Page 2 of 6

Að þjálfa eða vera þjálfaður?

Ég hef prufað bæði að vera með einkaþjálfara og reyna að skipuleggja sjálfann mig í æfingum og keppnum. Það getur verið ansi misjafnt hvernig maður skilgreinir “einkaþjálfara”, oftast fer það eftir kostnaði og metnaði hjá báðum aðilum.

Einfaldasta formið á einkaþjálfun að mínu mati er að hafa einhvern sem hefur góða þekkingu og reynslu, sem setur saman mánaðarlegt, eða vikulegt, æfingaplan. Planið byggir á almennri þekkingu um hvaða æfingar henta hverju sinni, og byggir á tímabili, tegund hjólara (götuhjólari, fjallahjólari, ofl) og markmiðum eins og keppnum eða stórum viðburðum.
Flóknasta formið, af því sem ég þekki, er einhver sem sér um allt sem tengist æfingum og keppnum, frá A til Ö. Æfingaplanið er sérhannað fyrir tegund hjólara, og þá mun nákvæmar (götuhjólari er sprettari eða klifrari? fjallahjólari er maraþon eða ólympísk týpa?), og miðar við power mælingar, greiningu á veikleikum og styrkleikum, og er sett undir smásjá þannig að hver dagur fær mikla athygli. Keppnisplanið er búið til í samræmi við þetta, þjálfarinn hefur reynslu af hvaða keppnir henta og hverjar ekki, og hvernig er best að raða upp svokölluðum “A-keppnum, B-keppnum og C-keppnum”. Álagspróf eru gerð reglulega til að athuga þróun á formi og fylgjast með því að æfingar séu að gera það sem þær eiga að gera.

En hvað er gott við að hafa þjálfara, hvað græðir maður mest af því, og hvað af þessu sem þjálfarinn býður upp á er hægt að leysa án hans?

Jú, þjálfarinn býr yfir ótrúlega miklu magni af reynslu og þekkingu. Hann hefur mögulega lesið allar bækurnar, greinarnar og viðtölin um æfingahugmyndir nútímans, en er það nóg?
Ég sé fyrir mér tvær tegundir af þjálfurum.

Annarsvegar sá sem hefur, jú, lesið allt um allar gerðir af æfingahugmyndafræðum, hefur lokið við þjálfunarnámskeiðin og getur þulið upp öll helstu hugtökin eins og TSS, NP, w’ balance, VAM, CTL, TSB ofl ofl. Hann þekkir þær pælingar sem eru gamaldags og hafa verið gerðar úreldar, og þekkir allar nýjustu aðferðirnar.

Hinsvegar er sá sem hefur sjálfur verið hinum megin við borðið, sem afreksíþróttamaður, og á að baki mörg ár af ótrúlega erfiðum æfingavetrum, tugi sigra, ósigra, og titla. Hann hefur farið í gegn um háu punktana og lágu punktana sem allir íþróttamenn upplifa, og hefur eigin reynslu af því að vera með þjálfara.

Persónulega myndi ég velja þann síðarnefnda. Að mínu mati skiptir bókaþekking gríðarlega miklu máli, og er grunnurinn af því að geta veitt ráðgjöf í æfingum, og að geta greint það sem vantar upp á til að íþróttamaðurinn geti orðið sterkari og betri. En það sem gerir þjálfarann enn betri er að hafa persónulega reynslu af því sem íþróttamaðurinn, sem hann er að aðstoða, er að ganga í gegn um. Það skiptir svo miklu máli að geta séð litlu smáatriðin sem eru að valda vandræðum, og sjást ekki á Strava eða Trainingpeaks. Það er svo margt sem íþróttamaðurinn sér sem þjálfarinn sér ekki, eins og andlega hliðin sem snýr að því hvernig er best að undirbúa sig fyrir stórmót, að takast á við aðra keppendur í miðri keppni, og að gleyma ekki til hvers maður er að þessu öllu.

Það sem mér finnst vera best við að hafa þjálfara er að taka af sjálfum mér ábyrgðina á því að búa til plan og fylgja því. Það hljómar kannski ekki vel, en staðreyndin er sú að það er auðveldara að svíkja sjálfann sig. Kannski er 4 tíma æfing á föstudaginn, sem inniheldur samtals um 30 mínútur af interval æfingum yfir þröskuld. Veðurspáin lítur vel út en þegar kemur að æfingunni er veðrið skelfilegt og aðstæður til æfinga ekki sem bestar. Hausinn fer í mínus, mann langar ekki að klæða sig í öll vetrarfötin og leggja af stað út í kuldann, og vera þar í ekki 1,2 eða 3, heldur 4 klukkutíma. Eftir tæpa 2 tíma er komið að interval æfingum og maður segir við sjálfann sig að það sé ekkert voðalega sniðugt að taka svona mikið á því í dag, líkaminn er þreyttur og það eru erfiðar æfingar um helgina. Það er kannski betra að stytta æfinguna til að forðast ofþjálfun og taka bara meira á því næst?
Þarna, fyrir mér, er þetta spurning um að vera góður við sjálfann sig og rúlla heim, sannfærður um að þetta hafi verið rökrétt ákvörðun.
En hvað ef æfingin var skipulögð af einkaþjálfaranum? Sá sem eyðir tíma í að setja saman plönin, spjallar við þig um árangurinn og framhaldið, og fær borgað fyrir það? Það er erfitt að óhlýðnast honum, þegar maður kemur heim fær maður skilaboð frá þjálfaranum, “afhverju kláraðiru ekki æfinguna í dag?”, mórallinn leggst yfir mann og manni líður eins og krakka í skóla sem skilaði ekki heimavinnunni.

Með góðri samsetningu af aga, metnaði, og vilja til að læra, er hægt að sjá um æfingarnar án aðstoðar. Eftir 3 ár með einkaþjálfa, sem gerði frábæra hluti fyrir mig og kom mér á “næsta level”, hef ég ákveðið að prufa að þjálfa sjálfann mig. Undanfarin 2 ár hef ég aðstoðað hina og þessa á Íslandi við æfingar og keppnisundirbúning, með góðum árangri. Ég hef meiri áhuga en mig grunaði á því að þjálfa og gefa af mér, en með tímanum hefur aukist sú tilfinning fyrir því að það sé ákveðin skylda að gefa af þeirri reynslu sem ég hef verið heppinn að geta safnað með því að keppa á atvinnumannastigi í hjólreiðum.

Það er endalaust hægt að lesa og læra um þessa hluti, svo lengi sem áhuginn er til staðar. Ekki gleyma þó að hafa gaman af þessu, stundum eru frjálsu, óskipulögðu dagarnir, bestu dagarnir. Hvort sem þú ert byrjandi eða lengra kominn, þá er mín besta ráðlegging einföld: vertu alltaf með einhvern betri/sterkari/sneggri fyrir framan þig eða með þér á æfingum. Spurðu þá sem hafa náð lengra en þú, út í allt milli himins og jarðar, oftast finnst þeim gaman að hjálpa til og gefa ráð.

Takk fyrir sumarið!

Keppnissumarið 2017 er búið. 3.árið í röð sem ég get hef getað litið á hjólreiðar sem atvinnugrein, og beitt mér af fullu afli til þess að ná sem lengst í keppnishjólreiðum.

Það er magnað að fá tækifæri til að hugsa og gera allt tengt hjólum í svona langann tíma. Að fá að afreka hluti eins og að taka þátt í heimsmeistaramótum, evrópumeistaramótum og heimsbikarmótum. Að standa á sömu ráslínu og bestu fjallahjóla og cyclocross keppendur í heiminum. Að vera fagnað sem Íslending, keppandi á stigi í sportinu sem enginn Íslendingur hefur sést á áður. Að búa til ómetanlegar minningar fyrir framtíðina.

Það fylgja þessu ótal fórnir, og það tekur sinn toll að frysta allt annað í lífinu til að uppfylla stærsta drauminn. Keppnishjólreiðar, sérstaklega með erlenda búsetu, getur verið einmanalegt líf á köflum, og manni getur fundist maður vera að missa af vinum og fjölskyldu á meðan æfingar og keppnir taka forgang. Þetta er réttlætanlegur kostnaður þegar góðum árangri er náð, og tækifærin sem bjóðast fullnýtt, sem mér finnst ég hafa gert undanfarin ár.

Mér finnst þó mikilvægt að taka fram að þetta er ekki eins manns verkefni. Án fjárhagslegs stuðnings frá Novator og góðum vinum væri ekkert af þessu hægt, en áður en ég náði svona langt þurfti að byrja á því að leggja grunninn, í samstarfi við vini og fyrirtæki sem sjá tækifæri í samstarfi. Ég mun alla ævi vera þakklátur fyrir þá aðstoð sem ég hef fengið, styrkina sem hafa haldið mér á lofti, og stuðning vina og fjölskyldu.

Stór munur á þessu ári og árinu áður er hversu mikinn tíma fjallahjólið fékk, bæði á æfingum og í keppnum. Ég skilgreini mig sem fjallahjólara, þannig að það er eðlilegt að ég geri meira af því heldur en öðru. Ólíkt fyrstu árunum í sportinu, þegar ég tók þátt í nokkurnveginn öllu sem bauðst, þá hefur ákveðin sérhæfing fylgt því að klifra á hærra stig í alþjóðlegum keppnum.

Bikarmótin í fjallahjólum voru aðeins 3 talsins, en þó var gaman að geta mætt í þau öll, vel skipulögð af HFR og Tind. Upp úr stendur ný braut á Hvaleyrarvatni, skemmtilega krefjandi braut sem líkist brautum sem finna má erlendis.

RB Classic var merkileg keppni, en þrátt fyrir að hafa mætt til leiks í góðu formi 2014 og 2015, hafði mér ekki enn tekist að gera allt rétt í keppni þar sem keppnin getur endað á hverri sekúndu vegna erfiðrar brautar. Í ár gekk allt upp og ég stóð uppi sem sigurvegari, feginn að bæta þessarri keppni við safnið. Þetta er sennilega uppáhalds götuhjólakeppnin mín á Íslandi, að hluta til vegna þess að vegalengdin hentar mér, en helst vegna þess að brautin er byggð á „classic“ keppnunum í Belgíu og Hollandi, þar sem holóttir vegir og hellusteinar ráða ríkjum og láta keppnina snúast um meira en að hjóla hratt og í góðum hóp.

WOW Cyclothon stendur uppi sem hápunktur sumarsins í Íslenskum keppnum. Ég fékk tækifæri til að taka þátt með góðum vinum og spennandi útlendingum fyrir lið CCP. Með samstarfi við Zwift liðið sigraði liðið mitt eftir frábæra keppni. Það er eitthvað magnað við þessa keppni sem dregur mann að henni á hverju ári, en þetta ár er sennilega það besta hingað til.

Íslandsmeistaramótin í fjallahjólreiðum (ólympískum og maraþon) voru spennandi í ár, þökk sé góðri samkeppni frá Hafsteini sem virðist ætla að vera í góðu formi alla ævi. Vesturgatan hefur aldrei verið jafn góð, en ólíkt fyrra ári þar sem ég hjólaði alla leið einn, var keppnin þetta árið töluvert harðari og spennan entist alveg fram að lokametrunum. Sama gildir um ólympísku keppnina, ég leiddi keppnina en var aldrei með nógu öruggt forskot til að geta slakað á, þannig að ég þurfti að setja allt sem ég átti í þetta. Báðir titlarnir voru þó endurnýjaðir, sem gerir góða hluti fyrir mig í UCI keppnum erlendis, þökk sé stigunum sem þessar keppnir gefa.

Ferðalögin til Íslands eru stundum löng og gefa góðann tíma til að heilsa upp á sem flesta og njóta heimalandsins, en flestar eru þær þó heldur stuttar. Það gerir það enn verðmætara að heilsa upp á vini mína í Kríu, grípa góðann mat á Saffran, eða fylla á bensíntankinn fyrir keppnir sumarsins hjá Hreysti. Reglulegar heimsóknir til Iron viking fyrir Compressport vörur, og að heilsa upp á Rikka í Garmin búðinni, og ævinlega skemmtilegt spjall við Ævar á Slippnum á meðan hann forðar mér frá hellisbúa lúkkinu. Ferðalagið sjálft er í boði WOW air, sem hafa aðstoðað mig með ferðalögin frá upphafi. Í ár bættist við Skoda á Íslandi, eftir frábært samstarf við Skoda liðið sem ég keppti með í WOW Cyclothon árið 2016, og ég gæti ekki verið ánægðari með það sem við höfum gert og ætlum okkur saman í framtíðinni.

Eins og sjá má er listinn af stuðningsmönnum og styrktaraðilum langur og öflugur. Þetta er eina leiðin til að ná langt í sporti sem gengur á einhverju sem enskumælendur myndu kalla „grit“. Eins konar þörf fyrir að standa upp aftur eftir hvert áfall eða mistök.

Ef ég er ekki að gera þetta fyrir sjálfann mig, eða þá sem styðja mig og búast við góðum árangri, þá veit ég ekki afhverju ég er að þessu. Draumurinn er skýr: að ná eins langt og ég get, með þann tíma sem mér er gefinn, og þau tækifæri sem mér bjóðast. Þetta er gluggi sem lokast hægt og rólega, og ef maður stekkur ekki í gegn núna, þá verður það ekki gert seinna.

Takk allir fyrir mig í sumar. Takk fyrir að koma út að hjóla með mér, skoða brautir og blaðra um nýjustu græjurnar. Takk allir sem ég keppti við og veittu mér samkeppni. Takk fyrir að koma með í keppnisferðir og aðstoða mig með allt sem lætur mér líða eins og ég geti fókusað á eitt: að hjóla hratt. Takk fyrir að hafa trú á mér sem íþróttamanni, að líta upp til mín sem fyrirmynd, og leyfa mér að gefa af þeirri reynslu sem ég hef safnað. Takk fyrir að draga mig niður á jörðina þegar sjálfið nær aðeins of háum hæðum, takk fyrir að minna mig á afhverju ég er að þessu, og takk fyrir að hvetja mig áfram.

Lengsta keppnin hingað til: EM í maraþonfjallahjólreiðum

Maraþon er svolítið sérstök grein. Mér finnst greinin skemmtileg því hún er allt önnur tegund af áskorun heldur en XCO keppnir. Á meðan XCO keppnir eru haldnar í flóknum og tæknilegum brautum, sem eru oft um 4km að lengd, og farnir 5-9 hringir eftir aðstæðum, þá eru maraþonkeppnir oftast haldnar í einum risastórum hring, allt frá 60km upp í 160km, en það er breytilegt eftir klifri og tæknilegum atriðum sem hafa áhrif á meðalhraða keppenda. XCO keppnir eru bundnar við 90 mínútur en það er engin tímarammi í maraþon keppnum, bara vegalengd og grófar hugmyndir um lokatíma, sem getur verið frá 3 tímum allt að 7-8 tímum. Áskorunin sjálf snýst meira um langtímaúthald, frekar en sprengikraft. Það þarf að kunna að stilla sig af frá upphafi, þekkja eigin styrkleika mjög vel til að geta látið orkubirgðir endast alla leið, og það er algjört lykilatriði að kunna að passa upp á orkustöðu líkamans. Líkaminn getur bara geymt um 90 mínútna virði af orku fyrir átök af þessarri tegund, þannig að svona keppni er ekki unnin án aðstoðarmanna sem vita hvað þeir eru að gera. Oft eru drykkjarstöðvarnar margar, og mikilvægt að geta fengið nýja brúsa fulla af vatni, orkugel og ýmislegt annað til að geta haldið fullri ferð.

Þetta var eina maraþonkeppnin á planinu mínu í ár, á atvinnumannastigi. Ég hugsa að með tímanum fari þeim að fjölga, þar sem úthald vex með aldrinum, og endist mun lengur en sprengikraftur. Um er að ræða Evrópumeistaramótið, næst stærstu maraþonkeppni heims, á eftir sjálfu Heimsmeistaramótinu. Keppnin var haldin í hinum heppilega nefnda bæ, Svit, í Slóvakíu, en það er alltaf ákveðið ævintýri að fara örlítið austar í Evrópu til að taka þátt í hjólreiðakeppnum. Ég ákvað snemma í vetur að ég myndi taka þátt, þegar ég var að leggja línurnar að stærstu keppnum sumarsins, en þar á meðal voru 2 Evrópumót og amk 1 heimsbikarmót. Það sem ég gerði hins vegar ekki fyrr en 2 vikum fyrir keppni, var að skoða nákvæmlega hvað ég væri að koma mér út í. Eina sem ég hafði athugað var dagsetning og staðsetning.

Það var ákveðið sjokk að skoða upplýsingabæklingin fyrir keppnina. 134km var lengdin á brautinni, og 4200m hækkun samtals. Það er tæplega hálft Everest í klifri. Vegalengdin hljómaði ekki svo slæm þar til ég sá að áætlaður sigurtími væri 6 tímar. Úff! Lengsta keppnin hingað til í ár, var 100km dagleið í Andalucia Bike Race í Mars, en sú tók ekki mikið meira en 3 tíma vegna þess hvað  brautin var flöt og einföld.

Ferðalagið hófst með 1600km bíltúr frá Kaupmannahöfn til Svit í Slóvakíu, en til að minnka álag þá var ákveðið að taka þetta með millilendingu í Berlín, þar sem skyldustopp var á einum af bestu kebabstöðunum, K-Ups. Á fimmtudagskvöldi vorum við mætt til Svit, svolítið þreytt eftir aksturinn en þó ágætlega úthvíld. Það getur verið ákveðinn mínus að taka 2 daga án hjóls í röð, og ég reyndi að sporna gegn “lötum löppum” með því að taka léttann hring á föstudeginum, eftir að við fórum og náðum í keppnisgögn. Sören Nissen var búinn að hafa samband við mig og við fórum saman í að skoða síðustu 10km í brautinni, og fyrstu 10km, en það var lítill tími til að skoða restina af brautinni. Brautarskoðun er ekki alveg jafn gríðarlega mikilvæg fyrir maraþonkeppnir, vegna þess hversu mikið minna tæknilegar þær eru, og vegna vegalengdarinnar, geta sekúndur ekki skipt jafn miklu máli og í styttri keppnum. Eftir föstudagsæfinguna var laugardagurinn tekinn rólega, og passað að borða vel til að fylla á bensíntankinn fyrir keppnina. Við nýttum daginn þó í bíltúr um svæðið, komum við á öllum drykkjarstöðum sem Iðunn þurfti að finna á meðan keppnin væri í gangi, og merktum inn á kort allar staðsetningar, í réttri röð. Veðurspáin var með besta móti, og aldrei þessu vant var ég ansi spenntur fyrir óvenju köldum sunnudagsmorgni. Á meðan flestir dagar fram að keppni voru milli 25 og 30 gráðu heitir, sem er allt, allt of mikið fyrir Íslending, þá lofaði veðurspáin smá rigningu snemma morguns fyrir start, og ekki nema 13 gráðum eða svo, en þó sól.

Keppnisdagurinn byrjaði með öflugum morgunmat, sem samanstóð af hafragraut, samlokum, banönum og smá Nutella. Hótelið, sem er ekki beint á hæsta gæðastaðli, var ekki að bjóða upp á mikið úrval í morgunmat, og ekki hjálpaði að startið var kl 8 um morguninn. Ég reyni mitt besta, og tekst oftast, að halda mig við 3 tíma reglu þegar kemur að mat fyrir keppni, en þetta þýddi að ég þurfti helst að vera að  borða um 5-leytið. Það gekk því miður ekki eftir, því ég fékk lítinn svefn um nóttina á skelfilega erfiðu rúmi, og tímdi ekki að fórna tímanum sem ég þurfti til að vera úthvíldur. Ég gerði þau mistök að borða of seint, og var strax farinn að finna fyrir því þegar keppnin byrjaði. Við skelltum okkur niður að startinu um klukkutíma fyrir, og ég var svo heppninn að vera lesinn upp fyrstur keppenda (fyrir utan top 10 sem fá sérmeðferð), þannig að ég fékk góðann stað í startinu.

Keppnin fór af stað í rigningu og þoku, og það veður var þannig út daginn. Hópurinn, sem var um 70-80 manns, fór á fullri ferð inn að fyrsta klifrinu, sem var einnig síðasta niðurbrekkan á leiðinni til baka. Stígurinn var þröngur og menn voru að gera mistök, þannig að ég þurfti að hlaupa smá spotta með hjólið áður en ég komst upp á topp, þar sem var stuttur flatur kafli fyrir niðurbrekku hinum megin á hólnum. Eftir þá brekku var hópurinn búinn að slitna aðeins í sundur, en eftir öfluga keyrslu á malbiki náðu flestir aftur inn í “pelotonið”. Löng keppni þýðir að menn hjóla örlítið meira eins og í götuhjólakeppni, og þar sem næsti stóri kafli var eitt samfellt klifur sem tók um 60 mínútur, voru flestir á því að halda hópinn og spara orku. Það var þó ekki mikil orka spöruð því ég leit reglulega á mælinn á leiðinni upp og sá oftar en ekki 400 vött eða meira, sem eru hörkuátök á mínum skala. Þegar þessi langa brekka var búin var aftur snúið niður, og í átt að fyrstu drykkjarstöð, en sem betur fer þurfti ég ekki mikla aðstoð svona snemma í keppninni þannig að ég hélt fókus á að hanga í fremstu mönnum. Enn ein langa brekkan byrjaði, álíka löng og sú fyrri, en þarna voru tæpir 2 tímar búnir af keppninni, og þreytan farin að segja til sín. Hópurinn byrjaði að losna í sundur, fremstu menn voru farnir að gera árásir á hvorn annan til að mynda litla hópa, og litlu karlarnir voru að missa af lestinni. Ég fann að þarna var komið að stundinni þar sem ég þarf að ákveða hvort ég vil eyða öllu sem ég á í að halda í við fremstu menn, eða slá af til að spara kraftana. Ég er ágætur í svona löngum keppnum og stóð mig vel á HM í fyrra, þannig að ég ákvað að taka áhættu og reyna mitt besta þar til ég gæti ekki meira. Þetta gekk vel í dágóða stund, en ég endist ekki að eilífu í hámarks átökum þannig að ég gat einfaldlega ekki haldið sama hraða og aðrir.

Ég missti af hópnum, en var langt frá því að vera fyrstur til þess. Þarna tók við langur kafli í svokölluðu “no man’s land”, en ég hjólaði aleinn í vel yfir klukkutíma, á leðinni í stærsta klifrið. Á þessum klukkutíma byrjaði ég loksins að finna fyrir slæmum maga eftir erfiðann morgunn, og á tímabili stoppaði ég reglulega í nokkrar sekúndur því mér fannst ég þurfa að kasta upp. Þetta er mjög óþægileg tilfinning í miðri keppni, en á endanum skilaði ég hluta morgunmatarins og var fljótlega orðinn betri í maganum. Þetta hjálpaði mér að vera duglegri við að drekka reglulega, og fá mér smá af nestinu sem ég fyllti vasana af. Stærsta klifrið kom fljótlega, en þá voru um 3 tímar liðnir af keppninni og óþægilega tilfinningin um að ég væri ekki einusinni hálfnaður, var farin að læðast að mér. Að klifra úr 900m hæð upp í 1900m hæð tók mig rétt rúmlega klukkutíma, en þarna var ég byrjaður að ná mönnum, á sama tíma og aðrir voru farnir að ná mér. Uppleiðin var viðburðalítil fyrir utan það að ég náði 5 manns, og 5 aðrir náðu mér, þannig að ég skellti mér niður eftir að ég komst upp úr skýjunum á toppinn, og hélt áfram, glaður með að vera búinn með megnið af klifri dagsins.

Áður en ég vissi af voru 100km búnir og ég kominn í góðann gír eftir um 5 klukkutíma af hjólreiðum með hjartað í botni. Ég hélt áfram að ná hinum og þessum og neyddist sjaldan til að hleypa fram úr mér. Þarna var mér farið að líða ágætlega, og var ákveðinn í að keyra mig út næsta klukkutímann, en persónulegt markmið í keppninni var að ná að klára undir 6 tímum og 30 mínútum. Einn hjólari merktur Trek sem hafði verið með mér í gegn um mestalla keppnina var búinn að stinga mig af, og tveir aðrir komnir á hælana á mér, en eftir síðasta drykkjarstoppið þar sem ég fékk gríðarlega hjálplegt orkugel frá Iðunni, fann ég smá auka styrk til að pína mig áfram. Ég sá skilti merkt 10km og vissi strax hvað það þýddi. Lítið eftir, og ég var farinn að sjá í skottið á Trek gæjanum, og ekki nóg með það heldur var ég búinn að stinga af hina félagana sem voru að ná mér áður. Ég flaug fram úr Trek treyjunni á leiðinni upp síðasta stóra klifrið, fór inn á sama hól og ég hafði klifrað upp úr andstæðri átt í byrjun keppnninnar, og byrjaði að skjótast niður ansi bratta og langa brekku, sem var þröng og umkringd grjóti og trjám. Svo flaug ég á hausinn.

Ég valdi ranga línu neðst í brekkunni, en ég man ekki meira en það. Ég man að ég var í loftinu, á 40km hraða, og ég vissi að þetta myndi enda illa. Ég man að ég átti samtal við brautarvörð, man þó ekki hvernig hann leit út, en ég horfði niður og sá hjálminn minn brotinn á nokkrum stöðum. Ég man að ég sagði aftur og aftur við gæjann að ég þyrfti að klára keppnina, og loksins hleypti hann mér af stað. Mér finnst eins og ég hafi hjólað í um 10 mínútur áður en ég kom í mark, en eftir smá skoðun á Strava sá ég að ég var í um 20 mínútur að þessu, eftir 8 mínútna stopp. Dagurinn og nóttin var ótrúlega erfið en ég var blár og marinn út um allann líkamann. Sérstaklega á baki og mjöðm, en það var ekki fyrr en daginn eftir sem ég fann fyrir líklega brákuðu rifbeini. Erfitt að anda, hlæja, og ýmis takmörkuð hreyfigeta.

 

Það breytir því þó ekki að ég er stoltur af því að hafa náð 35.sæti á svona stóru móti, og það með tímanum 6klst og 57 mín. Ég veit að ég hefði getað komist í mark um 15 mín fyrr ef ég hefði ekki flogið á hausinn, en aðalatriðið var að klára þetta, til að gera alla vinnuna og kostnaðinn í kringum þetta verkefni, þess virði. Þetta var mín fjórða þáttaka á Evrópumeistaramóti í ýmsum greinum, en fyrsta þáttaka Íslands í maraþon greinninni, og mjög gaman að hafa náð að flagga Íslenska fánanum á svona stórum viðburði. Sumarið er þó ekki búið, og þó ég taki mér nokkra daga, jafnvel viku, til að ná mér eftir meiðslin, verður gaman að takast á við síðustu keppnir sumarsins, og klára keppnistímabilið með stæl!

Dagarnir fyrir keppni

Ég hef alltaf verið varkári hjólarinn, sem tekur aðeins meiri tíma í að skoða hlutina áður en ég læt vaða. Ég tók snemma eftir þessu þegar ég byrjaði að leika mér á BMX hjóli 15 ára gamall með strákunum í hverfinu, þegar við vorum að byrja að feta okkur áfram á “grunnstiginu”. Bunnyhop upp stærri og stærri kanta, smá snúningur á hjólinu í loftinu hér og þar, fyrst 90 gráður með fullt af dettum, svo 180 gráður og loks 360 gráður, grasbrekka sem breyttist í stökkpall, og skúrar notaðir til að láta sig detta fram af, í lendingu eða flata jörð, ég var alltaf síðastur til að þora, og láta vaða. En það tókst alltaf allt á endanum. Ég náði stökkinu, kláraði “trikkið”, lenti droppinu, en stundum var það eftir að allir aðrir voru löngu búnir að ná þessu, og þá hafði afrekið tapað einhverju gildi fyrir mér, og öðrum. Ég held þó að ég hafi, með þessarri varkárni, sloppið við allskonar meiðsli og brotna hjólaparta, þannig að ég skammast mín ekki mikið fyrir að vera ekki sá fyrsti til að prufa eitthvað heimskulegt, sama hversu frábær maður lítur út fyrir að vera ef það tekst.

Undirbúningurinn fyrir fjallahjólakeppni er langt ferli, sem skiptist í marga hluta, en er ekki alltaf jafn flókið. Einföldustu keppnirnar eru til dæmis minni keppnirnar á Íslandi, eins og Heiðmerkuráskorunin eða slíkar keppnir. Það þarf ekki að plana mikið fyrir þær, en sama hversu einföld keppnin er, eða hversu oft maður hefur tekið þátt áður, þá er alltaf hægt að klúðra smáatriðum sem maður tekur sem gefnum. Erlendar keppnir bæta við nýrri vídd, þegar kemur að skipulagi á ferðadögum, flugi, bíl, dóti sem þarf að pakka, hóteli eða gistihúsi, skráningu í keppnina, aðstoðarmenn, og ýmislegt annað.

En hvernig tæklar maður hlutina þegar komið er á staðinn? Það sem skiptir sennilega mestu máli í fjallahjólakeppnum er brautin.

Mér finnst mikilvægt að eyða nógu miklum tíma í brautinni til að líða vel með alla hluta hennar, og að geta rúllað hana í heilu lagi, á góðum hraða, án vandræða. Það er lykilatriði að finna gott jafnvægi í brautinni, þekkja erfiðu kaflana, og rólegu kaflana, vita hvar á að gefa allt í botn og hvar er hægt að slaka á, án þess að tapa tíma. Allir hafa sína veikleika, allir hjólreiðamenn eru misjafnir, og það getur verið svo margt sem kemur manni úr jafnvægi. Brattar brekkur, laus möl, “offcamber” beygjur (td hægri beygja sem er í brekku sem hallar til vinstri), trjárætur, stór grjót, stökkpallar, háar hengjur, mjög brattir niðurkaflar, þröngar beygjur, sandur, og svo mætti lengi telja. Það er líka misjafnt eftir fólki hvernig veðuraðstæður breyta brautinni, sumir verða óöruggir þegar það byrjar að rigna, og þétt mold verður að rennisleipri drullu, trjárætur verða ótrúlega sleipar, og grjótakaflar verða bara frekar óskemmtilegir. En sumir elska það, og nýta sér eigið öryggi í hættulegum aðstæðum, til að ná yfirhöndinni gegn þeim sem vilja passa sig meira, og þora ekki að sleppa tökum og taka sénsa.

Ég legg oft á minnið þá kafla sem standa mest upp úr, til að hjálpa mér með að komast yfir áskoranir framtíðarinnar, eftir því sem ég prufa mig áfram í fleiri keppnisbrautum. Grjótakaflinn í heimsbikabrautinni í Nove Mesto var alvöru áskorun, og sama gildir um þreföldu stökkpallana í Mílanó. Rennisleipa og langa brekkan á heimsmeistaramótinu í Lúxemborg var ótrúlega flókin í hausnum á mér, en einfaldaðist mikið þegar ég prufaði hana loksins. Fyrsti tæknikaflinn í heimsbikarbrautinni í Lenzerheide byrjar með öflugu sikksakki, í sleipum trjárótum og miklum niðurhalla, en verður þægilegur þegar maður er ekki umkringdur 100 hjólurum, föstum í tregt. Á EM í XCO í fyrra, í Huskvarna, var merkilega flókin hægri-vinstri beygja, sem lá niður grjót, með mjög bröttum og þröngum beygjum, þar sem maður varð að finna réttu línuna til að ná kaflanum án vandræða.

Ég byrja á að rúlla brautina í rólegheitum, passa að fara ekki of geyst í brött klifur, hef augun á flestum tæknilegum köflum, en er ekkert sérstaklega að vanda mig við að finna réttu línurnar til að byrja með. Ég stoppa á erfiðustu köflunum, skoða mig um, glápi aðeins á línurnar og reyni að sjá hvernig er best að tækla, og fylgist með reyndari keppendum prufa sig áfram. Ef kaflinn virðist ekki vera of erfiður, þá prufa ég, en annars held ég áfram og geymi kaflann þar til síðar.
Ég hef gert þau mistök að einblína á kafla sem var of erfiður fyrir mig, en mér fannst ég verða að ná honum til að geta liðið vel í brautinni. Mistökin voru að ég eyddi svo miklum tíma í að æfa þetta, að ég hugsaði ekkert um restina af brautinni, og var ekki undirbúinn fyrir marga aðra kafla þegar kom að keppninni. Eftir þetta lærði ég að líta fljótlega á þá kafla sem mér finnst erfiðir, en gleymi þó ekki heildarmyndinni, sem er öll brautin.
Það er misjafnt hversu mikinn tíma maður hefur til að æfa brautina. Keppnin er vanalega á sunnudegi, og stundum mæti ég á föstudegi og hef ekki mikið meira en 1-2 daga til að skoða brautina. Í stærri UCI mótum, eins og HM/EM/World Cup, þá eru fastir tímar á hverjum degi þar sem brautin er opin fyrir æfingar, en er lokuð annars, sem flækir málin meira. Mér finnst þægilegt að byrja rólega, fara þennan fyrsta hring, og meta stöðuna eftir hann, eftir því hversu flókin brautin er, og hvort mér finnst einhver kafli vera að flækjast fyrir mér. Þegar ég næ að fara nokkra hringi, á jöfnum hraða, og þarf ekki að stoppa neinstaðar, eða er ekki í sérstökum vandræðum, þá líður mér vel með brautina og mér finnst ég tilbúinn til að keppa.

 

Evrópumeistaramótið í ofhitnun

Ok, Evrópumeistaramótið í ólympískum fjallahjólreiðum (XCO). Keppnin var haldin í litlum bæ sem heitir Darfo Boario Terme á Ítalíu, inn á milli risafjalla á Lombardy svæðinu, sem er þekkt í götuhjólreiðum. Bærinn er á neðsta punkti í litlum dal, en keppnin var færð þangað eftir ákvörðun UEC (Evrópusambandið í hjólreiðum) um að hætta við að halda hana á upprunalegu staðsetningunni í Istanbúl. Brautinni var vippað upp af brautarhönnuðum á svæðinu á aðeins 2 mánuðum, og það er magnað að sjá hvað hefur gerst á þessum tíma, en svæðið er ekki mikið meira en einn stór hóll, fullur af grasi, trjám og grjóti, en engum hjólaleiðum. Útkoman var braut sem mætti segja að sé á World Cup stigi í erfiðleika.

Hjólreiðasamband Íslands var ekki með neina skipulagða ferð í þessa keppni, en það breytti litlu fyrir mig og Gústaf, sem kom með í ferðina, því hún hefur verið á planinu frá því fyrir áramót, og líkt og Evrópu -og heimsmeistaramótin voru farin án stuðnings árið 2016, þá var lítið mál að halda því áfram. Við vorum bara 2 keppendur, og þurftum því að sjá um að aðstoða hvorn annan, en sem betur fer vorum við að keppa á sitthvorum deginum.

Við komum með flugi til Mílanó á miðvikudagsnótt, og eftir stutta dvöl á flugvallarhóteli tókum við bílaleigubíl og rúntuðum að hótelinu, sem er í um 40mín akstursfjarlægð frá brautinni. Þar sem svona stórmótum fylgja allskonar formlegheit, eins og liðsstjórafundir, lokaðir æfingatímar, margar keppnir yfir marga daga, og ýmisskonar skipulagsverkefni, náðum við ekki sem mestum tíma til að æfa brautina, en nýttum þó tímann eins vel og við gátum.

Í stuttu máli er brautin 4km, inniheldur langt klifur og langt brun niður, í afskaplega bröttum brekkum sem eru gerðar að mestu leyti úr grófri möl, mold og grasi, með sléttum grjótum inn á milli. Þar á milli er einn sérlega tæknilegur klettur, sem þarf að fara mjög varlega að til að fljúga ekki framfyrir sig og yfir stýrið, nokkrir kaflar með sleipum hnullungum sem þarf að rúlla varlega, þröngum beygjum inn á milli brattra niðurkafla, og smá “pumptrack” í endann. Ég lenti í því óhappi á æfingu að fara full hratt og endaði framan á tré, skaust yfir stýrið og lenti á báðum fótum, en því miður brotnaði stýrið við höggið. Fimmtudagurinn fór því í að leita að bráðabirgðastýri, til að geta haldið áfram undirbúningi fyrir keppnina.

Það má segja að stærsti óvinurinn þessa vikuna hafi verið hitinn. Á þessum tíma árs er afskaplega heitt á þessum heimshluta, sérstaklega þegar maður er staddur í djúpum dal, milli risafjalla, þar sem myndast eins konar hitapollur. Flestir dagarnir voru milli 25 og 30 gráðu heitir, og það var augljóst frá upphafi að þetta myndi hafa áhrif á okkur Gústa. Við höfum eytt síðustu vikum á Íslandi, þar sem við höfum vanist hitastiginu þar, á ansi köldu sumri, og þannig vorum við engann veginn tilbúnir í þessa hitabreytingu.

Á föstudaginn var ég loksins orðinn ágætur í brautinni, en það verður að segjast að ég hef sjaldan verið jafn “off” þegar kemur að svona brautum. Það er ekkert endilega það að brautin hafi verið óvenju erfið, hafandi keppt í World Cup brautum og heimsmeistaramótum, ég bara komst einhvern veginn aldrei í stuð í þessum aðstæðum. En það þýddi lítið að láta það leggjast illa í mig, og ég hristi allar slæmar tilfinningar af mér í morgun, á sjálfum keppnisdeginum.

Keppnin byrjaði með látum, á heitasta tíma dagsins (34 gráður), og þeir bestu í Evrópu voru allir klárir í slaginn. Mitt plan var að fara í gegn um fyrsta hringinn án þess að reyna of mikið á mig, til að spara orku sem fer oft til spillis í tilraunum til að taka fram úr öðrum keppendum, á þröngum stígum og bröttum brekkum. Planið hélt áfram á beinu og flötu köflunum á malbiki í kring um byrjunar og endamarkið, en skv UCI reglum þarf þetta svæði alltaf að innihalda greiða kafla, sérstaklega í átt að markinu og eftir það, en þar ætlaði ég að spara sem mesta orku til að geta farið hratt upp brekkuna, en þar var planið að fara eins hratt og ég gæti til að nýta klifurhæfileikana til fulls.

Þetta gekk, nokkurnveginn. Vandamálið er að ég fann strax fyrir áhrifum hitans, þar sem púlsinn fór upp úr öllu valdi á aðeins nokkrum mínútum, og aflið var engann veginn í samræmi við púlsinn. Þannig hélt þetta áfram, en á fyrsta hring var umferðarteppan mikil á köflum, og ég þurfti reglulega að hoppa af hjólinu, labba með það á eftir öllum fyrir framan mig, og hoppa aftur á það til að komast af stað. Ég átti enga orku í dag, gjörsamlega grillaður í hitanum og gat engann veginn nýtt það form sem ég er í þessa dagana. Þetta er mjög svekkjandi, sérstaklega í ljósi þess að síðustu helgi, á Íslandsmeistaramótinu í XCO, komst ég nálægt því að setja mínar bestu tölur í afli, en var þó ekki að leggja mig allann fram. Gústaf stóð sig hinsvegar með prýði í drykkjarstöðunum, og hjálpaði mér með brúsa fullann af vatni, ómissandi aðstoð í svona keppnum, og alltaf vel metið. Á mínum síðasta hring lenti ég í hinni óöfundsverðu stöðu að fremstu menn (Florian Vogel, Stephane Tempier, David Valero og Julien Absalon) nálguðust mig til að hringa mig, en ég var ekki nema hálfnaður með hringinn. Það sem eftir var, var brattur niðurkafli á þröngum stígum, og ansi erfiðar og þröngar beygjur í átt að markinu, og ég var engann veginn í standi til að láta vaða niður á fullri ferð, á sama tíma og ég var að stressast upp yfir þeirri hugmynd að verða fyrir fremstu mönnum, og hafa áhrif á keppnina um Evrópumeistaratitilinn. Ég lét mig rúlla niður og leit afturfyrir mig reglulega, en svo komu þeir, og ég fór út í kannt rétt í tæka tíð á meðan Absalon, sem var að verja titilinn, kom hrópandi fram úr mér. Ég rúllaði heim í mark, algjörlega bugaður, í 49.sæti.

Það er oft erfitt að útskýra erfiðleikastigið sem svona keppnir eru á, og hvar maður stendur í þeim gagnvart öðrum keppendum frá öðrum löndum. Með fleiri keppnum byrja ég að þekkja fleiri keppendur, sem ég keppi við oftar en einusinni, og fæ betri hugmynd um hvar ég stend. Ein vísbending um hversu erfið svona keppni er, sést þegar horft er á þá keppendur sem voru einnig á Smáþjóðaleikunum í San Marino í vor. Í þessarri keppni, ásamt mér, voru tveir keppendur frá Svartfjallalandi, þar á meðal Demir Mulic. Hann kláraði keppni í 50.sæti, nokkrum mínútum á eftir mér, en í miðri keppni hjóluðum við einn hring saman, þar til ég náði að stinga hann af. 51 keppandi kláruðu keppni í dag (6 störtuðu en kláruðu ekki), Demir vann silfur var í 9.sæti á Smáþjóðaleikunum í fjallahjólreiðum.

Framundan eru fleiri stórmót, en eitt af þeim er Evrópumeistaramótið í maraþon fjallahjólreiðum (XCM). Ég segi ekki mikið um það hér, en 134km og 4200m hækkun segir ansi mikið um það verkefni!

Novator
Kría hjól
SAFFRAN
Hreysti
WOW air
Lauf forks
Garmin búðin
Iron Viking
Tindur
Skoda á Íslandi
Slippurinn hárgreiðslustofa

Vesturgatan / ÍSLM XCM

Ég hljóma eins og biluð plata þegar ég tala um hvað þetta er uppáhalds keppnin mín á landinu, og hvað ég held upp á brautina, samkeppnina, veðrið, ferðalagið, og bara allt sem tengist Vesturgötunni, sem er 55km fjallahjólakeppni, hluti af Hlaupahátíð Vestfjarða.

Þetta er merkileg keppni á margann hátt. Stærst er sennilega sú staðreynd að þetta er ein af örfáum keppnum utan höfuðborgarsvæðisins, en það eitt að það er mikið ferðalag að komast á staðinn, gerir ótrúlega mikið fyrir þessa keppni. Þetta er ekki keppni sem maður tekur þátt í á “inn-út” háttinn, með litlu skipulagi og undibúningi. Það að finna gistingu fyrir helgina í kring um keppnina er nógu stórt verkefni fyrir flesta. Keppnin er haldin í pínulitla bænum á Þingeyri, og er hjólað inn í lítinn dal, upp og yfir fallegt skarð, þaðan niður í fjöru í öðrum firði, og farið meðfram ströndinni til baka á Þingeyri. Brautin sem slík er ansi merkileg því hún þróast á andstæðann hátt við hina klassísku hjólreiðabraut, þar sem byrjað er á rólegheitum og stærsta klifrið geymt þar til undir lokin til að magna upp spennuna fyrir lokasprettinn. Þetta gerir það að verkum að keppnin getur aðeins þróast á tvenna vegu: annaðhvort stingur maður af í stóra klifrinu í byrjun keppninnar, og heldur út alla leið, eða maður hjólar klifrið með öðrum og bíður eftir endasprett.

Ég átti ekki sem bestann undirbúning fyrir keppnina, síðasta vika var erfið og það voru ekki margir klukkutímar af svefni á næturna fram að föstudegi. Við Iðunn lögðum af stað frekar seint, og vorum ekki komin á Hótel Ísafjörð, þar sem við gistum, fyrr en um miðnætti, en þá átti ég eftir þessa vanalegu rútínu, kvöldið fyrir keppni. Hárið var skafað af löppunum, skinsuit gallinn dreginn fram og farið yfir alla næringu fyrir keppnina, og svo var farið að sofa, einhversstaðar milli 2 og 3 um nóttina. Við vöknuðum rétt fyrir 8 um morguninn, algjörlega mygluð og handónýt eftir afskaplega stuttann svefn, en rifum okkur af stað, beint í morgunmat og svo var rokið út í bíl og keyrt yfir á Þingeyri. Skoda á Íslandi hjálpaði þó helling með því að lána mér bíl fyrir helgina, og þetta langa ferðalag. Í stað þess að taka sénsa á gömlum og afskaplega tæpum bílnum okkar, fórum við á glænýjum Skoda Superb, þar sem fór vel um hjólið í risastóru skottinu. Þegar ein keppnishelgi inniheldur yfir 1000km af akstri þá skiptir þetta máli.

Eftir létta upphitun, slatta af hæum og hallóum, og snögga yfirferð á öllum búnaði, var komið að fjörinu. Þarna voru allir þessir helstu mættir, Hafsteinn, Bjarki, Gústaf, Stefán Haukur og svo margir fleiri góðir vinir, og allt stefndi í góðann dag. Meira að segja veðrið stóð við sitt, þrátt fyrir rigningu og þung ský fram að keppni, og við fengum smá hlýju og enga rigningu á meðan keppnin var í gangi. Planið mitt var ekki flókið, ég ætlaði að bíða þar til eftir að fylgdarbíllinn, sem leiðir okkur út úr bænum í átt að klifri dagsins, væri farinn, og myndi keyra upp hraðann eftir fyrstu beygju. Eins og keppnin þróaðist í fyrra sá ég lítið annað í stöðunni en að reyna að hjóla klifrið eins hratt og ég gæti, meta stöðuna á toppnum, og halda svo áfram eftir brunið niður að fjörunni. Þegar nokkrar mínútur voru liðnar af keppninni var staðan nákvæmlega eins og ég sá fyrir mér: ég var fremstur að keyra hópinn áfram, með Haffa á hælunum á mér, og restina fyrir aftan hann. Ég fann fyrir smá þreytu þegar bættist í hallann á leiðinni upp, en klifrið tekur um 20-25 mínútur í heildina. Á leiðinni upp byrjaði Haffi að missa takið á mér og það kom smá bil á milli okkar, en það var aldrei mikið. Hann var aldrei meira en 30 sekúndum á eftir mér, þrátt fyrir mínar tilraunir til að stækka bilið. Mér fannst ég vera ótrúlega þungur og svifaseinn á leiðinni upp, ekki alveg með sjálfum mér, og ég gat ekki hugsað um annað en hvað ég væri að fara hægt upp, og þetta væri engann veginn það sem ég á að geta gert. Gaman er að segja frá því að ég var í tómu rugli og setti nýtt met í þessu klifri, og Haffi með nokkurnveginn sama tíma, þannig að ég held að staðan hafi bara verið góð hjá okkur báðum!

Eftir klifrið byrjaði brunið niður, sem tekur um 8 mínútur og er eitt skemmtilegasta brun á landinu að mínu mati. Fullt af grjóti og drasli á leiðinni, árfarvegir til að hoppa yfir eða þruma í gegn um, og nóg af lausum beygjum með smá drullu hér og þar, en mestmegnis lausamöl og grjót. Ég stóð mig ágætlega á leiðinni niður, en þarna var ég þó kominn í varnarstöðu, búinn að ákveða að þetta yrði ekki dagurinn til að hjóla einn. Neðst í dalnum er stór á sem þarf að fara yfir, en það gekk ekki svo vel hjá mér. Á einhvern ótrúlegann hátt tókst mér að reka mig í grjót, losa báða fætur frá pedulunum á sama tíma, og reka mig hressilega fast í stýrið, á miðri leið yfir ánna. Þetta var óheppilegt þar sem Haffi var rétt á eftir mér, og náði mér þegar ég var að koma mér af stað aftur. Ég hentist í gang á eftir Haffa, sem var svo kurteis að nýta ekki tækifærið til að stinga mig af, og við tókum stefnuna á fjörugrjótið handan við hornið.

Megnið af leiðinni eru skemmtilegir slóðar og malarvegir, sem eru ansi beinskeittir og án tæknilegra kafla. Þó eru staðir þar sem maður þarf að tækla lausar og stórar beygjur, örfáar mjög brattar brekkur, og fyrst og fremst laust grjót og náttúrulegar hraðahindranir, sem gera fulldempuð hjól einstaklega heppileg fyrir þessa keppni. Við Haffi skiptumst á að keyra upp hraðann, en verandi báðir keppnismenn í húð og hár, vorum við aldrei í vafa um að hjálpast að við að hjóla þetta eins hratt og við gátum. Þegar komið var á lokakaflann, 10km malarveg sem breytist í malbik við og við, í áttina að Þingeyri, vorum við að skiptast á reglulega, og hjóluðum þetta eins og götuhjólakeppni. Skyndilega spyr Haffi hvort ég muni hver besti tíminn í brautinni sé, og þá átta ég mig á að við gætum átt möguleika á að bæta þann tíma, sama og Haffi var að hugsa. Ég var mikið að hugsa um endasprettinn, langaði að beita smá taktík og spara kraftana fyrir sprettinn, en ég hafði lika áhuga á að bæta metið þannig að ég geymdi taktíkina þar til alveg undir lokin.

Þegar uþb 1km var í mark vorum við alveg að rúlla inn í bæinn, komnir á malbikið og byrjaðir að hugsa um sprettinn. Ég náði að setja mig fyrir aftan Haffa, og þegar olnboginn hans bað um að ég tæki við fremst, gerði ég ekkert. Þá var samvinnan búin, og alvaran byrjuð. Við fórum saman inn í lokabeygjuna, og ég beið þar til aðeins um 150 metrar voru eftir, og gaf allt í botn fram úr Haffa. Það dugði til að taka sigurinn, aðeins 1-2 hjólalengdum á undan. Keppnin hefur ekki verið svona tæp síðan 2014, en það gerði hana svo ótrúlega góða í ár. Í fyrra sigraði ég einn, með nokkurra mínútna bili, en það var engann veginn jafn góð og spennandi keppni og þessi. Við bættum tímametið um 3 mínútur frá því 2014, sem gerir næsta ár að enn betri áskorun.

Ég stóð upp sem ósigraður Íslandsmeistari í maraþon fjallahjólreiðum, feginn að halda titlinum í eitt ár til viðbótar, fékk 10 verðmæt UCI stig, sem gagnast mér í erlendum keppnum, og skellti mér með Iðunni í sumarbústað hjá pabba, þar sem ég fékk loksins svefninn sem ég skuldaði sjálfum mér.

Takk kærlega fyrir mig, skipuleggjendur, keppinautar, styrktaraðilar, stuðningsmenn, vinir og fjölskylda!

Novator
Kría hjól
SAFFRAN
Hreysti
WOW air
Lauf forks
Garmin búðin
Iron Viking
Tindur
Skoda á Íslandi
Slippurinn hárgreiðslustofa

Íslandsmeistaramótið í götuhjólreiðum

Það eru 2 ár síðan ég tapaði síðast Íslandsmeistaramóti, þannig að ég gat verið vonsvikinn eða brjálaður eftir ósigur dagsins. En ég er glaður yfir því að nýtt nafn sigraði í dag. Anton Örn á sigurinn fyllilega skilinn, hafandi verið mjög virkur í sportinu í Danmörku, keppandi með liði í A-flokk og að ná árangri sem fæstir Íslendingar gætu jafnað, á erlendri grundu.

Ég tapaði keppninni á því að stoppa til að pissa. Það hljómar ekki jafn dramatískt þegar það er sett í eina setningu, en það var erfið staða, verandi í spreng frá því þegar 30 mín voru liðnar, og það voru læti eftir að ég hafði lokið klósettförinni. Hefði ég sigrað keppnina án stoppsins? Ekkert endilega, en líkurnar hefðu verið hærri. Ég stoppaði þegar um 50km voru búnir af 160, eftir að stórvinur minn og fyrirmynd, Elías Níelsson, fórnaði heilmiklu til að aðstoða mig í verkefninu. Það gekk eitthvað illa þannig að ég sendi hann áfram, þar sem hann átti í vændum gríðarlega eftirför, en við höfðum báðir misst af hópnum, á meðan ég stoppaði til að klára verkið. Elli, ég biðst afsökunar á þessu, og bið þig um að rifja þetta atvik upp næst þegar mér dettur í hug að gera þetta aftur!

Keppnin hafði verið afskaplega róleg fram að þessu, en hópurinn var mjög stór, og í logninu og flatri braut, var mjög erfitt fyrir lítinn hóp að slíta sig frá restinni. Það mætti segja að rólegheitin hafi gefið mér þá hugmynd að pissustoppið myndi ganga upp, en sennilega var ég að stórlega ofmeta getu mína til að ná hópnum aftur eftir þetta. Það vill svo til að þegar ég stoppaði þá gáfu sterkustu leikmennirnir í, og slitu sig frá hópnum, en þetta voru þeir sem röðuðu sér í fremstu sætin í lok dags. Sumir vildu meina að þetta hafi verið viljandi tímasett þar sem ég var ekki í stöðu til að bregðast við, en ég á erfitt með að trúa því upp á menn sem ég hef keppt við í góðu í mörg ár.

Eftir stoppið gaf ég hressilega í til að reyna að ná hópnum. Ég var ekki lengi að sjá hvað hafði gerst, en fyrir aftan fremstu menn voru komnir 2 hópar, sem höfðu myndast eftir lætin, þar sem allir reyna að hanga í, en ekki ná því allir, og þá myndast minni hópar. Ég keyrði framhjá hvorum hópnum fyrir sig, hafandi litla trú á að ég gæti fengið þá hjálp þar, sem ég þurfti til að ná fremstu mönnum, bæði vegna þess að þar voru menn sem voru í sama liði og einhverjir af þeim fremstu, og það þurfti eitthvað af hestöflum til að ná þeim. Þegar sterkustu mennirnir eru farnir, er erfitt að fá aðstoð til að ná þeim, því miður.

Við tók uþb klukkutími af hörkuhjólreiðum, þar sem ég ekki aðeins setti mitt besta 20 mín (411w) afl, heldur einnig 5 mín (465w) og 60 mín (374w) afl. Það má segja að ég hafi sett allt í þetta. Fljótlega fór ég að taka tímann á meðan ég sá fremstu menn, en mér sýndist þeir vera 4-6, sem passaði. 40 sek var tíminn á milli, en það vill svo skemmtilega til að stoppið tók 38 sek. Þetta er heilmikill tími þegar kemur að götuhjólreiðum, og ég verð að játa að þrátt fyrir stórt sjálfsálit og mikla trú á eigin getu, var ég ekki sá bjartsýnasti þegar kom að því að hjóla hraðar en hópur sem innihélt meðal annarra Hafstein Ægi, Bjarna Garðar, Anton, og Óskar, 4 af þeim bestu á landinu. Ég reyndi mitt besta og get verið ánægður með að hafa haldið bilinu í 40 sek í heilann klukkutíma, eða þar til ég var að verða bensínlaus og sá lítið annað í stöðunni en að gefast upp á eltingaleiknum, og einbeita mér að því að ná sem mestu út úr því sem ég hafði.

Þegar kom að stærstu brekkunni í brautinni, Vatnaleiðinni, var ég búinn að hinkra í smá stund eftir næsta hóp á eftir mér, sem innihélt topp hjólara á borð við Hákon, Sigga Hansen, Rafael, Ármann, Kristján og Birki Snæ, ásamt fleirum. Við hjóluðum saman upp brekkuna og inn á leiðina í átt að Grundarfirði, þar sem endamarkið stóð. Það var góð samvinna í hópnum fram að síðustu kílómetrunum, en þegar ég tók eftir að menn voru farnir að horfa á hvorn annan og búa til smá stress, ákvað ég að gefa í, með 3km í mark. Ég kláraði einn, 20 sek á undan, í 5.sæti, sem ég get ekki annað en verið ánægður með, eftir erfiðann dag í vinnunni.

Götuhjólreiðar eru ekki mín grein, þannig að ég á auðvelt með að bæta svona keppni í planið á síðustu stundu, vegna þess að það vildi svo heppilega til að fyrir viku síðan var ég á landinu með götuhjól, fyrir WOW Cyclothon, og datt þá í hug að lengja ferðina aðeins fyrir eina keppni. Það er þó alltaf erfitt að tapa keppni, og verður erfiðara eftir því sem maður nær lengra á ferlinum, og býst meir og meir við sigrum. Framundan eru þó Íslandsmeistaramótin sem ég fókusa á, í maraþon og ólympískum fjallahjólreiðum. Ég bíð spenntur eftir þeim verkefnum, og hlakka til að keppa aftur við þá bestu á landinu.

Takk fyrir mig Hjólamenn og HRÍ fyrir vel skipulagða keppni, og sérstakar þakki fá veðurguðirnir fyrir að gefa okkur besta veðrið í dag. Takk Biggi fyrir klikkað lánshjól, David fyrir að vera á svæðinu, takk Ernir og co fyrir fylgdarbílinn, og Rafael fyrir að vera skemmtilegur liðsfélagi!

Smáþjóðaleikarnir 2017

Ég tók þátt í minni fyrstu keppni á erlendri grundu árið 2013, á Smáþjóðaleikunum í Lúxemborg. Það ár var mitt fyrsta sem einn af þeim bestu á Íslandi, ég hafði átt góða byrjun á árinu með því að sigra td. úrtökumótið fyrir valið í landsliðið, sem var haldið í Vífilstaðahlíðinni. Sigur þar þýddi sjálfkrafa val í liðið, og þá var ég búinn að næla mér í þáttökurétt á mitt fyrsta stórmót utan Íslands. Keppnin sjálf fór ekki eins og ég hafði séð fyrir mér, en reynsluleysi felldi mig niður í eitt af síðustu sætunum þegar upp var staðið. En ég kynntist góðu fólki þarna, öðlaðist mikilvæga reynslu, og sennilega það mikilvægasta: ég fékk að skygnast fyrir um erfiðleikastigið í þessarri íþrótt utan Íslands.

4 árum síðar (hjólreiðar voru ekki með þegar leikarnir voru haldnir á Íslandi árið 2015), var kominn tími á að gera aðra tilraun, og sjá hvort ég gæti gert betur eftir að hafa safnað reynslu á síðustu árum, og orðið sterkari sem fjallahjólari. Í fyrra þegar ég byrjaði að velta þessarri keppni fyrir mér, hófst rannsóknarvinnan sem felur í sér að skoða samkeppnina vel, kynna sér aðstæður og mögulega braut sem væri notuð, og skipuleggja æfingar fram að keppni. Mín fyrsta spurning var hvar ég stæði gegn fyrrverandi sigurvegara keppninnar, Christian Helmig frá Lúxemborg. Ég hafði keppt oftar en einu sinni með honum í fyrra, og var yfirleitt á svipuðum stað og hann í keppnum, auk þess að hann tók þátt í Glacier 360 keppninni hérna á Íslandi með mér, þar sem við stóðum nokkuð jafnir. Þetta var jákvætt merki og eitthvað sem ég gat notað til að sannfæra mig um að ég ætti góða möguleika. En margt getur gerst á 4 árum, yngri hjólarar orðið sterkari og ólíklegir keppendur, ég þar á meðal, gætu komið á óvart. Ég ákvað þó að nota staðreyndirnar til að setja háleitt markmið, að sigra þessa keppni.

Keppnisvikan hófst með brautarskoðun, en fyrsta hugsun þegar komið var í brautina var að þetta yrði keppni fyrir klifrarana. Brautin, sem er um 3.5km löng með uþb 150m hækkun, inniheldur 4 brött klifur, og 3 brattar niðurbrekkur með tilheyrandi hólum, hæðum, trjábrúm, grjóti og skemmtilegum beygjum. Þrátt fyrir tæknilega kafla var ljóst að keppnin yrði ráðin með góðu formi, en ekki góðri tæknikunnáttu, vegna þess hversu brött og erfið klifrin eru. En brautin var ekki eina atriðið sem skipti máli. Hitastigið yfir vikuna fór varla undir 25 gráður, og á köflum var vel yfir 30 stiga hiti, með ekki ský á himni og lítinn vind. Brautin er í þéttu skóglendi þar sem vindurinn hreyfist ekki, og allt stefndi í vandamál fyrir okkur Íslendingana, sem erum alls ekki gerð fyrir svona aðstæður. Þrátt fyrir allt þá leið mér vel í brautinni. Ég er mjög léttur og held mikið upp á klifur, þannig að ég gladdist yfir brekkunum, frekar en að vera smeykur við þær. Tæknilegu kaflarnir voru tæklaðir sæmilega vel, þó alltaf megi fara hraðar þegar tími gefst til æfinga. Þarna var þó lykilatriði að spara kraftana eins vel og mögulegt var, til að eiga nóg inni fyrir keppnisdeginum.

Þegar kom að keppni var allt klárt. Fyrsta keppnin í ansi flottum landsliðsbúning, hjólið búið að fara í megrun, 10,08kg á vigtinni góðu, og lappirnar hressar og til í slaginn. Hitinn kom engum á óvart og sólin skein hressilega þannig að leitað var að skuggum og köldu vatni við hvert tækifæri. Ég fékk góða aðstoð frá þjálfurum landsliðsins og umsjónarmönnum hópsins, bæði með köldu vatni til að hella yfir mig reglulega, og góðann sopa af orkudrykk í báðum drykkjarstöðvum sem voru við brautina. Ég fékk ekki að njóta þess að vera númer 2 á keppendalista í styrkleikaröð skv heimlista UCI, heldur var dregið úr hatti startröð keppenda. Ég endaði lengst til vinstri á 2.röð, en hægra megin var aðeins betra aðgengi í stuttum upphafskafla brautarinnar, þannig að ég þurfti að vinna mig hratt upp. 5 hringir í brautinni, sem stefndi í tiltölulega stutta keppni, eða um 70-75 mínútur samkvæmt mínum ágiskunum.

170602-_MG_4316-web-David Robertson

Keppnin fór af stað, og ég var ekki sem best staðsettur en þó framarlega í hópnum þegar komið var inn í brautina. Um leið og fjörið hófst byrjuðu menn að gera mistök, og ég var óheppinn að lenda í því að einn af keppendum San Marino hrasaði beint fyrir framan mig á þröngum kafla, og var lengi að koma sér af stað aftur. Ég komst illa fram úr honum vegna staðsetningar, en á endanum tókst það, fékk meira að segja góða aðstoð frá Bjarka sem kom rétt á eftir mér, og hinkraði aðeins til að hleypa mér af stað. Ég fór strax að vinna mig áfram og eyddi megninu af fyrsta hring í að taka fram úr mönnum, sem gekk misvel þar sem ekki voru alltaf aðstæður til framúraksturs. Eftir fyrsta hring var ég búinn að vinna mig úr 13.sæti upp í 4.sæti, og sá ennþá í fremstu menn sem voru 3 saman í hóp, uþb 30 sek á undan mér.

Næstu 3 hringir liðu hratt hjá, allt gekk vel og ég gerði mitt allra besta til að vinna upp tíma í klifrum og að fara örugglega niður tæknilegu kaflana. Á meðan ég bjó til hátt í 5 mínútna forskot á 5.sæti, fjarlægðist Sören Nissen, sem var búinn að vinna sig upp í 1.sæti og hafði hjólað í burtu frá Andreas Miltiadis frá Kýpur, og Guy Diaz frá Andorra. Þó byrjaði ég að minnka bilið yfir í Guy þegar liðið var á 4.hring, en aðeins einn hringur eftir þýddi að ég þurfti að gera allt rétt til að ná honum á lokametrunum. Eftir fyrsta klifrið af fjórum heyrði ég að ég var að vinna á hann, og hélt mínu striki án þess að taka neinar áhættur. Þegar ég var á leiðinni í bröttustu brekkuna í brautinni, þar sem hvert tré var vafið púðum til að grípa óheppna hjólara, og netum til að koma í veg fyrir að menn húrruðu niður alla hæðina og inn í næsta ríki, heyrði ég hvell og fann um leið óþægilega, en kunnuglega tilfinningu. Það hafði hvellsprungið, ekki bara á öðru dekkinu heldur báðum. Ég hoppaði af hjólinu í þvílíkum halla, hafði engann tíma til að hugsa um eigið öryggi en vissi strax að ég væri ekki að fara að laga þetta án aðstoðar. Á ótrúlegann hátt tókst mér að hlaupa niður þessa brekku án þess að fljúga á hausinn, og þá hófst  900 metra hlaup í átt að eina svæðinu í brautinni þar sem leyfilegt var að geyma varahluti, eins og gjarðasettið sem mín beið þar. 8 mínútum og 30 sekúndum síðar mætti ég móður og másandi, og rétti David og Óskari bróður hjólið og sagði að bæði dekkin væru sprungin.

170602-_MG_4351-web-David Robertson

Mér datt aldrei í hug að gefast upp og hætta keppni. Það kom ekki til greina að fá DNF fyrir þessa keppni, eftir alla vinnuna sem ég hef lagt í undirbúninginn fyrir hana. Mér var alveg sama á þessum tímapunkti, um hvaða sæti ég myndi enda í þegar upp væri staðið. Raunhæfi möguleikinn á 3.sæti var horfinn, öruggt 4.sæti var horfið, og lítið var eftir þegar ég komst loksins af stað eftir að skipt hafði verið um dekk á hjólinu. Ég hoppaði aftur af stað og kláraði hringinn, og endaði í 16.sæti af 22 keppendum.

Ég er ekki hræddur við að viðurkenna að mér hefur aldrei liðið svona illa eftir keppni, síðan ég byrjaði í þessarri íþrótt. Mér leið eins og allar þær fórnir sem ég hef gefið fyrir þetta hafi verið til einskis, eins og allt sem hefur flogið fram hjá mér í lífinu á meðan ég er einbeittur á einn hlut, eitt markmið, einn tilgang, væri eitthvað sem ég myndi sjá eftir. Þessi keppni gjörsamlega sigraði mig, og ég brotnaði niður.

Svona keppnir koma og fara, önnur tækifæri bíða og fyrri afrek lifa í minningum sem er gaman að rifja upp. Eftir 2 ár fæ ég tækifæri til að reyna við þetta aftur, og ég veit að ég verð sterkari, sneggri, og tilbúnari en ég var í ár. Ég trúi því að það séu mistök að drífa sig að gleyma svona keppnum, til að halda haus og líta fram á við. Það er alltaf hægt að læra af reynslunni, og það er stundum í lagi að vera óhress yfir mistökum eða óheppni, því maður lærir að meta þau skipti sem allt gengur upp, og þetta kennir manni að takast á við slæmu dagana. Ég veit að ég gerði allt sem ég gat, tölurnar og tilfinningarnar sýna það, og ég veit að ég hefði náð öruggu 4.sæti ef ég hefði ekki lent í óheppni á síðasta hring. Ég komst að því eftirá að áhorfandi hafði kastað glerflösku á þessu svæði, og get ýmindað mér að glerbrotin gætu hafa verið það sem reif dekkin, en það er ekki hægt að vera fullviss um það.

Landsliðið gerði góða hluti í þessarri ferð, og Hjólreiðasamband Íslands sýndi að það er flott framför í afrekshlutanum af þessarri íþrótt. Ég þakka fyrir að hafa verið valinn í liðið og að hafa fengið þetta tækifæri. Næsta skipti sem ég keppi fyrir Ísland verður á Evrópumeistaramótinu í fjallahjólreiðum á Ítalíu, í lok Júlí.

Novator
Kría hjól
SAFFRAN
Hreysti
WOW air
Lauf forks
Garmin búðin
Iron Viking
Tindur
Skoda á Íslandi
Slippurinn hárgreiðslustofa

World Cup – Nove Mesto

Það eru keppnir, og svo eru stórar keppnir. Og svo eru World Cup keppnir. Það er eitthvað við það að taka þátt í stærstu mótaröð í fjallahjólasportinu, eitthvað sem er sambærilegt við WorldTour götuhjólakeppnir, þær stærstu í heiminum, nema á allt annan hátt. Í staðinn fyrir 4-5 tíma götuhjólakeppni með svakalegum liðum, hrikalega flókinni taktík og kröfu um ótrúlegt úthald, fæ ég 90 mínútna keppni þar sem ég þarf að geta hjólað algjörlega í botni frá upphafi til enda, spretta út úr öllum beygjum og vona það besta á leiðinni niður stórhættulegar brekkur. Það sem þessar 2 tegundir af keppnum eiga sameiginlegt er það að þetta er gert meðal bestu keppenda í heiminum.

Fyrsta World Cup keppni ársins var haldin í Nove Mesto na Morave, í Tékklandi. Mjög skemmtilegur staður, og pínulítið öðruvísi en restin af Evrópu, þar sem Tékkland virkar á mann eins og einskonar bland af vestrænni menningu og austur-Evrópu. Keppnisbrautin er þekkt sem sú erfiðasta í sportinu, henni er best lýst sem endalausum trjárótum innan um 6 stuttar og mjög brattar brekkur, með 2 grjótagörðum og einu grjótaklifri. Það sem einkennir hana mest að mínu mati er að það tekur hressilega á að hjóla hana, maður er eiginlega laminn af henni á hverjum hring, og það er engin leið að hjóla einn hring í rólegheitunum. Þetta er klárlega braut sem hentar keppni á þessu stigi.

Þetta var önnur World Cup keppnin mín, en ég átti mína fyrstu tilraun í Lenzerheide, Sviss, í fyrra. Það var ákveðinn bónus að heimsmeistaramótið í ólympískum fjallahjólreiðum var haldið í Nove Mesto í fyrra, í nákvæmlega sömu braut. Þetta gerði lífið einfaldara, og róaði mig helling þegar kom að því að taka fyrstu brautarskoðun, vegna þess að ég var bara að rifja upp gamlar línur og athuga hversu mikið hraðar ég gæti farið, tæplega ári eftir að ég keppti þarna síðast. Ég tók 2 daga af brautarskoðunum þar sem ég stoppaði við alla tæknikaflana og æfði mismunandi línur, sem er mjög mikilvægt vegna þess að í svona erfiðri keppni getur maður lent í því að vera innan um fjölmarga aðra hjólara, og neyðst til að taka aðra línu en þá sem maður æfði. Það var allt klárt fyrir góða keppni, sérstaklega með það í huga að einn af æfingahringjunum var tæplega mínútu hraðari en hraðasti hringurinn hjá mér í fyrra. Mjög jákvætt.

Svona keppni inniheldur alla þá bestu. Nino Schurter, Julien Absalon, Jaroslav Kulhavy, Maxime Marotte, Marco Fontana, og svo mætti lengi telja. Þarna voru allir þeir bestu. Verandi #245 í heiminum þýðir vanalega að ég fæ að starta einhverstaðar um miðju eða framar. Í Danmörku fæ ég vanalega að vera á fremstu röð eða næstfremstu röð. En innan um þvílíkann hóp af topp hjólurum fékk ég startnúmerið #97, af uþb 130 manns, sem segir allt um hversu margir góðir voru á startlistanum. En þetta var samt gott, ég var ekki aftastur, en þegar kom að keppnisdegi voru 120 keppendur staðfestir sem er ótrúlega mikill fjöldi fyrir 4km hring í 90 mínútur.

DSC02830

Keppnin fór af stað með látum, bókstaflega. Ég sprettaði hressilega af stað, rúmlega 1300w fyrir þá sem hafa áhuga á tölum, og komst uþb 20-30 metra áður en ég sá Þjóðverjann fyrir framan mig fljúga á hausinn, og fyrir framan hann sá ég nokkra nú þegar liggjandi á malbikinu. Viðbrögðin mín voru snögg, þó ég segi sjálfur frá, en það var ekki nóg til að koma í veg fyrir að ég fór með framdekkið í hjól Þjóðverjans, læsti framdekkinu og flaug yfir stýrið. Ég lenti nokkurnveginn ofan á hjólinu hans, og sennilega honum sjálfum, og stóð strax upp til að rífa hjólið upp, en það var fast í afturgjörðinni hjá Þjóðverjanum. Eftir smá brölt hljóp ég af stað með hjólið, hoppaði á hnakkinn og beitti gömlu trixi til að ná keðjunni aftur á framtannhjólið (notaði framskiptinn til að leiða keðjuna aftur á réttann stað). Spretturinn var endurtekinn meðal þeirra sem höfðu líka flogið á hausinn, og keppnin var þá hafin á ný.

Fyrsti hringur er svokölluð startlúppa, en vegna þess hve tæknilega erfið brautin er, þá er hættulegt að senda svona stórann hóp beint inn í hana. Þannig að það er farinn malarvegur sem liggur meðfram brautinni, þar til komið er að lokakaflanum, þar sem farið er inn í brautina til að klára hringinn, og svo er næsti hringur farinn í sjálfa brautina. Ég lenti í mikilli umferðarteppu á þessum fyrsta hring, og þurfti að labba nokkra kafla meðal annarra hjólara, í miklu stressi og hamagangi þar sem menn voru mikið að reyna að troðast áfram í staðinn fyrir að bíða í röð. Eftir þetta byrjaði ég að keyra allt í gang fyrir 2.hring af 6, en ég var nokkurnveginn aftastur eftir krassið í startinu.

Á 2.hring byrjaði ég að finna fyrir orkuleysi, og máttleysi í brekkunum. Ólíkt undanförnum keppnum, sem hafa gengið mjög vel, gat ég ekki haldið því álagi sem ég er vanur, og fann strax að eitthvað var að. Ég hélt þó áfram, enda keppnin nýbyrjuð, og mögulega gæti þetta hafa verið byrjunarvandræði sem leystust með tímanum. En ég versnaði bara, og var kominn á það stig að mig langaði að gefast upp og hætta, en eftir smá umhugsun um hvað þetta er ótrúlegt tækifæri að fá að taka þátt í svona keppni, þá gat ég ekki fengið mig til að hætta þarna. Ég var hringaður út á 4 hring eftir uþb 75 mínútur, og endaði í 109.sæti af 126.

DSC02896

Þetta var engann veginn sú útkoma sem ég hafði séð fyrir mér, fyrir keppni. Ég hef unnið menn sem náðu inn í topp 90, og veit að ég átti að geta betur. En eitthvað klikkaði, hvort sem það var undirbúningurinn fyrir keppnina, svefnleysi eða næringarleysi. Þetta er eitthvað sem maður leggur inn í reynslubankann og notar til að læra meira fyrir næstu keppni.

Svona ævintýri eru ómöguleg án stuðnings, og þó ég sjái um mestalla vinnuna sjálfur, þegar kemur að skipulagi, æfingum og keppnum, þá get ég ekki gert þetta einn. Iðunn mín sér um að ég passi upp á mataræðið, taki vítamínin, gleymi ekki hinu og þessu, vakni á réttum tíma, nær í keppnisgögnin og mætir á liðsstjórafundina, rífst við flugfélög og skýst út í búð eftir mat og snarli, og réttir mér brúsann þegar ég þarf hann í miðri keppni.  Svo er ég líka með þennan magnaða hóp af styrktaraðilum:

Novator
Kría hjól
SAFFRAN
Hreysti
WOW air
Lauf forks
Garmin búðin
Iron Viking
Tindur
Skoda á Íslandi
Slippurinn hárgreiðslustofa

Takk fyrir mig!

Rye Terrengsykkelfestival

Áherslurnar fyrir keppnistímabilið, og hvaða keppnir skipta málið hafa breyst ansi mikið undanfarin ár. Það sem áður var, þegar hver einasta keppni var hjóluð í tilraun til sigurs, fær í dag aðeins meiri hugsun og skipulagningu. Það koma A keppnir, eins og UCI C1/C2 keppnir, þar sem stig eru í húfi og mikil samkeppni, og yfirleitt dýrar ferðir í hverja keppni. Svo eru B keppnir, eins og bikarmótin á Íslandi, UCI C3 keppnir og minni keppnir í Norðurlöndunum. Og svo eru sérstöku keppnirnar, A+ keppnir ef svo má segja, World Cup, heimsmeistara og Evrópumót, og Íslandsmeistaramótin. Mér finnst gott að skipta keppnum upp í þessa flokka þegar ég skipulegg tímabilið, því það getur gefið mér góða hugmynd um hvenær allt þarf að ganga upp, og hvenær ég get hugsað keppni sem góða æfingu. Það fylgir heilmikil pressa og álag þegar kemur að stærstu keppnunum, og það getur verið þægilegt að losa aðeins um það þegar maður mætir í keppni sem hefur löngu verið merkt sem B-keppni, og þannig er minna stress, meira verið að njóta, og engin pressa til að ná góðum árangri. Þessi helgi var ein af þeim helgum.

Rye Terrengsykkelfestival er 3 daga keppni, með samanlögðum tíma fyrir lokaúrslit, og er á UCI S1 stigi, sem er næst hæsta stigið fyrir fjöldægrakeppnir í fjallahjólreiðum. Haldin í útjaðri Oslóar, í Noregi, sem er þægilegt fyrir ferðalagið og gistingu. Fyrsti dagurinn er rúmlega 2km tímataka, á sæmilega tæknilegri braut sem inniheldur klifur á malarvegum, rótarkafla sem liggja bæði upp og niður, stökk fram af klettum og nóg af mold og grasi. Tímatakan er hönnuð til að ákveða startröð fyrir 2.dag, og einnig gefa efstu sæti tímabónusa til lokaúrslita. Seinni dagurinn er hefðbundin XCO keppni, 90 mínútur í lengri hring, en brautin er frekar grýtt, og nóg af trjárótum til að gera hlutina spennandi. Þriðji dagurinn er svokallað short track, þar sem farinn er hringur sem er ekki ósvipaður hringnum sem er notaður í tímatökunni, og er um 2km að lengd. Elite karlaflokkurinn fer 5 hringi sem gerir ekki nema um 25 mínútna keppni fyrir fremstu menn. Hér eru líka tímabónusar þannig að ef heildarkeppnin er tæp milli fremstu manna má reikna með hörðum sprettum miðað við stutta keppni.

Ég ákvað að skella mér, þar sem þetta tímabil er einskonar undirbúningstímabil fyrir stórmótin sem framundan eru, World Cup í Tékklandi um miðjann Maí, og Smáþjóðaleikana í byrjun Júní. Sumar keppnir virka vel sem æfing, en eru líka frábærar til að meta ástand og form. Ég hafði hinsvegar mestann áhuga á stigunum sem gætu fengist í þessarri keppni, en í S1 keppnum eru stig gefin upp í 34.sæti. Með mér í ferðinni voru Gústaf og Helgi Olsen, helstu æfingafélagarnir í Danmörku. Við keyrðum alla leið og gistum á fínu hóteli rétt hjá brautinni.

Vikan fram að keppni var þó ekki sú besta, því miður. Eftir frábærann árangur síðustu 2 helgar, og formið í góðu standi, var ég tilbúinn í æfingaálag vikunnar. Sú tilfinning entist ekki lengi því í byrjun vikunnar byrjaði ég að finna fyrir óþægindum í hálsi, máttleysi á hjólinu, og mér leið eins og ég væri ekkert að jafna mig eftir átök síðasta Sunnudags. Mig grunaði að ég væri að ná mér í einhver veikindi en hélt þó áfram samkvæmt plani, og var harðákveðinn í að sleppa ekki þessarri keppni jafnvel þó heilsan myndi versna fram að helgi. Eins og við mátti búast, þá breyttist hálsbólgan í kvef, og áður en ég vissi af var nefið stíflað, máttleysið orðið verra og erfitt að sofa á næturnar. En ég skellti mér samt í keppni.

Bengt Ove Sannes (Creativity In Action)

Bengt Ove Sannes (Creativity In Action)

Dagur 1 var ekki sá besti, en eftir langt ferðalag frá Danmörku vorum við ekki mættir á keppnisstað fyrr en um 1klst fyrir start, og fengum uþb 20 mínútur af æfingum í brautinni. Það mætti segja að sú brautarskoðun hafi verið ábótavant, og það kom skýrt fram í keppninni. Ég tók á því eins og ég gat, en þar sem ég var ekki með allar beygjur á hreinu gat ég ekki annað en haldið pínulítið aftur af mér. Ég endaði 52. af 60 keppendum, og þar með var startröðin fyrir aðalviðburð helgarinnar, daginn eftir, alveg farin í ruslið. Beint í pizzu og svo á hótel að gera allt klárt fyrir morgundaginn.

Dagur 2 hefði getað verið mun verri. Tókum daginn snemma með öflugum morgunmat, 3 tímum fyrir start, og hjóluðum upp í hæðina sem keppnin var haldin á. Eftir 3 hringi í brautinni var komin ágætis tilfinning fyrir tæknilegum köflum, og allt klárt eftir nokkra góða spretti á malbiki til að gera líkamann tilbúinn. Ég var settur á öftstu röð, kunnuglegur staður frá stórmótum, en ekki sá staður sem mér fannst ég eiga skilið að vera á. Á fyrsta hring er alltaf umferðaröngþveiti, og oftar en einusinni þurfti að stoppa, setja annan fótinn niður, og reyna svo að ryðjast í gegn um mannfjöldann, þegar brautin varð þröng og færri komust að en vildu. Á 6 hringjum tókst mér þó á einhvern hátt að vinna mig upp, og þrátt fyrir stöðugann hósta og erfiðleika með að drekka og troða í mig gelum, þá tíndi ég upp hina og þessa andstæðinga alveg fram að síðasta hring, en síðasta manni náði ég í síðustu beygjunni. Ég endaði í 30.sæti af 58, sem ég get ekki kvartað yfir, miðað við ástand og aðstæður.

Dagur 3 hefði mátt vera betri. Eftir 2 daga var ég í 30.sæti í heildarkeppninni, sem verður að segjast að var betra en ég bjóst við, en mér leið ekki sem best þessa helgi, hvort sem það var á hjólinu, eða ekki. Mér fannst tilvalið að gera mitt besta til að ná að hanga í top 30, til að krækja mér í nokkur stig sem gætu gagnast seinna í sumar. Startið var hratt eins og við mátti búast í svona stuttri keppni, en mér tókst að hanga um miðjann hóp eftir fyrstu brekku. Á fyrstu 2 hringjunum vann ég mig upp um nokkur sæti og var á þægilegum stað til að enda í stigasæti, og var alveg til í að halda mér bara þarna án þess að gera of mikið. Kvefið tók hressilega á mér sem sást best á púlsinum, sem var óvenju rólegur yfir keppnina, merki um að líkaminn sé ekki í standi til að taka svona á því. Í lok 3.hrings lenti ég þó í óhappi, skellti afturdekkinu full harkalega í grjót, en tók ekki eftir neinu eftirá, þannig að ég hélt bara áfram inn í 4.hring. 2 mínútum síðar hvarf allt loft úr afturdekkinu, þannig að ég komst ekki lengra. Keppnin var ótrúlega stutt, aðeins 1 og hálfur hringur eftir, þannig að auka gjarðir og hjálp í drykkjarstöðum hefði ekki breytt neinu, tíminn sem ég þurfti að ná var horfinn og áður en ég vissi af voru allir keppendur komnir framhjá mér. Ég labbaði þá bara til baka og fékk þannig hið afskaplega leiðinlega DNF (did not finish) í kladdann. Gengur betur næst.

« Older posts Newer posts »

© 2019 On your left

Theme by Anders NorenUp ↑