálfann mig, eða þá sem styðja mig og búast við góðum árangri, þá veit ég ekki afhverju ég er að þessu. Draumurinn er skýr: að ná eins langt og ég get, með þann tíma sem mér er gefinn, og þau tækifæri sem mér bjóðast. Þetta er gluggi sem lokast hægt og rólega, og ef maður stekkur ekki í gegn núna, þá verður það ekki gert seinna.

Takk allir fyrir mig í sumar. Takk fyrir að koma út að hjóla með mér, skoða brautir og blaðra um nýjustu græjurnar. Takk allir sem ég keppti við og veittu mér samkeppni. Takk fyrir að koma með í keppnisferðir og aðstoða mig með allt sem lætur mér líða eins og ég geti fókusað á eitt: að hjóla hratt. Takk fyrir að hafa trú á mér sem íþróttamanni, að líta upp til mín sem fyrirmynd, og leyfa mér að gefa af þeirri reynslu sem ég hef safnað. Takk fyrir að draga mig niður á jörðina þegar sjálfið nær aðeins of háum hæðum, takk fyrir að minna mig á afhverju ég er að þessu, og takk fyrir að hvetja mig áfram.

Lengsta keppnin hingað til: EM í maraþonfjallahjólreiðum

Maraþon er svolítið sérstök grein. Mér finnst greinin skemmtileg því hún er allt önnur tegund af áskorun heldur en XCO keppnir. Á meðan XCO keppnir eru haldnar í flóknum og tæknilegum brautum, sem eru oft um 4km að lengd, og farnir 5-9 hringir eftir aðstæðum, þá eru maraþonkeppnir oftast haldnar í einum risastórum hring, allt frá 60km upp í 160km, en það er breytilegt eftir klifri og tæknilegum atriðum sem hafa áhrif á meðalhraða keppenda. XCO keppnir eru bundnar við 90 mínútur en það er engin tímarammi í maraþon keppnum, bara vegalengd og grófar hugmyndir um lokatíma, sem getur verið frá 3 tímum allt að 7-8 tímum. Áskorunin sjálf snýst meira um langtímaúthald, frekar en sprengikraft. Það þarf að kunna að stilla sig af frá upphafi, þekkja eigin styrkleika mjög vel til að geta látið orkubirgðir endast alla leið, og það er algjört lykilatriði að kunna að passa upp á orkustöðu líkamans. Líkaminn getur bara geymt um 90 mínútna virði af orku fyrir átök af þessarri tegund, þannig að svona keppni er ekki unnin án aðstoðarmanna sem vita hvað þeir eru að gera. Oft eru drykkjarstöðvarnar margar, og mikilvægt að geta fengið nýja brúsa fulla af vatni, orkugel og ýmislegt annað til að geta haldið fullri ferð.

Þetta var eina maraþonkeppnin á planinu mínu í ár, á atvinnumannastigi. Ég hugsa að með tímanum fari þeim að fjölga, þar sem úthald vex með aldrinum, og endist mun lengur en sprengikraftur. Um er að ræða Evrópumeistaramótið, næst stærstu maraþonkeppni heims, á eftir sjálfu Heimsmeistaramótinu. Keppnin var haldin í hinum heppilega nefnda bæ, Svit, í Slóvakíu, en það er alltaf ákveðið ævintýri að fara örlítið austar í Evrópu til að taka þátt í hjólreiðakeppnum. Ég ákvað snemma í vetur að ég myndi taka þátt, þegar ég var að leggja línurnar að stærstu keppnum sumarsins, en þar á meðal voru 2 Evrópumót og amk 1 heimsbikarmót. Það sem ég gerði hins vegar ekki fyrr en 2 vikum fyrir keppni, var að skoða nákvæmlega hvað ég væri að koma mér út í. Eina sem ég hafði athugað var dagsetning og staðsetning.

Það var ákveðið sjokk að skoða upplýsingabæklingin fyrir keppnina. 134km var lengdin á brautinni, og 4200m hækkun samtals. Það er tæplega hálft Everest í klifri. Vegalengdin hljómaði ekki svo slæm þar til ég sá að áætlaður sigurtími væri 6 tímar. Úff! Lengsta keppnin hingað til í ár, var 100km dagleið í Andalucia Bike Race í Mars, en sú tók ekki mikið meira en 3 tíma vegna þess hvað  brautin var flöt og einföld.

Ferðalagið hófst með 1600km bíltúr frá Kaupmannahöfn til Svit í Slóvakíu, en til að minnka álag þá var ákveðið að taka þetta með millilendingu í Berlín, þar sem skyldustopp var á einum af bestu kebabstöðunum, K-Ups. Á fimmtudagskvöldi vorum við mætt til Svit, svolítið þreytt eftir aksturinn en þó ágætlega úthvíld. Það getur verið ákveðinn mínus að taka 2 daga án hjóls í röð, og ég reyndi að sporna gegn “lötum löppum” með því að taka léttann hring á föstudeginum, eftir að við fórum og náðum í keppnisgögn. Sören Nissen var búinn að hafa samband við mig og við fórum saman í að skoða síðustu 10km í brautinni, og fyrstu 10km, en það var lítill tími til að skoða restina af brautinni. Brautarskoðun er ekki alveg jafn gríðarlega mikilvæg fyrir maraþonkeppnir, vegna þess hversu mikið minna tæknilegar þær eru, og vegna vegalengdarinnar, geta sekúndur ekki skipt jafn miklu máli og í styttri keppnum. Eftir föstudagsæfinguna var laugardagurinn tekinn rólega, og passað að borða vel til að fylla á bensíntankinn fyrir keppnina. Við nýttum daginn þó í bíltúr um svæðið, komum við á öllum drykkjarstöðum sem Iðunn þurfti að finna á meðan keppnin væri í gangi, og merktum inn á kort allar staðsetningar, í réttri röð. Veðurspáin var með besta móti, og aldrei þessu vant var ég ansi spenntur fyrir óvenju köldum sunnudagsmorgni. Á meðan flestir dagar fram að keppni voru milli 25 og 30 gráðu heitir, sem er allt, allt of mikið fyrir Íslending, þá lofaði veðurspáin smá rigningu snemma morguns fyrir start, og ekki nema 13 gráðum eða svo, en þó sól.

Keppnisdagurinn byrjaði með öflugum morgunmat, sem samanstóð af hafragraut, samlokum, banönum og smá Nutella. Hótelið, sem er ekki beint á hæsta gæðastaðli, var ekki að bjóða upp á mikið úrval í morgunmat, og ekki hjálpaði að startið var kl 8 um morguninn. Ég reyni mitt besta, og tekst oftast, að halda mig við 3 tíma reglu þegar kemur að mat fyrir keppni, en þetta þýddi að ég þurfti helst að vera að  borða um 5-leytið. Það gekk því miður ekki eftir, því ég fékk lítinn svefn um nóttina á skelfilega erfiðu rúmi, og tímdi ekki að fórna tímanum sem ég þurfti til að vera úthvíldur. Ég gerði þau mistök að borða of seint, og var strax farinn að finna fyrir því þegar keppnin byrjaði. Við skelltum okkur niður að startinu um klukkutíma fyrir, og ég var svo heppninn að vera lesinn upp fyrstur keppenda (fyrir utan top 10 sem fá sérmeðferð), þannig að ég fékk góðann stað í startinu.

Keppnin fór af stað í rigningu og þoku, og það veður var þannig út daginn. Hópurinn, sem var um 70-80 manns, fór á fullri ferð inn að fyrsta klifrinu, sem var einnig síðasta niðurbrekkan á leiðinni til baka. Stígurinn var þröngur og menn voru að gera mistök, þannig að ég þurfti að hlaupa smá spotta með hjólið áður en ég komst upp á topp, þar sem var stuttur flatur kafli fyrir niðurbrekku hinum megin á hólnum. Eftir þá brekku var hópurinn búinn að slitna aðeins í sundur, en eftir öfluga keyrslu á malbiki náðu flestir aftur inn í “pelotonið”. Löng keppni þýðir að menn hjóla örlítið meira eins og í götuhjólakeppni, og þar sem næsti stóri kafli var eitt samfellt klifur sem tók um 60 mínútur, voru flestir á því að halda hópinn og spara orku. Það var þó ekki mikil orka spöruð því ég leit reglulega á mælinn á leiðinni upp og sá oftar en ekki 400 vött eða meira, sem eru hörkuátök á mínum skala. Þegar þessi langa brekka var búin var aftur snúið niður, og í átt að fyrstu drykkjarstöð, en sem betur fer þurfti ég ekki mikla aðstoð svona snemma í keppninni þannig að ég hélt fókus á að hanga í fremstu mönnum. Enn ein langa brekkan byrjaði, álíka löng og sú fyrri, en þarna voru tæpir 2 tímar búnir af keppninni, og þreytan farin að segja til sín. Hópurinn byrjaði að losna í sundur, fremstu menn voru farnir að gera árásir á hvorn annan til að mynda litla hópa, og litlu karlarnir voru að missa af lestinni. Ég fann að þarna var komið að stundinni þar sem ég þarf að ákveða hvort ég vil eyða öllu sem ég á í að halda í við fremstu menn, eða slá af til að spara kraftana. Ég er ágætur í svona löngum keppnum og stóð mig vel á HM í fyrra, þannig að ég ákvað að taka áhættu og reyna mitt besta þar til ég gæti ekki meira. Þetta gekk vel í dágóða stund, en ég endist ekki að eilífu í hámarks átökum þannig að ég gat einfaldlega ekki haldið sama hraða og aðrir.

Ég missti af hópnum, en var langt frá því að vera fyrstur til þess. Þarna tók við langur kafli í svokölluðu “no man’s land”, en ég hjólaði aleinn í vel yfir klukkutíma, á leðinni í stærsta klifrið. Á þessum klukkutíma byrjaði ég loksins að finna fyrir slæmum maga eftir erfiðann morgunn, og á tímabili stoppaði ég reglulega í nokkrar sekúndur því mér fannst ég þurfa að kasta upp. Þetta er mjög óþægileg tilfinning í miðri keppni, en á endanum skilaði ég hluta morgunmatarins og var fljótlega orðinn betri í maganum. Þetta hjálpaði mér að vera duglegri við að drekka reglulega, og fá mér smá af nestinu sem ég fyllti vasana af. Stærsta klifrið kom fljótlega, en þá voru um 3 tímar liðnir af keppninni og óþægilega tilfinningin um að ég væri ekki einusinni hálfnaður, var farin að læðast að mér. Að klifra úr 900m hæð upp í 1900m hæð tók mig rétt rúmlega klukkutíma, en þarna var ég byrjaður að ná mönnum, á sama tíma og aðrir voru farnir að ná mér. Uppleiðin var viðburðalítil fyrir utan það að ég náði 5 manns, og 5 aðrir náðu mér, þannig að ég skellti mér niður eftir að ég komst upp úr skýjunum á toppinn, og hélt áfram, glaður með að vera búinn með megnið af klifri dagsins.

Áður en ég vissi af voru 100km búnir og ég kominn í góðann gír eftir um 5 klukkutíma af hjólreiðum með hjartað í botni. Ég hélt áfram að ná hinum og þessum og neyddist sjaldan til að hleypa fram úr mér. Þarna var mér farið að líða ágætlega, og var ákveðinn í að keyra mig út næsta klukkutímann, en persónulegt markmið í keppninni var að ná að klára undir 6 tímum og 30 mínútum. Einn hjólari merktur Trek sem hafði verið með mér í gegn um mestalla keppnina var búinn að stinga mig af, og tveir aðrir komnir á hælana á mér, en eftir síðasta drykkjarstoppið þar sem ég fékk gríðarlega hjálplegt orkugel frá Iðunni, fann ég smá auka styrk til að pína mig áfram. Ég sá skilti merkt 10km og vissi strax hvað það þýddi. Lítið eftir, og ég var farinn að sjá í skottið á Trek gæjanum, og ekki nóg með það heldur var ég búinn að stinga af hina félagana sem voru að ná mér áður. Ég flaug fram úr Trek treyjunni á leiðinni upp síðasta stóra klifrið, fór inn á sama hól og ég hafði klifrað upp úr andstæðri átt í byrjun keppnninnar, og byrjaði að skjótast niður ansi bratta og langa brekku, sem var þröng og umkringd grjóti og trjám. Svo flaug ég á hausinn.

Ég valdi ranga línu neðst í brekkunni, en ég man ekki meira en það. Ég man að ég var í loftinu, á 40km hraða, og ég vissi að þetta myndi enda illa. Ég man að ég átti samtal við brautarvörð, man þó ekki hvernig hann leit út, en ég horfði niður og sá hjálminn minn brotinn á nokkrum stöðum. Ég man að ég sagði aftur og aftur við gæjann að ég þyrfti að klára keppnina, og loksins hleypti hann mér af stað. Mér finnst eins og ég hafi hjólað í um 10 mínútur áður en ég kom í mark, en eftir smá skoðun á Strava sá ég að ég var í um 20 mínútur að þessu, eftir 8 mínútna stopp. Dagurinn og nóttin var ótrúlega erfið en ég var blár og marinn út um allann líkamann. Sérstaklega á baki og mjöðm, en það var ekki fyrr en daginn eftir sem ég fann fyrir líklega brákuðu rifbeini. Erfitt að anda, hlæja, og ýmis takmörkuð hreyfigeta.

 

Það breytir því þó ekki að ég er stoltur af því að hafa náð 35.sæti á svona stóru móti, og það með tímanum 6klst og 57 mín. Ég veit að ég hefði getað komist í mark um 15 mín fyrr ef ég hefði ekki flogið á hausinn, en aðalatriðið var að klára þetta, til að gera alla vinnuna og kostnaðinn í kringum þetta verkefni, þess virði. Þetta var mín fjórða þáttaka á Evrópumeistaramóti í ýmsum greinum, en fyrsta þáttaka Íslands í maraþon greinninni, og mjög gaman að hafa náð að flagga Íslenska fánanum á svona stórum viðburði. Sumarið er þó ekki búið, og þó ég taki mér nokkra daga, jafnvel viku, til að ná mér eftir meiðslin, verður gaman að takast á við síðustu keppnir sumarsins, og klára keppnistímabilið með stæl!

Dagarnir fyrir keppni

Ég hef alltaf verið varkári hjólarinn, sem tekur aðeins meiri tíma í að skoða hlutina áður en ég læt vaða. Ég tók snemma eftir þessu þegar ég byrjaði að leika mér á BMX hjóli 15 ára gamall með strákunum í hverfinu, þegar við vorum að byrja að feta okkur áfram á “grunnstiginu”. Bunnyhop upp stærri og stærri kanta, smá snúningur á hjólinu í loftinu hér og þar, fyrst 90 gráður með fullt af dettum, svo 180 gráður og loks 360 gráður, grasbrekka sem breyttist í stökkpall, og skúrar notaðir til að láta sig detta fram af, í lendingu eða flata jörð, ég var alltaf síðastur til að þora, og láta vaða. En það tókst alltaf allt á endanum. Ég náði stökkinu, kláraði “trikkið”, lenti droppinu, en stundum var það eftir að allir aðrir voru löngu búnir að ná þessu, og þá hafði afrekið tapað einhverju gildi fyrir mér, og öðrum. Ég held þó að ég hafi, með þessarri varkárni, sloppið við allskonar meiðsli og brotna hjólaparta, þannig að ég skammast mín ekki mikið fyrir að vera ekki sá fyrsti til að prufa eitthvað heimskulegt, sama hversu frábær maður lítur út fyrir að vera ef það tekst.

Undirbúningurinn fyrir fjallahjólakeppni er langt ferli, sem skiptist í marga hluta, en er ekki alltaf jafn flókið. Einföldustu keppnirnar eru til dæmis minni keppnirnar á Íslandi, eins og Heiðmerkuráskorunin eða slíkar keppnir. Það þarf ekki að plana mikið fyrir þær, en sama hversu einföld keppnin er, eða hversu oft maður hefur tekið þátt áður, þá er alltaf hægt að klúðra smáatriðum sem maður tekur sem gefnum. Erlendar keppnir bæta við nýrri vídd, þegar kemur að skipulagi á ferðadögum, flugi, bíl, dóti sem þarf að pakka, hóteli eða gistihúsi, skráningu í keppnina, aðstoðarmenn, og ýmislegt annað.

En hvernig tæklar maður hlutina þegar komið er á staðinn? Það sem skiptir sennilega mestu máli í fjallahjólakeppnum er brautin.

Mér finnst mikilvægt að eyða nógu miklum tíma í brautinni til að líða vel með alla hluta hennar, og að geta rúllað hana í heilu lagi, á góðum hraða, án vandræða. Það er lykilatriði að finna gott jafnvægi í brautinni, þekkja erfiðu kaflana, og rólegu kaflana, vita hvar á að gefa allt í botn og hvar er hægt að slaka á, án þess að tapa tíma. Allir hafa sína veikleika, allir hjólreiðamenn eru misjafnir, og það getur verið svo margt sem kemur manni úr jafnvægi. Brattar brekkur, laus möl, “offcamber” beygjur (td hægri beygja sem er í brekku sem hallar til vinstri), trjárætur, stór grjót, stökkpallar, háar hengjur, mjög brattir niðurkaflar, þröngar beygjur, sandur, og svo mætti lengi telja. Það er líka misjafnt eftir fólki hvernig veðuraðstæður breyta brautinni, sumir verða óöruggir þegar það byrjar að rigna, og þétt mold verður að rennisleipri drullu, trjárætur verða ótrúlega sleipar, og grjótakaflar verða bara frekar óskemmtilegir. En sumir elska það, og nýta sér eigið öryggi í hættulegum aðstæðum, til að ná yfirhöndinni gegn þeim sem vilja passa sig meira, og þora ekki að sleppa tökum og taka sénsa.

Ég legg oft á minnið þá kafla sem standa mest upp úr, til að hjálpa mér með að komast yfir áskoranir framtíðarinnar, eftir því sem ég prufa mig áfram í fleiri keppnisbrautum. Grjótakaflinn í heimsbikabrautinni í Nove Mesto var alvöru áskorun, og sama gildir um þreföldu stökkpallana í Mílanó. Rennisleipa og langa brekkan á heimsmeistaramótinu í Lúxemborg var ótrúlega flókin í hausnum á mér, en einfaldaðist mikið þegar ég prufaði hana loksins. Fyrsti tæknikaflinn í heimsbikarbrautinni í Lenzerheide byrjar með öflugu sikksakki, í sleipum trjárótum og miklum niðurhalla, en verður þægilegur þegar maður er ekki umkringdur 100 hjólurum, föstum í tregt. Á EM í XCO í fyrra, í Huskvarna, var merkilega flókin hægri-vinstri beygja, sem lá niður grjót, með mjög bröttum og þröngum beygjum, þar sem maður varð að finna réttu línuna til að ná kaflanum án vandræða.

Ég byrja á að rúlla brautina í rólegheitum, passa að fara ekki of geyst í brött klifur, hef augun á flestum tæknilegum köflum, en er ekkert sérstaklega að vanda mig við að finna réttu línurnar til að byrja með. Ég stoppa á erfiðustu köflunum, skoða mig um, glápi aðeins á línurnar og reyni að sjá hvernig er best að tækla, og fylgist með reyndari keppendum prufa sig áfram. Ef kaflinn virðist ekki vera of erfiður, þá prufa ég, en annars held ég áfram og geymi kaflann þar til síðar.
Ég hef gert þau mistök að einblína á kafla sem var of erfiður fyrir mig, en mér fannst ég verða að ná honum til að geta liðið vel í brautinni. Mistökin voru að ég eyddi svo miklum tíma í að æfa þetta, að ég hugsaði ekkert um restina af brautinni, og var ekki undirbúinn fyrir marga aðra kafla þegar kom að keppninni. Eftir þetta lærði ég að líta fljótlega á þá kafla sem mér finnst erfiðir, en gleymi þó ekki heildarmyndinni, sem er öll brautin.
Það er misjafnt hversu mikinn tíma maður hefur til að æfa brautina. Keppnin er vanalega á sunnudegi, og stundum mæti ég á föstudegi og hef ekki mikið meira en 1-2 daga til að skoða brautina. Í stærri UCI mótum, eins og HM/EM/World Cup, þá eru fastir tímar á hverjum degi þar sem brautin er opin fyrir æfingar, en er lokuð annars, sem flækir málin meira. Mér finnst þægilegt að byrja rólega, fara þennan fyrsta hring, og meta stöðuna eftir hann, eftir því hversu flókin brautin er, og hvort mér finnst einhver kafli vera að flækjast fyrir mér. Þegar ég næ að fara nokkra hringi, á jöfnum hraða, og þarf ekki að stoppa neinstaðar, eða er ekki í sérstökum vandræðum, þá líður mér vel með brautina og mér finnst ég tilbúinn til að keppa.

 

Evrópumeistaramótið í ofhitnun

Ok, Evrópumeistaramótið í ólympískum fjallahjólreiðum (XCO). Keppnin var haldin í litlum bæ sem heitir Darfo Boario Terme á Ítalíu, inn á milli risafjalla á Lombardy svæðinu, sem er þekkt í götuhjólreiðum. Bærinn er á neðsta punkti í litlum dal, en keppnin var færð þangað eftir ákvörðun UEC (Evrópusambandið í hjólreiðum) um að hætta við að halda hana á upprunalegu staðsetningunni í Istanbúl. Brautinni var vippað upp af brautarhönnuðum á svæðinu á aðeins 2 mánuðum, og það er magnað að sjá hvað hefur gerst á þessum tíma, en svæðið er ekki mikið meira en einn stór hóll, fullur af grasi, trjám og grjóti, en engum hjólaleiðum. Útkoman var braut sem mætti segja að sé á World Cup stigi í erfiðleika.

Hjólreiðasamband Íslands var ekki með neina skipulagða ferð í þessa keppni, en það breytti litlu fyrir mig og Gústaf, sem kom með í ferðina, því hún hefur verið á planinu frá því fyrir áramót, og líkt og Evrópu -og heimsmeistaramótin voru farin án stuðnings árið 2016, þá var lítið mál að halda því áfram. Við vorum bara 2 keppendur, og þurftum því að sjá um að aðstoða hvorn annan, en sem betur fer vorum við að keppa á sitthvorum deginum.

Við komum með flugi til Mílanó á miðvikudagsnótt, og eftir stutta dvöl á flugvallarhóteli tókum við bílaleigubíl og rúntuðum að hótelinu, sem er í um 40mín akstursfjarlægð frá brautinni. Þar sem svona stórmótum fylgja allskonar formlegheit, eins og liðsstjórafundir, lokaðir æfingatímar, margar keppnir yfir marga daga, og ýmisskonar skipulagsverkefni, náðum við ekki sem mestum tíma til að æfa brautina, en nýttum þó tímann eins vel og við gátum.

Í stuttu máli er brautin 4km, inniheldur langt klifur og langt brun niður, í afskaplega bröttum brekkum sem eru gerðar að mestu leyti úr grófri möl, mold og grasi, með sléttum grjótum inn á milli. Þar á milli er einn sérlega tæknilegur klettur, sem þarf að fara mjög varlega að til að fljúga ekki framfyrir sig og yfir stýrið, nokkrir kaflar með sleipum hnullungum sem þarf að rúlla varlega, þröngum beygjum inn á milli brattra niðurkafla, og smá “pumptrack” í endann. Ég lenti í því óhappi á æfingu að fara full hratt og endaði framan á tré, skaust yfir stýrið og lenti á báðum fótum, en því miður brotnaði stýrið við höggið. Fimmtudagurinn fór því í að leita að bráðabirgðastýri, til að geta haldið áfram undirbúningi fyrir keppnina.

Það má segja að stærsti óvinurinn þessa vikuna hafi verið hitinn. Á þessum tíma árs er afskaplega heitt á þessum heimshluta, sérstaklega þegar maður er staddur í djúpum dal, milli risafjalla, þar sem myndast eins konar hitapollur. Flestir dagarnir voru milli 25 og 30 gráðu heitir, og það var augljóst frá upphafi að þetta myndi hafa áhrif á okkur Gústa. Við höfum eytt síðustu vikum á Íslandi, þar sem við höfum vanist hitastiginu þar, á ansi köldu sumri, og þannig vorum við engann veginn tilbúnir í þessa hitabreytingu.

Á föstudaginn var ég loksins orðinn ágætur í brautinni, en það verður að segjast að ég hef sjaldan verið jafn “off” þegar kemur að svona brautum. Það er ekkert endilega það að brautin hafi verið óvenju erfið, hafandi keppt í World Cup brautum og heimsmeistaramótum, ég bara komst einhvern veginn aldrei í stuð í þessum aðstæðum. En það þýddi lítið að láta það leggjast illa í mig, og ég hristi allar slæmar tilfinningar af mér í morgun, á sjálfum keppnisdeginum.

Keppnin byrjaði með látum, á heitasta tíma dagsins (34 gráður), og þeir bestu í Evrópu voru allir klárir í slaginn. Mitt plan var að fara í gegn um fyrsta hringinn án þess að reyna of mikið á mig, til að spara orku sem fer oft til spillis í tilraunum til að taka fram úr öðrum keppendum, á þröngum stígum og bröttum brekkum. Planið hélt áfram á beinu og flötu köflunum á malbiki í kring um byrjunar og endamarkið, en skv UCI reglum þarf þetta svæði alltaf að innihalda greiða kafla, sérstaklega í átt að markinu og eftir það, en þar ætlaði ég að spara sem mesta orku til að geta farið hratt upp brekkuna, en þar var planið að fara eins hratt og ég gæti til að nýta klifurhæfileikana til fulls.

Þetta gekk, nokkurnveginn. Vandamálið er að ég fann strax fyrir áhrifum hitans, þar sem púlsinn fór upp úr öllu valdi á aðeins nokkrum mínútum, og aflið var engann veginn í samræmi við púlsinn. Þannig hélt þetta áfram, en á fyrsta hring var umferðarteppan mikil á köflum, og ég þurfti reglulega að hoppa af hjólinu, labba með það á eftir öllum fyrir framan mig, og hoppa aftur á það til að komast af stað. Ég átti enga orku í dag, gjörsamlega grillaður í hitanum og gat engann veginn nýtt það form sem ég er í þessa dagana. Þetta er mjög svekkjandi, sérstaklega í ljósi þess að síðustu helgi, á Íslandsmeistaramótinu í XCO, komst ég nálægt því að setja mínar bestu tölur í afli, en var þó ekki að leggja mig allann fram. Gústaf stóð sig hinsvegar með prýði í drykkjarstöðunum, og hjálpaði mér með brúsa fullann af vatni, ómissandi aðstoð í svona keppnum, og alltaf vel metið. Á mínum síðasta hring lenti ég í hinni óöfundsverðu stöðu að fremstu menn (Florian Vogel, Stephane Tempier, David Valero og Julien Absalon) nálguðust mig til að hringa mig, en ég var ekki nema hálfnaður með hringinn. Það sem eftir var, var brattur niðurkafli á þröngum stígum, og ansi erfiðar og þröngar beygjur í átt að markinu, og ég var engann veginn í standi til að láta vaða niður á fullri ferð, á sama tíma og ég var að stressast upp yfir þeirri hugmynd að verða fyrir fremstu mönnum, og hafa áhrif á keppnina um Evrópumeistaratitilinn. Ég lét mig rúlla niður og leit afturfyrir mig reglulega, en svo komu þeir, og ég fór út í kannt rétt í tæka tíð á meðan Absalon, sem var að verja titilinn, kom hrópandi fram úr mér. Ég rúllaði heim í mark, algjörlega bugaður, í 49.sæti.

Það er oft erfitt að útskýra erfiðleikastigið sem svona keppnir eru á, og hvar maður stendur í þeim gagnvart öðrum keppendum frá öðrum löndum. Með fleiri keppnum byrja ég að þekkja fleiri keppendur, sem ég keppi við oftar en einusinni, og fæ betri hugmynd um hvar ég stend. Ein vísbending um hversu erfið svona keppni er, sést þegar horft er á þá keppendur sem voru einnig á Smáþjóðaleikunum í San Marino í vor. Í þessarri keppni, ásamt mér, voru tveir keppendur frá Svartfjallalandi, þar á meðal Demir Mulic. Hann kláraði keppni í 50.sæti, nokkrum mínútum á eftir mér, en í miðri keppni hjóluðum við einn hring saman, þar til ég náði að stinga hann af. 51 keppandi kláruðu keppni í dag (6 störtuðu en kláruðu ekki), Demir vann silfur var í 9.sæti á Smáþjóðaleikunum í fjallahjólreiðum.

Framundan eru fleiri stórmót, en eitt af þeim er Evrópumeistaramótið í maraþon fjallahjólreiðum (XCM). Ég segi ekki mikið um það hér, en 134km og 4200m hækkun segir ansi mikið um það verkefni!

Novator
Kría hjól
SAFFRAN
Hreysti
WOW air
Lauf forks
Garmin búðin
Iron Viking
Tindur
Skoda á Íslandi
Slippurinn hárgreiðslustofa

Vesturgatan / ÍSLM XCM

Ég hljóma eins og biluð plata þegar ég tala um hvað þetta er uppáhalds keppnin mín á landinu, og hvað ég held upp á brautina, samkeppnina, veðrið, ferðalagið, og bara allt sem tengist Vesturgötunni, sem er 55km fjallahjólakeppni, hluti af Hlaupahátíð Vestfjarða.

Þetta er merkileg keppni á margann hátt. Stærst er sennilega sú staðreynd að þetta er ein af örfáum keppnum utan höfuðborgarsvæðisins, en það eitt að það er mikið ferðalag að komast á staðinn, gerir ótrúlega mikið fyrir þessa keppni. Þetta er ekki keppni sem maður tekur þátt í á “inn-út” háttinn, með litlu skipulagi og undibúningi. Það að finna gistingu fyrir helgina í kring um keppnina er nógu stórt verkefni fyrir flesta. Keppnin er haldin í pínulitla bænum á Þingeyri, og er hjólað inn í lítinn dal, upp og yfir fallegt skarð, þaðan niður í fjöru í öðrum firði, og farið meðfram ströndinni til baka á Þingeyri. Brautin sem slík er ansi merkileg því hún þróast á andstæðann hátt við hina klassísku hjólreiðabraut, þar sem byrjað er á rólegheitum og stærsta klifrið geymt þar til undir lokin til að magna upp spennuna fyrir lokasprettinn. Þetta gerir það að verkum að keppnin getur aðeins þróast á tvenna vegu: annaðhvort stingur maður af í stóra klifrinu í byrjun keppninnar, og heldur út alla leið, eða maður hjólar klifrið með öðrum og bíður eftir endasprett.

Ég átti ekki sem bestann undirbúning fyrir keppnina, síðasta vika var erfið og það voru ekki margir klukkutímar af svefni á næturna fram að föstudegi. Við Iðunn lögðum af stað frekar seint, og vorum ekki komin á Hótel Ísafjörð, þar sem við gistum, fyrr en um miðnætti, en þá átti ég eftir þessa vanalegu rútínu, kvöldið fyrir keppni. Hárið var skafað af löppunum, skinsuit gallinn dreginn fram og farið yfir alla næringu fyrir keppnina, og svo var farið að sofa, einhversstaðar milli 2 og 3 um nóttina. Við vöknuðum rétt fyrir 8 um morguninn, algjörlega mygluð og handónýt eftir afskaplega stuttann svefn, en rifum okkur af stað, beint í morgunmat og svo var rokið út í bíl og keyrt yfir á Þingeyri. Skoda á Íslandi hjálpaði þó helling með því að lána mér bíl fyrir helgina, og þetta langa ferðalag. Í stað þess að taka sénsa á gömlum og afskaplega tæpum bílnum okkar, fórum við á glænýjum Skoda Superb, þar sem fór vel um hjólið í risastóru skottinu. Þegar ein keppnishelgi inniheldur yfir 1000km af akstri þá skiptir þetta máli.

Eftir létta upphitun, slatta af hæum og hallóum, og snögga yfirferð á öllum búnaði, var komið að fjörinu. Þarna voru allir þessir helstu mættir, Hafsteinn, Bjarki, Gústaf, Stefán Haukur og svo margir fleiri góðir vinir, og allt stefndi í góðann dag. Meira að segja veðrið stóð við sitt, þrátt fyrir rigningu og þung ský fram að keppni, og við fengum smá hlýju og enga rigningu á meðan keppnin var í gangi. Planið mitt var ekki flókið, ég ætlaði að bíða þar til eftir að fylgdarbíllinn, sem leiðir okkur út úr bænum í átt að klifri dagsins, væri farinn, og myndi keyra upp hraðann eftir fyrstu beygju. Eins og keppnin þróaðist í fyrra sá ég lítið annað í stöðunni en að reyna að hjóla klifrið eins hratt og ég gæti, meta stöðuna á toppnum, og halda svo áfram eftir brunið niður að fjörunni. Þegar nokkrar mínútur voru liðnar af keppninni var staðan nákvæmlega eins og ég sá fyrir mér: ég var fremstur að keyra hópinn áfram, með Haffa á hælunum á mér, og restina fyrir aftan hann. Ég fann fyrir smá þreytu þegar bættist í hallann á leiðinni upp, en klifrið tekur um 20-25 mínútur í heildina. Á leiðinni upp byrjaði Haffi að missa takið á mér og það kom smá bil á milli okkar, en það var aldrei mikið. Hann var aldrei meira en 30 sekúndum á eftir mér, þrátt fyrir mínar tilraunir til að stækka bilið. Mér fannst ég vera ótrúlega þungur og svifaseinn á leiðinni upp, ekki alveg með sjálfum mér, og ég gat ekki hugsað um annað en hvað ég væri að fara hægt upp, og þetta væri engann veginn það sem ég á að geta gert. Gaman er að segja frá því að ég var í tómu rugli og setti nýtt met í þessu klifri, og Haffi með nokkurnveginn sama tíma, þannig að ég held að staðan hafi bara verið góð hjá okkur báðum!

Eftir klifrið byrjaði brunið niður, sem tekur um 8 mínútur og er eitt skemmtilegasta brun á landinu að mínu mati. Fullt af grjóti og drasli á leiðinni, árfarvegir til að hoppa yfir eða þruma í gegn um, og nóg af lausum beygjum með smá drullu hér og þar, en mestmegnis lausamöl og grjót. Ég stóð mig ágætlega á leiðinni niður, en þarna var ég þó kominn í varnarstöðu, búinn að ákveða að þetta yrði ekki dagurinn til að hjóla einn. Neðst í dalnum er stór á sem þarf að fara yfir, en það gekk ekki svo vel hjá mér. Á einhvern ótrúlegann hátt tókst mér að reka mig í grjót, losa báða fætur frá pedulunum á sama tíma, og reka mig hressilega fast í stýrið, á miðri leið yfir ánna. Þetta var óheppilegt þar sem Haffi var rétt á eftir mér, og náði mér þegar ég var að koma mér af stað aftur. Ég hentist í gang á eftir Haffa, sem var svo kurteis að nýta ekki tækifærið til að stinga mig af, og við tókum stefnuna á fjörugrjótið handan við hornið.

Megnið af leiðinni eru skemmtilegir slóðar og malarvegir, sem eru ansi beinskeittir og án tæknilegra kafla. Þó eru staðir þar sem maður þarf að tækla lausar og stórar beygjur, örfáar mjög brattar brekkur, og fyrst og fremst laust grjót og náttúrulegar hraðahindranir, sem gera fulldempuð hjól einstaklega heppileg fyrir þessa keppni. Við Haffi skiptumst á að keyra upp hraðann, en verandi báðir keppnismenn í húð og hár, vorum við aldrei í vafa um að hjálpast að við að hjóla þetta eins hratt og við gátum. Þegar komið var á lokakaflann, 10km malarveg sem breytist í malbik við og við, í áttina að Þingeyri, vorum við að skiptast á reglulega, og hjóluðum þetta eins og götuhjólakeppni. Skyndilega spyr Haffi hvort ég muni hver besti tíminn í brautinni sé, og þá átta ég mig á að við gætum átt möguleika á að bæta þann tíma, sama og Haffi var að hugsa. Ég var mikið að hugsa um endasprettinn, langaði að beita smá taktík og spara kraftana fyrir sprettinn, en ég hafði lika áhuga á að bæta metið þannig að ég geymdi taktíkina þar til alveg undir lokin.

Þegar uþb 1km var í mark vorum við alveg að rúlla inn í bæinn, komnir á malbikið og byrjaðir að hugsa um sprettinn. Ég náði að setja mig fyrir aftan Haffa, og þegar olnboginn hans bað um að ég tæki við fremst, gerði ég ekkert. Þá var samvinnan búin, og alvaran byrjuð. Við fórum saman inn í lokabeygjuna, og ég beið þar til aðeins um 150 metrar voru eftir, og gaf allt í botn fram úr Haffa. Það dugði til að taka sigurinn, aðeins 1-2 hjólalengdum á undan. Keppnin hefur ekki verið svona tæp síðan 2014, en það gerði hana svo ótrúlega góða í ár. Í fyrra sigraði ég einn, með nokkurra mínútna bili, en það var engann veginn jafn góð og spennandi keppni og þessi. Við bættum tímametið um 3 mínútur frá því 2014, sem gerir næsta ár að enn betri áskorun.

Ég stóð upp sem ósigraður Íslandsmeistari í maraþon fjallahjólreiðum, feginn að halda titlinum í eitt ár til viðbótar, fékk 10 verðmæt UCI stig, sem gagnast mér í erlendum keppnum, og skellti mér með Iðunni í sumarbústað hjá pabba, þar sem ég fékk loksins svefninn sem ég skuldaði sjálfum mér.

Takk kærlega fyrir mig, skipuleggjendur, keppinautar, styrktaraðilar, stuðningsmenn, vinir og fjölskylda!

Novator
Kría hjól
SAFFRAN
Hreysti
WOW air
Lauf forks
Garmin búðin
Iron Viking
Tindur
Skoda á Íslandi
Slippurinn hárgreiðslustofa

« Older posts Newer posts »

© 2021 On your left

Theme by Anders NorenUp ↑