Author: ingvar (page 5 of 6)

RR – Gullhringurinn

Gullhringurinn, 106km löng götuhjólakeppni sem fór fram í 3.skiptið í ár, hefur undanfarin tvö skipti verið keppni sem hefur skilið mig eftir vonsvikinn. Fyrsta árið átti ég ekki roð í fremstu menn og var skilinn eftir með um hálfa keppnina eftir og endaði í 6.sæti það árið, en í fyrra var ég orðinn örlítið betri og átti erfiðara með að sætta mig við 3.sæti eftir að Hafsteinn og Árni ákváðu að kveðja og hjóla í mark á nýju brautarmeti. Í ár var þetta ekki ein af mikilvægustu keppnunum, en þó ein af þessum keppnum sem er gaman að bæta við í safnið.

Keppendalistinn leit vel út, mörg kunnugleg nöfn og allir sem hafa skipt máli í sumar skráðir, að Hákoni undanskildum sem ákvað að verja Íslandsmeistaratitil í hálfum járnkarli daginn eftir í staðinn, ekki slæm ákvörðun þar sem verkefnið tókst. Ég er búinn að vera þungur á mér síðustu vikuna eftir mikla keyrslu í júní/júlí, WOW keppnin tók sinn toll og ekki síður átökin sem voru Alvogen time trial keppnin, og liðakeppni í 6 tíma löngu fjallahjólakeppninni Lauf Midnight Trail Race. Þreytan hefur látið sjá sig, og þessvegna var vikan fram að Gullhringnum tekin óvenju rólega. Stutt er síðan brautin fyrir Íslandsmeistaramót í fjallahjólreiðum var kynnt, og því verður ekki leynt að það er ein mikilvægasta keppnin mín. Vikan var því nýtt vel til að skoða brautina, sem er í Öskjuhlíð, vel og vandlega til að undirbúa fyrir átökin eftir 2 vikur.

Það var þó veðrið sem ætlaði að setja svip á keppnina í ár. Rigning en logn og hlýtt var í spánni, en þegar komið var á staðinn mætti okkur rigningin eins og við mátti búast, en þónokkuð meiri vindur en reiknað hafði verið með. Vindáttin þýddi að við myndum byrja í mótvind og berjast í honum fram að beygjunni inn á Biskupstungnabraut, en það þýddi líka að síðustu 15km á Lyngdalsheiðinni yrðu mjög erfiðir. Planið mitt var að gera árás seint í keppninni, og reyna mitt besta til að halda mér frá hópnum og koma einn í mark, en þessi vindátt þýddi að það var ólíklega að fara að gerast.

72 manns lögðu af stað frá Laugarvatni og fljótlega eftir að við komum út úr bænum og fylgdarbíllinn gaf grænt ljós á keppnina tók ég af skarið og setti hraðann nógu háann til að mynda strax lítinn 10-15 manna hóp. Þessu var vel fylgt eftir, en nokkrir af fremstu mönnum héldu uppi hraðanum á meðan aðrir sátu í aftursætinu, fegnir að vera bara með í fremsta hóp. Stuttu seinna bjó ég aftur til minni hóp með stuttri keyrslu, en eftir um 22km tók Haffi af skarið og keyrði upp hraðann, en það kom nokkrum að óvörum því að þegar við komum að fyrstu beygju inn á Biskupstungnabraut var litið aftur og séð að enginn nema Miro hafði komið með okkur. Þannig var tekin sameiginleg ákvörðun um að halda áfram keyrslunni, og skildum við félagarnir því hina eftir, með um 80 kílómetra eftir af keppninni.

Stuttu eftir að þetta gerðist lenti Óskar í óhappi og sprengdi að framan á hjólinu og varð að stoppa til að kippa því í lag. Það hefði verið gaman að hafa hann með okkur, en það geta því miður ekki allar keppnir verið góðar og því varð bara að hafa það. Hann átti svo góða keyrslu eftir þetta með ýmsum félögum og náði að koma sér í mark í 9.sæti.

Miro var með okkur Haffa í uþb 10 mínútur, en þá varð hann að gefa sig eftir að hraðinn hafði verið í kringum 47km/h og allt gert til að búa til sem stærst bil á milli okkar og hópsins sem var að elta. Eftir þetta stóðum við Haffi uppi í kunnuglegri stöðu, fremstir með rúmlega mínútu á næsta hóp. Keyrslan hélt áfram og yfir  næstu 46 kílómetrana bjuggum við til forskot upp á rúmar 3 mínútur, og beygðum við þá inn á Þingvallaveg, beint í hressann hliðarvind, en þar hófust átökin raunverulega, og þreytan lét finna fyrir sér. Við skiptum vinnunni drengilega á milli okkar, og það var klárt mál að við myndum vinna þetta vel saman til síðasta kílómetrans, en á þessum tímapunkti hefði verið ómögulegt að komast einn burt, vegna þreytu og veðurs.

Eftir ótrúlega erfiða 15 km á Lyngdalsheiðinni, sem innihélt meðal annars gríðarlega mikið af bílum sem sköpuðu mikla hættu í keppninni, mótvind sem fékk mann til að hugsa hvort væri betra að labba heldur en hjóla þetta, og ágætis stöðugt klifur sem var þó ekki bratt, komum við að brekkunni sem liggur niður á Laugarvatn, 2km eftir. Taktíska keppnin hófst þarna, og það komst ekkert annað fyrir í hausnum á með, en þau skipti sem ég hef látið Hafstein snúa á mig með mikilli keppnisreynslu. Ég hugsaði helst um síðasta skipti sem við áttumst við, í Jökulmílunni, en þar fór ég fyrstur inn í sprettinn og gat því lítið komið á óvart eða fylgst með fyrir aftan mig. Þar fór ég of seint af stað og lét Hafstein sigra mig örugglega. Enn og aftur var ég fastur fremst, eftir að við skiptumst á að hjóla yfir heiðina, en hann kom sér fyrir, fyrir aftan mig, fyrr en ég átti von á og sat ég því fastur fyrir framan. Við rúlluðum sultuslakir niður brekkuna án þess að stíga pedalana, þar til marklínan var í sjónmáli. Ég byrjaði að hjóla rólega á undan, en ákvað að gera öfugt við Jökulmíluna, og fór fyrr heldur en vanalega. Ég setti allt sem ég átti í að koma mér af stað, og 12 sekúndum síðar hafði ég þetta, ögn meira en hjólalengd á undan Haffa, og fyrsta sætið var mitt.

Mynd: Sveinn Benedikt Rögnvaldsson

Mynd: Sveinn Benedikt Rögnvaldsson

Einar Bárðarson hefur gert góða hluti með að setja þetta mót upp, og hefur uppskorið lof margra, en rúmlega 300 manns kepptu þennan dag, sem er næststærsta mæting í hjólreiðakeppni á Íslandi í ár. Allir sem aðstoðuðu við keppnishald og skipulag í kringum viðburðinn eiga þakkir skildar! Það er alltaf gaman að sjá sportið stækka, og keppnir eins og Gullhringurinn eiga flottann hlut í þeirri þróun.

RR – WOW Cyclothon

Keppnin

WOW Cyclothon. Lengsta og stærsta hjólreiðakeppni ársins, sé umgjörð, vegalengd og heildartími mældur. Það er í raun engin keppni eins og þessi, einstaklingar, 4 manna lið eða 10 manna lið keppast um að hjóla hringveginn, 1332 kílómetra á sem styðstum tíma. Liðin eru með bíl fyrir alla liðsmenn og setja út 1-2 menn í einu til að dreifa álagi, og reyna að hjóla nokkur lið saman til að mynda hóp sem hjálpast að við að brjóta vindinn og gera ferðina skemmtilegri. Álagið sem hvílir á öllum, hvort sem þeir eru hjólreiðamenn eða ökumenn, er ótrúlegt og úthaldið sem keppnin krefst er ekki síður andlegt heldur en líkamlegt.

Það er ógleymanleg lífsreynsla að taka þátt í þessarri keppni, en ég tók þátt árið 2012 þegar keppnin var haldin í fyrsta skipti. Ég var settur inn í WOW liðið á síðustu stundu, ásamt Skúla Mogensen, Gunna Gylfa og Emil Tuma, og var þá nýbúinn að taka mín fyrstu spor í götuhjólreiðum, og átti langa leið á þann stað sem ég er á í dag. Við tókum þátt með það í huga að hafa gaman að þessu, en þá var langsterkasta liðið, lið Hafsteins, Árna, Pálmars og Kára, og við þóttumst vissir um að þeir myndu taka þetta. Það árið var þetta mjög skemmtileg upplifun, við tókum flott 2.sæti ásamt 2 öðrum liðum, og deildum góðum stundum inn í húsbíl á fleygiferð.

Workforce A

10356315_724837114239410_5956405335708170098_n

Mynd: Workforce

Í ár var kominn aðeins annar tónn í mig, eftir að hafa sleppt keppninni í fyrra var áhuginn fyrir þáttöku orðinn ansi mikill. Helsti munurinn var að sjálfsögðu sá, að nú skyldum við sigra keppnina. Ég var meira að segja minntur á það að ég hafði lofað að taka ekki þátt aftur fyrr en ég vissi að liðið mitt gæti sigrað. Undanfarið hefur verið skemmtileg þróun í keppnisliðum í hjólreiðum á Íslandi, menn eru að vinna mun betur saman en áður, og ég tel að Kría-Specialized liðið eigi stórann hluta af þeirri þróun. Við settum saman góðann grunn að liði sem samanstóð af Emil Þór, Óskari og sjálfum mér, en okkur vantaði fjórða manninn. Erfitt er að finna góðann hjólara á Íslandi sem hefur áhuga, og uppfyllir þær kröfur sem þetta dúndurlið hafði sett. Bjargvætturinn var enginn annar en fyrrverandi atvinnuhjólarinn Tigran Korkotyan, frá Armeníu, en Tigran er starfsmaður hjá Specialized og mikill hjólari, ekta klifurköttur og hafði hann mikinn áhuga á að kíkja til Íslands og upplifa landið á þennan hátt. Það kom á daginn að hann var dúndurgóður hjólari og fullur af reynslu sem hann miðlaði vel til okkar áhugamannana, frábær gaur og topp liðsmaður!

Ekki má gleyma aðalmönnunum, ökumönnunum eða “managerunum” eins og við köllum þá í dag, en án þeirra hefði maður gleymt að borða, gleymt að vakna og jú, gleymt hjálminum og einum hanska inn í bíl á leiðinni út að hjóla 😉 Sölvi Sig og Ingi Már voru svo sannarlega hetjur keppninnar, og héldu lífinu í þessu liði. Það er ómetanlegt að geta einbeitt sér 100% að keppninni, að því einu að hjóla, þegar maður hefur þvílíka snillinga sem aðstoðarmenn, og ég er ekki lítið þakklátur fyrir það.

Startið

10514365_912395478777096_1653686379187875761_o

Mynd: Hjólamyndir

Startið var mjög mikilvægt í þessarri keppni, en fjölmörg lið voru á svæðinu og ekki öll á sama stað hvað varðar form og kunnáttu. Einnig var ákveðin regla í gildi, sem var þannig að séu fleiri en 4 lið að hjóla saman, mættu skiptingar ekki vera oftar en á 25 mínútna fresti. Allt í lagi fyrir okkar lið, en gæti skemmt samvinnuna með öðrum liðum. Það var því ákveðið, eftir létt eyrnahvísl með öðrum vel völdum liðum, að setja út mig og Emil til að keyra upp hraðann og teygja á hópnum, en við vorum tveir vegna þess að fyrsti leggurinn var frá bænum og alla leið að afleggjaranum inn í Hvalfjörð, þannig að ekkert mátti klikka á leiðinni. Við vissum fyrir að Trek liðið myndi setja út tvo af sínum bestu mönnum, Haffa og Árna, og var víst að hraðinn yrði mikill strax og fylgdarhjólið gæfi okkur stjórn á keppninni.

Sú var aldeilis raunin, um leið og við komum framhjá N1 í Ártúnsbrekku fór fylgdarhjólið og Haffi kom fljúgandi framhjá mér, “eigum við að byrja þetta?”. Þarna hófst leikurinn og uþb 4-5 lið byrjuðu strax að skiptast á að hjóla fremst, með nokkur önnur lið í aftursætinu, vonandi að þau gætu haldið hópinn. Ég, Haffi, Árni, Emil og Steinar í Hleðsluliðinu vorum e.t.v. duglegastir við að keyra upp hraðann, en þarna vorum við að hjóla á svipuðum hraða og við myndum gera í 60-100km keppni, ekki 1332km keppni! Planið heppnaðist mjög vel og þegar komið var undir Esjuna og í átt að Hvalfirði voru liðin afar fá eftir, og stuttu seinna byrjuðu sterkari menn að missa af okkur. Niðurstaðan var sú að aðeins þrjú lið héldu forystu, Trek, Hleðsla, og Workforce A. Ég henti mér fljótlega inn í bíl og leyfði Óskari að taka við taumunum, þarna var fjörið byrjað og strax kominn fiðringur í magann, spennandi tímar framundan!

Ferðalagið

Ó hvað ég saknaði húsbílsins þegar nokkrir tímar voru liðnir, inn í pínulitlu 13 manna rútunni okkar. 6 gaurar, 7 hjól og heill ruslahaugur af búnaði og mat, það var ekki mikið um pláss hjá okkur. Sem betur fer hafði Sölvi græjað frábært rúm aftast í bílnum, þannig að við gátum allavega lagt okkur, ef ekki sofnað í nokkrar mínútur. Við vorum þó ansi hressir, strákarnir, og var mórallinn góður alla leiðina. Jafnvel á erfiðustu tímum þegar þreytan var mikil, var hressleikinn til staðar.

Við duttum inn í ágæta rútínu sem byggðist á 25 mínútna skiptingum, menn hjóluðu 25 mínútur og fengu á móti 75 mínútna hvíld, sem var langþráð þegar liðið var á keppnina. En það sem gerði gæfumuninn voru næturvaktirnar, þar sem menn fengu að skiptast á að taka þriggja manna vaktir á meðan einn svaf yfir tvær vaktir, sem þýddi að á meðan þrír hjóluðu 25 mín hver, fékk fjórði maðurinn 150 mín (2,5 klst) hvíld, sem var yfirleitt nóg til að leggjast niður og sofna í smá stund. Ég fékk svo leyfi til að taka tvisvar sinnum 50 mínútur á hjólinu, sem uppskar örlítið meiri hvíld, en verandi í ákveðnu lykilhlutverki í liðinu var sú hvíld aldeilis velkomin!

Það er erfitt að lýsa því hvernig er að keppa í svona keppni, þegar svefnleysið og andleg þreyta byrjar að sýna sig. Minnið verður gloppótt og alls konar hlutir fara að renna saman í huganum, en maður reynir sitt besta að fókusa á verkefnið, og missa ekki jákvæðann andann. Við hjóluðum í gegnum tvær nætur, sú fyrra auðveld þar sem flestir höfðu fengið nægann svefn nóttina fyrir keppni (þó ekki nema 5 tímar hjá mér), en ég man að það var mjög hressandi að vakna rétt eftir Akureyri eldsnemma morguns og fá nýbakaðann snúð í hendurnar. Líkamlega þreytan var ekki svo mikil, í raun mikið minni en mátti búast við. Formið sýndi sig vel í þessarri keppni, og langar æfingar vetursins komu heldur betur að gagni þegar leið á.

Það var þó seinni nóttin, sú sem leið frá Öxi og inn á suðurlandið sem var erfiðasti kafli keppninnar. Ég hafði gert árás bæði rétt fyrir Egilstaði sem var ekki svo kostnaðarsöm, en einnig var ég með smá læti á Öxi og kláraði dæmið með stórárás strax og brekkan niður Öxi var búin. Þessu fann ég vel fyrir, og ég var feginn að fá smá hvíld eftir það. Ég var svo vakinn uþb 2 tímum síðar til að halda áfram keyrslunni, ég var tímastilltur nákvæmlega við Haffa í Trek liðinu og við hjóluðum aldrei hægt saman félagarnir. Þarna hófust 6 vaktir með tveimur öðrum hjólurum þar sem ég var aftastur í röðinni á leið í langa hvíld. Fullkomin tímasetning þar sem ég myndi fá mína hvíld seint, og myndi vakna rétt fyrir stærstu átökin í lok keppninnar. Þessar 6 vaktir voru þó sennilega með því erfiðara sem ég gerði á þessarri hringferð, ég byrjaði fljótlega að finna fyrir rosalegri syfju og gat engann veginn hrist hana af mér. Í hvert sinn sem ég fór út byrjaði ég að fá einhverskonar slikju yfir augun, stór grænn hringur sem huldi allt sem ég sá, og stækkaði og breytti formi eftir því sem leið á keyrsluna, og olli því að ég sá varla hvert ég var að fara. Ég man lítið eftir umhverfinu eða leiðinni sem við fórum og líðanin var ansi slæm. Fæturnir voru sennilega það eina sem virkaði, en þarna var ég sennilega hálfnaður á leið í gúmmíkallaástandið sem fylgdi á eftir undir lokin. Ástandið var líka ansi skringilegt þegar komið var inn í bílinn fyrir stutta hvíld, ég byrjaði að reyna að bæta svefnleysið með því að borða nánast hvað sem ég sá, og gat ekki hætt að borða þegar ég sat inn í bíl, matarlystin var örugglega það eina sem virkaði í hausnum á mér. Í rauninn mætti segja að það eina sem hélt mér gangandi var það að ég var alltaf úti með Haffa, við hjólum alltaf hratt saman og það er alltaf jafn öruggt að hjóla með þessum meistara, samvinnan fullkomin og allt gengur eins og í vél, en ég var þó á tímabili hræddur um að ég myndi sofna á hjólinu og hjóla kallinn út af veginum. Feginn að það gerðist ekki.

Egilsstaðir

Mynd: Emil Þór Guðmundsson

Mynd: Emil Þór Guðmundsson

Hleðsluliðið hafði staðið sig frábærlega í samvinnunni við bæði mitt lið og Trek liðið, og keyrslan var þétt og góð hjá öllum sem hjóluðu. En ég vissi frá upphafi, og ég held að það hafi allir vitað, að það kæmi sá tími þegar keppnin milli okkar og Trek liðsins myndi virkilega byrja. Það var fljótlega eftir Akureyri sem þreytumerkin byrjuðu að sjást á mönnum, fyrsta nóttin var liðin og ekkert víst að allir hefðu fengið að sofa eins og þeir vildu. Ég tók fljótlega þá ákvörðun fyrir hönd liðsins að í brekkunni fyrir Egilsstaði yrði klippt á Hleðsluliðið og forystan tekin af aðeins 2 liðum. Þetta var ekki mikið verk, í hreinskilni sagt, ég hafði hjólað úti einhverja 40km þar sem mælingar að þessarri brekku voru örlítið skakkar og ég þurfti að bíða lengur en ég átti von á. En fæturnir voru ferskir, ég hafði verið duglegur að hvíla á milli keyrslna og var tilbúinn í árásina. Bjarki og Benni voru með mér úti þegar komið var í brekkuna, en allir bílarnir tóku framúr okkur fyrir hana, og skiptu bæði mótherjaliðin út sínum mönnum, Steinar og Árni komu út á meðan ég hélt áfram að hjóla. Ég beið ekki mjög lengi þegar brekkan hófst, stóð upp og kom mér í stöðu með strákunum, og gaf svo hressilega í, en þó ekki þannig að ég myndi stressa Trek liðið of mikið. Árásin þurfti að vera hnitmiðuð til að losna við eitt lið, á meðan samvinnan við hitt liðið héldist. Þannig sprettaði ég í stutta stund, sneri mér svo við og sá að Steinar svaraði ekki, Árni nálgaðist og ég leyfði honum að loka bilinu og taka þátt í klifrinu. Nokkur  hundruð metrum síðar fóru Haffi og Óskar út og þar með var þessu lokið; toppliðin voru nú ein.

Öxi

Öxi er einstakt fyrirbæri. Enginn annar staður á hringleiðinni er jafn hættulegur, bæði tæknilega á hjólinu og taktískt fyrir liðin og einstaklingana sem keppa. 27km af þéttum malarvegi og uþb 400 metra klifur, sem er fylgt eftir af hröðu bruni niður hlykkjóttann veg, alla leið inn Berufjörðinn, Öxi er hressandi kafli sem gerir keppnina ótrúlega spennandi. Eitt af mínum verkefnum í þessarri keppni var að hjóla Öxi, ég hafði sérstakann áhuga á því, og þegar komið var að teikniborðinu fyrir keppnina var hugmyndinni að árás þar oft kastað á milli manna. Það var áhugaverð pæling, þarna hafði ég tvo styrkleika í klifri og malarvegi, og á blaði lítur enginn annar staður á landinu betur út fyrir tilraun til að slíta sig frá hinu liðinu. Ókosturinn? Bara uþb 600km af spennu, stressi og endalausri keyrslu í bæinn þegar malarveginum lýkur, ekki alveg það hentugasta, og þegar á hólminn er komið, ekki eitthvað sem menn eru tilbúnir í. Það var tekin sú ákvörðun einhverstaðar á norðurlandinu að þarna myndum við ekki gera tilraun til að komast burt, en það var haldið opnu fyrir árásum, helst til að láta reyna á Trek liðið.

Við mættum spenntir að malarkaflanum og sáum að Raggi og Bennsi voru að græja einhvern út, við sáum ekki hver það var eða á hvernig hjóli hann yrði þegar hann kæmi niður brekkuna að bílnum okkar. David hafði botnað Audiinn sinn til að athuga aðstæður áður en liðin mættu á svæðið, og hann sagðist viss um að Trek menn myndu notast við götuhjól. Ég bjóst þarna við að sjá annaðhvort Árna eða Haffa, og var vel viðbúinn þeim. Ákvörðunin var tekin, út með götuhjólið og ekkert pælt í að lækka loftþrýsting í dekkjum, Árni var kominn út og var á leiðinni og það var ekkert annað í stöðunni en að keyra á eftir honum.

Árni var með skemmtilegann stíl sem gekk í gegnum alla keppnina, amk þegar hann hjólaði gegn mér. Þetta minnti svolítið á track hjólreiðar, þar sem menn hjóla rólega til að reyna að plata andstæðinginn til að taka forystuna, það er nefnilega betra í þannig stöðu að vera fyrir aftan og geta þannig komið á óvart. Árni hjólaði í raun alltaf í vörn, fylgdist vel með mér og var alltaf tilbúinn fyrir hasa, en var þó aldrei fyrri til að gera eitthvað. Þetta sá ég hjá honum þegar við tveir tókum næstum öll mikilvægu klifur hringferðarinnar. Ég hélt á eftir honum upp malarveginn og spilaði með honum, lét hann þó yfirleitt leiða og hægði á mér í takt við það þegar hann reyndi að ýta mér framfyrir sig.

Það kom að því að mig langaði að gera eitthvað, þannig að ég setti smá kraft í þetta og athugaði hvernig Árni tók í það, hann hélt vel í við mig þannig að ég slakaði aftur á. Meiningin var aldrei að reyna að stinga af, heldur frekar að athuga formið hjá hinu liðinu. Fljótlega eftir grófa beygju gaf ég meira í og þá aðeins lengur, bjó fljótlega til bil og Árni þurfti að gefa vel í til að loka því, sló þá aftur af. Restin af leiðinni var tíðindalaus, við hjóluðum saman inn í þokuna og fljótlega sáum við aðeins framdekkin á hjólunum okkar, ekkert annað. Þegar komið var á toppinn sáum við bílana og Bjarka og Óskar klára í slaginn, við skiptum og ég stökk inn í bíl til að fylgjast með bruninu niður.

Eftir æsilegann bílaeltingaleik komum við loksins niður úr skýiinu og mér til mikillar gleði sá ég að Óskar var kominn töluvert á undan Bjarka þegar þeir komu niður á flatann. Ég sagði við strákana að mig langaði út til að gera eitthvað úr þessu tækifæri, þannig að bíllinn var botnaður (70km/klst!) og mér fleygt út þegar nokkurhundruð metrar voru eftir af malarveginum. Ég leit aftur fyrir mig og brá pínu, þarna var Hafsteinn mættur á hjólið og alveg helillur! Ég gaf hressilega í og byrjaði nánast strax að hamra á pedulunum til að ná að halda bilinu, sem mér tókst að gera. Árna var fleygt út til að aðstoða Haffa og þegar ég sá það kom smá bros á vör; þeir voru smeykir við þessa árás og voru greinilega ekki nógu öruggir með að setja einn út á móti mér. Við tók ansi æsilegur eltingaleikur, þar sem ég á einum tímapunkti taldi gróflega 15 sek forskot, en ég setti þarna í 20 mínútur hæstu afltölur sem ég hef séð fyrir þessa tímalengd. Við komum inn á malbikið og æsingurinn hélt áfram, ég sá að Haffi skipti um hjól, TT hjólið var tilbúið fyrir hann og Valli fylgdi á eftir á öðru TT hjóli. Það var greinilega mikil alvara í mönnum og ég hrópaði á strákana í bílnum að setja einhvern út. Út kom Emil sem reyndi sitt besta en var ekki alveg nógu heitur til að halda hraðanum, enda nýmættur út. Þess má einnig geta að Haffi var svo æstur í fjörið að hann hafði líka stungið Valla af og við vorum einir í eltingaleik.

Þarna var nóg komið af fjöri, ég hafði fengið langþráða spennu og sá ekki fram á að hjóla alla leið í bæinn á þennan hátt. Ég hætti keyrslunni, lækkaði hraðann og sá Haffa og hans lið ná mér á augabragði. Þarna fór ég inn og Óskar út, og á nákvæmlega sama tíma fórum við Haffi í langþráðann svefn, til að gera okkur klára fyrir hið skemmtilega óendanlega suðurland.

Kambarnir

Mynd: Arnold Björnsson

Mynd: Arnold Björnsson

Við vissum að Trek liðið væri með tvö TT hjól. Við vissum líka að það væri erfitt, ef ekki ómögulegt að ná einhverjum sem fer einn af stað á slíku hjóli efst á heiðinni eftir Kambana upp frá Hveragerði. Þarna var komin stór áhætta í leikinn og klárlega eitthvað sem við vildum hafa áhrif á. Eftir æsinginn á Öxi róuðust bæði liðin og stífar 25 mín vaktir hófust, þar sem mönnum var spilað saman skv formi til að koma í veg fyrir ójafnvægi og einnig halda báðum liðum rólegum. Ingi og Sölvi tóku eftir að í hvert sinn sem ég var settur út, var Haffi settur á móti mér. Árni gegn Óskari, Emil gegn Bjarka og Valli gegn Tigran.

Þegar lokaspenningurinn byrjaði að magnast upp, uþb þegar við fórum að nálgast Selfoss, vorum við búnir að leggja örlítið á ráðin. Okkur datt í hug að Trek liðið væri líklegt til að hvíla Haffa og Árna eins mikið og hægt væri, svo þegar kæmi að Kömbunum myndu þeir setja Árna út til að klifra, og Haffi myndi vera klár með TT hjólið á toppnum, til að reyna að keyra allt í botn alla leið í markið. Við vorum nokkuð öruggir með að láta þetta ráðast af endaspretti, þannig að næsti hluti plansins fór að snúast um hvernig við gætum spilað með hitt liðið. Við tókum til ráðs að setja mig út með öðrum hjólara, til að plata þá til þess að setja Haffa út. Svo þegar allir væru komnir saman myndi ég strax hætta að hjóla og fara aftur inn í bíl. Þetta myndi riðla til planinu þeirra. Þetta var svo sett í gang, fyrst milli Selfoss og Hveragerðis, en þá kom það fyrir að Haffi lenti í vandræðum með hjólið, keðjan var föst og hann virtist ekki ætla að ná skiptingu. Þarna voru tveir möguleikar, annaðhvort myndum við notfæra okkur þetta eða ekki. Ég held ekki mikið upp á það að sigra keppnir út á mistök eða óheppni annarra, ég gaf Óskari merki um að halda áfram og stökk sjálfur inn í bíl og beið næsta tækifæris. Við endurtókum leikinn rétt fyrir Hveragerði, settum út mig og Tigran, og Haffi fór út á móti. Ég lét eins og ég ætlaði að halda áfram en stoppaði og fór aftur inn í bíl.

Þannig hófst klifrið á því að Haffi, Tigran og Óskar fóru saman inn í Kambana, ég beið spenntur nokkur hundruð metrum ofar og Árni líka. Við skiptum allir og við Árni tókum við. Taflið hélt áfram milli okkar Árna, með þeirri undantekningu að vörubílstjóri á vegum Eimskips virtist halda að hann ætti eina af tveim akreinum og hafði hug á að keyra okkur út af veginum. Nokkrum orðaskiptum síðar héldum við upp bröttustu brekkuna og þá síðustu á leið upp á heiðina. Árni sló skyndilega af og hægði mikið á sér, en mér tókst að bregðast við og hanga fyrir aftan hann, og nokkrum auglitum aftur fyrir mig til að athuga með umferð síðar, gerði ég öfluga árás. Það verður að segjast að þarna setti ég allt sem ég átti í þetta og sikksakkaði upp brekkuna. Fyrir aftan mig sá ég Árna fjarlægjast, og bíl Arnarins koma á fullri ferð framhjá mér, mér hafði tekist að sprengja Árna og neyða Haffa út, og það á götuhjóli því þarna voru allir orðnir svo spenntir að það var sennilega stutt í raflost í rigningunni, ekkert mátti klikka og TT hjólið var út úr myndinni. Ég sló strax af, settist niður og beið eftir að Haffi næði mér, sem tók ekki langann tíma. Við hjóluðum upp á heiðina og sáum að báðir bílarnir voru komnir fyrir framan okkur og voru að dæla út mönnum.

Lokaspretturinn

10421619_1437631889848728_8799100543861757452_n

Mynd: Arnold Björnsson

“Allir út” heyrði ég Haffa segja inn í bílinn sinn, og það var sko raunin. Bæði liðin hentu út öllum sínum hjólurum og á augabragði vorum við 8 talsins á veginum þegar hann hætti loks að fara upp í móti. Þarna voru 27 kílómetrar í mark, rúmlega 1300 kílómetrar búnir og allir hjóluðu eins og það hefði bara verið upphitun. Andrúmsloftið var ansi magnað, það hellirigndi, smá vindur og brjálað stress í mönnum. Við byrjuðum að raða okkur upp í einhverskonar fylkingu, ég passaði að nýta Óskar sem skjól og Emil til að fylgjast með hinum, en Tigran datt aftur úr hópnum þegar við byrjuðum að nálgast Litlu kaffistofuna. Þarna varð ég viti af þvílíkum krafti sem Bjarki og Valli sýndu, en fyrir þetta var ég alveg viss um að þeir yrðu ekki til vandræða þegar hraðinn myndi aukast á leið í markið. Svo var ekki, báðir voru oftar en ekki fremstir í hópnum og unnu sína vinnu mjög vel, Haffi var að miklu leyti laus við að vera fremstur, en Árni kom svo líka inn í spilið þegar lítið var eftir.

Ég var alveg að farast úr spennu þegar við skutumst framhjá beygjunni sem liggur inn í Heiðmörk. Þarna voru aðeins nokkur hundruð metrar eftir og einn pínulítill hóll stóð á milli okkar og marklínunnar. Ég sá að Árni setti allt í botn fyrir framan Haffa og hraðinn jókst rosalega. Það munaði ekki miklu að ég missti af hópnum þarna, ég þurfti að taka svoleiðis rosalega á til að hanga í hópnum en það rétt hafðist. Við komum yfir hæðina og Árni fór þá aftar í hópinn og var uppröðunin þá Haffi, Óskar, ég. Ég fylgdist vel með og reyndi að vera eins slakur og hægt var, sá að Haffi byrjaði að keyra upp hraðann, og tók þá ákvörðun að koma mér fyrir framan Óskar til að vera eins nálægt Haffa og hægt var. Þetta var að mestu leyti vegna þess að ég var hjólandi á vegöxlinni og hafði ekkert pláss til að vinna með, þannig að það mátti ekki taka neina sénsa. Spretturinn fór í gang og ég stóð upp, en beið í örskamma stund beint fyrir aftan Haffa, áður en ég sá línuna og byrjaði minn sprett. Allt var sett í þetta, mér leið eins og fæturnir væru úr gúmmíi og ég væri á deyfilyfjum, tilfinningin var engin og mér fannst eins og ég væri að ýta mér áfram með hugaraflinu einu. Kanski var það svoleiðis, en það var greinilega nóg, ég rétt skaust framúr, og kom yfir línuna, fyrstur með hjólalengd í Haffa.

Tilfinningin var ótrúleg, þetta var án efa einn stærsti sigur í mínum ferli og það frábæru liði og einstakri samvinnu milli liðsfélaga og keppinauta að þakka. Það er í raun ólýsanlegt, hvernig það er að taka endasprett eftir rúmlega 39 tíma ferðalag umhverfis landið, ýmist á hjóli eða sitjandi í keng í lítilli rútu. Menn sögðu að þessi keppni færi í sögubækurnar, og það er vægast sagt frábært að vera hluti af þeirri sögu.

 

XC – Heiðmerkuráskorunin

Myndir: David Robertson og Elvar Örn Reynisson

Einn af mikilvægustu hlutunum við að keppa, að mínu mati, eru mótherjarnir, andstæðingarnir, samkeppnin. Það eru líklega flestir sammála um að ef lítil samkeppni er, þá er lítið sem ýtir manni áfram til að gera betur en síðast, erfitt að bæta sjálfann sig, og kanski fyrst og fremst, þá dregur lítil samkeppni úr gildi góðs árangurs í keppni. Ég hef alltaf verið á þessarri skoðun og mér finnst þetta skipta höfuðmáli í þeim keppnum sem ég tek þátt í, en ég hef alltaf verið svolítið meira fyrir að einbeita mér að einum hlut og gera hann mjög vel, frekar en að dreifa mér yfir margar greinar eða áhugamál.

Það er annað sem er mér mjög mikilvægt, og eitthvað sem ég trúlega minnist oft á, og það eru andstæðingarnir sjálfir. Í gegnum tíðina hef ég kynnst alls konar fólki, ótrúlega mismunandi fólki og ekki aðeins þeim sem ég lít á sem mótherja mína heldur líka fullt af fólki sem er á öðrum stað í hjólreiðakeppnum. En allt þetta fólk skiptir máli, því þetta er jú samfélagsleg íþrótt og mikil samskipti fara fram milli fólks, sama hvort það eru handabendingar á 60km/h eða klassíska spjallið eftir keppni. Eðlilega pælir maður meira í þeim sem eru á svipuðu stigi og maður sjálfur, og eyðir því meiri tíma með þeim í keppnum og í öðrum hjólreiðum. Að hafa einhvern sem maður ber virðingu fyrir, sem sýnir íþróttamannslega hegðun og tekur tillit til annarra, á sama tíma og keppnisskapið er til staðar, er ekki sjálfgefið, og alls ekki eitthvað sem maður getur stjórnað sjálfur. Ég tel mig því heppinn að eiga mér nokkra reglulega andstæðinga sem passa inn í ofangreinda lýsingu, ég er alltaf þakklátur fyrir að þessir einstaklingar séu til staðar, og tilbúnir til að berjast um gullið!

Í gær fór fram Heiðmerkuráskorunin, árleg fjallahjólakeppni í boði HFR, haldin á stígum og vegum Heiðmerkur í kvöldsólinni (eða rigningunni, eins og í gær). Þetta er skemmtileg keppni vegna þess að hún fær alltaf góða þáttöku og gott skap í fólki, skemmtileg krakkakeppni og auðvitað góðum hamborgurum í boði Arnarins að keppni lokinni. Keppnin er stutt, eða aðeins 24km fyrir A-flokk, og það á hröðum stígum þar sem má ná hátt í 30km meðalhraða, þannig að átökin eru mikil yfir þann stutta tíma sem tekur að ljúka keppni.

Heiðmerkuráskorunin var fyrsta hjólreiðakeppnin sem ég sigraði, árið 2012, þannig að hún er sérstök fyrir mér vegna þess. Ég var ansi vongóður með skráningu góðra manna fyrir keppni, og sá nöfn margra öflugra hjólreiðamanna, en þó vantaði eitthvað 🙂 (Hafsteinn þér er fyrirgefið, hamborgarinn bætti fyrir þetta!) Ég hafði þó sett stefnuna á að setja brautarmet þetta kvöld, þar sem keppnin er ein af fáum sem breytast ekkert á milli ára, þannig að það er hægt að miða við að bæta tímann sinn þarna með nokkuð góðri nákvæmni. Brautarmetið stóð í 49:07, og var sett af Helga Berg í fyrra, ég var aðeins einni sekúndu á eftir honum þá. Aðstæðurnar í ár voru mjög svipaðar þeim í fyrra, mjög blautt og einhver rigning, stígarnir gripu mjög vel vegna þess að mölin var þétt í bleytunni en það var þó svolítið meiri vindur í ár.

Keppnin fór af stað á slaginu 20:30 og ég tók start sem ég hafði vanið mig á í vetur í cyclocrosskeppnunum: allt í botn. Ég tók strax forystu og keyrði stutta kaflann á veginum sem liggur að fyrsta einbreiða stígnum. Á þeim tímapunkti, aðeins nokkrum mínútum eftir start, hafði ég dregið Helga og Óskar frá hópnum, og það var strax komið bil í næstu menn. Ég hélt áfram að keyra mig út, og var kominn í þægilegann timetrial-hjartslátt, sem ég get haldið í að minnsta kosti klukkutíma, með smá jákvæðri hugsun 🙂 Mjög fljótlega eftir að við komum inn á stíginn stækkaði bilið milli mín og Helga og ég var sloppinn, ég kíkti ekki fyrir aftan mig fyrr en ég var kominn aftur upp á veginn hinum megin í brautinni, en þar tók við smá slagur við mótvindinn, á örlítið lengri beinum kafla á flötum malarvegi. Ég sá þar að Óskar hafði skilið strákana eftir og var kominn í hörkueltingarleik við mig. Fljótlega eftir að ég komst aftur inn á stíginn af veginum hélt keyrslan áfram meðfram vatninu og í átt að markinu, til að klára fyrsta hring af tveimur. Ég var hættur að sjá nokkurn fyrir aftan mig, og sá að tíminn á hringnum var 24:01, brautarmet. Hress með þetta hélt ég áfram, en ég var þó farinn að finna kunnuglega tilfinningu. Þegar mann vantar einhvern til að sparka í rassinn á sér, er auðvelt að slaka örlítið á þrátt fyrir að geta farið hraðar. Ég held að þetta sé eðlilegt, maður á alltaf sínar bestu keppnir þegar það er erfiðast að hafa fyrir vinnunni, erfiðara er að ýta sjálfum sér áfram. Þetta er aðdáunarverður hæfileiki sem timetrial sérfræðingar eru mjög góðir í.

1512108_10203655033114887_2886886926986872978_o

Ég kláraði keppnina á nýju brautarmeti, 48:39, eitthvað um einni og hálfri mínútu á undan Óskari, sem var svo fylgt eftir af Bjarka Bjarnasyni, glæsilega hjólað af þeim, og gaman að sjá sterka menn eins og Sigurð Hansen taka 4.sætið og nýja menn koma sterka inn, td. Helga Pál í 7.sæti. Keppnin var stórgóð, og verður klárlega betri með hverju árinu. HFR eiga heiður skilinn fyrir að standa að góðu móti, tímanlega í öllu og með allt á hreinu, þeir voru líka flottir að taka skrefið að því að nota Hjólamót.is sem skráningarkerfi fyrir keppnina. Örninn var flottur eins og vanalega, og borgararnir ekki síðri en glæsimennin sem mönnuðu grillið!

RR – Jökulmílan

Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson

Jökulmílan er ein af þessum keppnum sem þarf meiri undirbúning en aðrar, ekki bara vegna þess að verandi lengsta eins-dags götuhjólakeppni ársins, 160km, heldur líka vegna þess að það þarf að ferðast dágóðann spotta upp í Grundarfjörð til þess að taka þátt. Ég hef svolítið gaman að þessu, það er ekkert leiðinlegt að eyða heilum degi í hjólreiðakeppni, og ferðalagið til og frá gerir þetta bara skemmtilegra. Í fyrra var þessi keppni á sama degi og KexReiðin sem ég sigraði, þannig að það var fúlt að geta ekki verið með þá, en stærri hópur og stóraukin samkeppni gerðu það að verkum að keppnin í ár leit út fyrir að ætla að vera enn betri en í fyrra.

Ég tel mig hafa ágætis úthald á hjólinu, enda er það með betri hlutunum sem koma til manns eftir mikinn æfingavetur, þannig að ég var spenntur fyrir að sjá hvernig ég myndi tækla svona langa keppni. Brautin leit vel út, þessi týpíski Íslenski flati staðreynd sem maður venst með hverju ári (afhverju eru Íslenskir hjólreiðamenn hræddir við brekkur?), en ég hafði keyrt þetta áður og vissi að landslagið væri frábært og vegirnir góðir. Aðalpælingin hinsvegar, var hverjum maður myndi hjóla með, og startlistinn gaf góðar vísbendingar. Þarna voru kunnugleg nöfn frá síðustu keppnum, Hafsteinn, Miro, Árni og Óskar, auk nokkurra annarra sem gætu komið sterkir inn. Ég var með í kollinum hugmynd að 6-8 manna hóp sem ég vissi að gætu verið í formi til að hjóla í fremsta hóp, en maður veit svo aldrei hvernig menn eru, eða hvað gerist í keppninni.

Veðrið var bara mjög fínt þegar komið var á staðinn. Það var léttskýjað og þurrt, hiti í loftinu, og lítill vindur; uppáhaldsaðstæðurnar mínar, stuttermaveður! Það fór aðeins meiri tími en vanalega í að pæla hvernig væri best að vera klæddur, en hér á landi getur ýmislegt gerst í veðrinu á 4-5 tímum. Ég endaði á því að vera öruggur með þetta, stutta kittið toppað með stökum skálmum og ermum til að vera alveg pottþéttur í bæði miklum hita og vægum kulda. Þá tók við hin stóra pælingin, hvað tekur maður með sér að borða og drekka í svona ævintýri? Sem betur fer hafði ég kíkt í heimsókn til vina minna í Hreysti daginn áður og var með tonn af drasli með mér. Niðurstaðan var að ofan í vasana fóru 4 gel, 4 kókos-súkkulaði orkustangir, 2 hafrakubbar og 1 sími sem var þó ekki étinn. 2 stórir brúsar af orkudrykkjum dugðu hinsvegar ekki, og það byrjuðu einhverjar pælingar með að stoppa kanski á drykkjarstöð á leiðinni, ef hópurinn væri með nógu gott forskot, og allir meðlimir drengilegir 🙂

Keppnin hófst á slaginu 11:00 og við vorum leidd út úr bænum, á leið í öfugann klukkuhring í kring um Snæfellsnes. Ég held að það hafi verið eitthvað um 90-100 manns í hópnum sem fór heila Jökulmílu, og það var gaman að sjá alla langlokuna þeysa í átt að fyrstu brekkunni. Ég og nokkrir aðrir vorum með svipaðar hugmyndir um að minnka hópinn aðeins, og jafnvel mynda lítinn hóp fremst og stinga af þannig. Brekkan var tekin sæmilega rólega, og ekki mikill æsingur þar, en fljótlega eftir klifrið sást kunnuglegt “múv” frá Hafsteini, öflug keyrsla strax eftir að hópurinn hafði teygst yfir klifrið. Þetta gerði það að verkum að allir áttu erfitt með að ná hópnum saman aftur. Ég tók einhvern þátt í þessu, og kunnugleg andlit voru framarlega í hópnum. Þegar við fórum svo niður brekkuna hinum megin hélt keyrslan áfram, en ég lét mig falla rólega aftur úr hópnum, til að láta líta út fyrir að það væri ekkert of mikið að gerast. Þegar ég sá að Hafsteinn var kominn með ágætis bil í næstu menn, en þar voru Miro og Árni saman, Helgi Páll og Óskar framarlega. Ég hóf þá aðra keyrslu og brunaði fram úr öllum til að ná í skottið á Haffa, en þeir fylgdu allir með. Enginn annar náði að hanga í okkur, og þá var litli fallegi 6 manna hópurinn okkar myndaður, og samanstóð af prýðishjólurum sem er gaman að eyða 4 tímum á hjóli með.

Samvinnan gekk mjög vel hjá okkur eftir að hópurinn róaðist. Við hættum að sjá í næstu menn og byrjuðum að skipta vinnunni á milli okkar, sem gekk mjög vel enda allir góðir hjólarar. Helgi Páll kom skemmtilega á óvart sem nýliðinn sem sneri á marga vana hjólara sem voru aldrei að fara að ná okkur, og fær rokkstig dagsins. Þegar keppnin var hálfnuð sáum við drykkjarstöð númer 2, og voru menn almennt sammála um að taka pissustopp og fylla á brúsana, en það var þó ábótavant að það var enginn heitur pottur á svæðinu þannig að við vorum fljótir að koma okkur burt. Við keyrðum og keyrðum um flata vegina og það verður að segjast að á köflum var þetta ansi þurrt, en hraðinn var góður og það kom einn hóll á leiðinni sem var hægt að standa hjólið á leiðinni upp til að teygja úr fótunum. Ég byrjaði að pæla aðeins í hvernig væri best að taka lokakaflann, en ég vissi af ágætu klifri á Vatnaleiðinni, uþb 100m hækkun yfir 1.9km. Mig hefur alltaf langað að gera árás seint í keppni og komast einn eða með einum öðrum burt í markið, og þarna var fínt tækifæri til þess.

Við fyrstu beygju hjá sjoppunni Vegamót voru uþb 130km búnir og við byrjuðum að hjóla í átt að brekkunni, allir saman. Það var engin sýnileg þreyta í mönnum, og meðalhraðinn búinn að vera um 35km/klst sem er bara fínt fyrir svona hóp held ég. Þegar við komum í brekkuna sat ég annar fyrir aftan Hafstein með hina fyrir aftan. Haffi byrjaði að setja gott tempó upp brekkuna og var greinilega tilbúinn fyrir einhvern hasar því þegar brekkan var uþb hálfnuð stökk ég fram úr honum og setti hátt í 1300w til að sleppa frá hópnum. Ég stóð upp og spretti aðeins lengur og leit fyrir aftan mig, sá að Haffi var sá eini sem gat svarað og var á leiðinni til mín, hinir hurfu strax. Ég tók ákvörðun um að setjast niður og bíða eftir Haffa, en ég taldi best að hafa hann með til að eiga meiri möguleika á að sleppa. Við keyrðum vel og jafnt yfir heiðina og að næstu gatnamótum þar sem 22km af mótvindi tóku við. Fyrir aftan mig sá ég að Óskar reyndi að stinga þá félaga af, en mótvindurinn gerði það að verkum að hann komst aldrei yfir til okkar, þannig að við vorum þá ansi öruggir. Þrátt fyrir það hjóluðum við ansi vel restina af leiðinni, en síðustu 25km voru farnir á 41km/h.

Á endanum komum við inn í Grundarfjörð aftur, og hjóluðum saman þessa löngu og aflíðandi hægribeygju í átt að markinu. Vindurinn kom vinstra megin frá og ég giskaði á að þegar við færum í átt á markinu myndi hann vera örlítið í bakið, en samt smá krossvindur. Ég hafði áður lent í því að láta plata mig til að taka vindinn á leið í endasprett, og þrátt fyrir að gera það full snemma þá ákvað ég að fara út í kantinn hægra megin til að koma í veg fyrir að Hafsteinn kæmist þangað og gæti verið í skjóli af mér. Stressið byrjaði að byggjast upp og ég lækkaði hraðann töluvert, en út í kantinum voru nokkrir sandkaflar og nóg af möl og holóttu malbiki, pókerinn var byrjaður og ég vissi að eins og vanalega var ég sá reynsluminni. Ég ákvað að vera ekki sá fyrri til í sprettinn, en þegar við vorum komnir mjög, mjög nálægt markinu, held það hafi verið ekki meira en 100 metrar, tók Haffi á rás fyrir aftan mig og gaf allt í botn, mér brá pínu og allar sprettæfingar fóru út um gluggann þegar ég tvískipti niður og setti í allt of þungann gír en reyndi þó allt sem ég gat til að ná honum. Það verður að segjast að ég átti ekki séns, Haffi var með þetta frá fyrsta andartaki í sprettinum og átti sigurinn fyllilega skilinn.

Fúlt að taka 2.sætið, fjórða skiptið í röð í sumar, en eftirá að hyggja þá er alls ekki svo slæmt að taka silfur í svona keppni. Maður lærir af þessu en það eru víst margar óskrifaðar blaðsíður í sprettkaflanum í reynslubókinni 🙂

Hjólamenn eiga heiður skilinn fyrir flotta keppni og frábært framtak. Allt í kring um keppnina var glæslega framkvæmt, og fílingurinn bara góður eftir þetta. Ég benti þeim á, eftir keppnina að það hefði ekki verið þægilegt að spretta í átt að ósýnilegri línu, en án þess að hljóma leiðinlega þá gerði þetta ekki góða hluti í sprettinum sjálfum. Fallegi blái sigurboginn var þó flottur, og ég er viss um að þegar allar götuhjólakeppnir á Íslandi skarta slíkum boga og þykkri, góðri, hvítri línu til að setja framdekkið yfir, verður lífið gott!

XC – Blálónsþrautin

Bláalónsþrautin er ansi mögnuð keppni. Það er engin hjólreiðakeppni á keppnisárinu sem hefur jafn stórt nafn og jafn marga þáttakendur, og það eitt dugir til að gera þetta mót að einskonar árshátíð keppnishjólreiðamanna á Íslandi. Margir æfa sérstaklega fyrir þessarri keppni og bíða heilt ár á milli keppna til að bæta tímann sinn, sigra æfingafélagana og fá sér bjór í Lóninu eftirá. Það er ekki erfitt að sjá afhverju fólk hefur svona gaman að þessu sporti, þegar maður tekur þátt í þessu móti.

Keppnin hefur frá því ég byrjaði í þessu sporti aldrei verið “A-markmið” sem slíkt, fjallahjól eru vissulega mín uppáhaldsgrein en ég held mest upp á tæknilegar brautir með miklu klifri, tveir hlutir sem eiga ekki við brautina í þessarri keppni. Í ár ákvað ég að setja hana þó í hæsta forgang og var þetta því mín fyrsta A-keppni á þessu ári. Vikan fram að keppni var plönuð vandlega, og æfingar voru stigvaxandi styttri og léttari, með fleiri rólegum dögum en þó passað að vera ekki of slakur til að missa ekki skerpuna sem þarf til að bregðast við árásum í keppnum (og setja pressu sjálfur!).

Keppnisdagurinn var hinn rólegasti frá því ég byrjaði að keppa í þessu sporti. Startið var kl 16:00 sem þýddi að engin þörf var á að fara snemma að sofa daginn fyrir, vakna snemma og vera með allt klárt. Þvert á móti vaknaði ég um 11 leytið og kíkti út í sólina, veðrið gat ekki hafa verið betra. Tvær kjúklingabringur flugu á grillið og það var ansi mikil sumarstemmning í bakgarðinum heima, lognið fyrir storminn. Við félagarnir frá Kríu brunuðum uppeftir og vorum vel tímanlegir og lítið af fólki mætt þegar við settum allt upp. Upphitunin fór í gang og það var smá spenningur í loftinu. Af gömlum vana fann ég Hafstein og tók í spaðann á honum og óskaði honum góðs gengis.

Það var ansi magnað að sjá 600 manns raða sér upp við Ásvallalaug þegar Albert formaður HFR byrjaði að smala öllum saman fyrir startið, en það fór fram við hesthúsin hinum megin við hæðina sem við hjóluðum yfir til að mynda röðina. Ég kom með fyrir fremst, til að tryggja að ég væri með góðann stað á startlínunni, og fór yfir planið í hausnum. Þetta var einfalt; ég vissi hverjum átti að fylgjast með, uppstillingin á Krísuvíkurveginum skipti einhverju máli, en það var seinni brekkan eftir að við förum inn á mölina, Hrútagil, sem var fyrsta verkefnið. Þar þurfti að setja allt í botn til að hrista sem flesta af, en ná þó nokkrum lykilmönnum með til að hjóla restina af keppnina ekki einn. Ég vissi að vindáttin gerði það að verkum að það yrði mótvindur frá Ísólfsskálabrekku og inn að Grindavík, þannig að það þýddi lítið að vera með æsing í brekkunni. Niðurstaðan var einföld, þetta yrði að vera endasprettur, og þá minn fyrsti í þessarri keppni.

Keppnin hófst með látum, bókstaflega. Hafsteinn ákvað að taka smá moldartékk í fyrstu beygju og þurfti að snúa niður hjólið og athuga málin með annarri hlið líkamans. Niðurstaðan var laus möl, þurrt, og smá blóð, en kanski fullt af adrenalíni í staðinn sem er ekki verra. Við flugum upp Krísuvíkurveginn og það leið ekki á löngu þar til Hafsteinn var mættur á svæðið og hópurinn keyrði á fullri ferð með fínni samvinnu uppeftir. Þegar við fórum inn á Djúpavatnsleið kom ég mér fyrir fremstur en sá að Eirik, Norðmaðurinn frá Merida, 19 ára strákur sem keppnir í elite flokk í Noregi og var mættur til að sigra daginn, var með sínar eigin hugmyndir um staðsetningu í hópnum. Hann fór fyrir framan mig og ég beint fyrir aftan hann, Hafsteinn var með okkur og einhverjir aðrir líka, en eftir fyrstu brekku var hópurinn strax farinn að slitna. Ég setti aðeins meiri hraða í þetta á leiðinni í næstu brekku og hópurinn minnkaði furðu hratt, en þegar komið var að Hrútagili kom Hafsteinn sér fyrir fremst, trúlega vegna þess að hann vissi alveg hvað ég ætlaði mér, og við byrjuðum að hamra upp brekkuna, en þarna var allt sett í botn til að hrista sem flesta af. Ég fór fram úr Haffa og reyndi mitt besta til að valda sem mestum skaða, og niðurstaðan var sú að aðeins einn maður komst með okkur Hafsteini, Eirik.

Þarna var það komið á hreint sem maður spurði sig að fyrir keppnina, Eirik var klárlega einn af þeim sterkari þennan dag. Fljótlega eftir klifrið sló ég af til að fá strákana með mér til að vinna smá á meðan ég náði andanum, en þá sást ekki í neinn fyrir aftan okkur og við héldum áfram keyrslunni. Nokkrum kílómetrum síðar byrjaði ég að sjá glitta í bróður minn, Óskar, fyrir aftan okkur og leist vel á að leyfa honum að ná okkur til að hafa einhvern til að vinna með, þannig að ég byrjaði að vinna minna fyrir hópinn til að gera honum auðveldara fyrir, en það var ekkert smáverk fyrir að ná þessum 2 sem ég var með. Hann stimplaði sig vel inn í hópinn og þá vorum við 4, en á þessum tímapunkti vorum við alveg búnir að skilja við restina, við sáum hina aldrei aftur út keppnina. Keyrslan hélt áfram framhjá Djúpavatni, en ég var ennþá staðráðinn í að losna við Eirik, og nýtti nánast hverja brekku til þess. Pressan var alltaf há, og það var þægilegt að vita til þess að maður væri í þeirri stöðu að geta sett mesta pressu í brekkum. Hafsteinn tók alltaf vel í brekkurnar og virtist ráða best við þær af strákunum, en Eirik og Óskar þurftu nánast alltaf að loka bilinu eftir brekkuna, sem eflaust þreytti þá mikið. Ókosturinn við stöðuna var að til þess að losna við Eirik þurfti ég að gera hluti sem myndu líklega hrista Óskar af mér líka, sem var ekki alveg jafn gott, þannig að það þurfti að fara fínt í hlutina.

Þegar keppnin var rúmlega hálfnuð og við vorum farnir að nálgast Vigdísarvelli og drykkjarstöðina var Eirik farinn að dragast aftur úr hópnum, Óskar hafði hangsað aðeins hjá honum í von um að geta valdið því að hann næði mér og Haffa ekki, en ákvað svo að skilja strákinn eftir og kom yfir til okkar sjálfur. Þarna vorum við búnir að hrista Eirik af okkur, og um leið og við byrjuðum að keyra á grófum veginum í átt á Ísólfsskálabrekku, og mótvindinum sem tók við þar, var alveg á hreinu að hann myndi eiga erfitt með að ná okkur einn.

Ég hugsaði vel og lengi um möguleikann á að stinga sjálfur af í Ísólfsskálabrekunni, en fæturnir höfðu aldrei verið svona ferskir á þessum tímapunkti í fyrri keppnum, og ég vissi að ég væri líklega sterkastur í brekkunum þennan dag. En mótvindurinn sem við vissum allir af, sem þurfti að glíma við alla leið inn í Grindavík, sló öll slík plön í gólfið og ég byrjaði að hugsa meira um endasprettinn. Við þremeningarnir héldum áfram góðri siglingu með jafnri og þægilegri samvinnu, í gegn um Grindavík og í áttina að síðasta malarkaflanum áður en við fórum inn á 3km langann lokakaflann sem lá að Bláa lóninu. Eftir að komið var á malbikið hrósaði Haffi samvinnunni og allir voru sammála um að hafa skemmt sér konunglega síðustu 100 mínúturnar.

Við stilltum okkur upp og leikurin hófst. Hraðinn var ekki mikill og menn skiptust reglulega á að leiða hópinn. Óskar gaf hressilega í og Haffi neyddist til að elta á meðan ég elti hann. Keppnin hélt áfram og áður en við vissum af voru aðeins 1000 metrar í mark. Fljótlega gaf Óskar aftur í, en um leið og Haffi byrjaði að elta hann setti ég líka allt í botn og fór hinum meginn á veginn til að gera erfiðara fyrir hinum. Ég var ekki alveg með vegalengdina í markið á hreinu þannig að ég hugsaði í hita leiksins að betra væri að láta Haffa ná mér, stinga mér fyrir aftan hann og gefa svo aftur í. Ég gerði það, Haffi fór siglandi fram úr mér og ég kom mér fyrir, fyrir aftan hann. En þarna kom svolítið í ljós, eitthvað sem myndi kosta mig sigurinn. Við Haffi vorum báðir með sömu tannhjól og þar af leiðandi sömu gírahlutföll, við vorum einnig báðir í þyngsta gír, þannig að það var ekki hægt að þyngja og keyra upp hraðann. Haffi sat eins lágt og hann gat á hjólinu, sennilega búinn að átta sig á þessu. Það eina sem ég gat gert var að reyna að snúa sveifunum eins hratt og ég gat, en á þessum punkti var snúningurinn það hraður að það var nánast ómögulegt að auka hraðann. Nokkrum metrum fyrir markið sá ég að þetta var ekki að gerast, við höfðum hjólað á nákvæmlega sama hraða, snúandi nákvæmlega jafn hratt, og það var allt of stutt í línuna. Hafsteinn sigldi beint í mark, fyrstur í tíunda skiptið í þessarri keppni. Ég fylgdi á eftir í öðru sæti, þó minn besti árangur en óneitanlega einn súrasti ósigur á stuttum ferli. Óskar átti besta daginn af okkur öllum og skaut sér í 3.sæti.

Alltaf lærir maður eitthvað af svona keppnum og það er aðeins of auðvelt að vera snjall eftirá, þegar maður fer að hugsa “hvað ef ég hefði verið með stærra tannhjól, osfrv.”. En staðreyndin er sú að keppnin er búin og Haffi vann glæsilega. Það situr þó eftir að þetta var án efa skemmtilegasta Bláalónsþraut sem ég hef tekið þátt í, en frábært veðrið, skemmtilegir hjólarar, frábært form og góður árangur spilaði allt vel inn í. HFR eiga heiður skilinn fyrir að standa að frábæru móti, ég er strax orðinn spenntur fyrir næsta ári!

RR – 2.bikar – Þingvellir

Mynd: Hjólreiðafélag CFRvk

Í gær fór fram 2.bikarmót í götuhjólreiðum, að þessu sinni á Þingvöllum. Hjólaðir eru 4 hringir í A-flokk, í frá þjónustumiðstöðinni á Þingvallavegi þar til beygt er til hægri hinum megin við nokkra hóla og hæðir og farið inn á Vallarveg sem liggur meðfram Þingvallavatni. Keppnin var 67km í heildina, og veðurspáin sagði til um austanátt og rigningu, en þegar komið var á staðinn uþb klukkutíma fyrir start var veðrið fínt, blautt en engin rigning og hlýtt.

Ég var ágætlega ferskur fyrir keppnina en hef þó verið að glíma við einhverja langtímaþreytu undanfarna daga, sem ég held að sé vegna of mikils æfingaálags. Ég var þó bjartsýnn fyrir átök dagsins, enda búið að vera frábær byrjun á sumrinu og sigur í fyrsta bikarmótinu. Farið var vel yfir samkeppnina og ég gat mér til að hópurinn yrði strax frekar lítill, eða um 7-8 manns, þeir sterkustu sem voru skráðir. Að vanda var minn helsti andstæðingur og fyrirmynd í íþróttinni skráður, og ég vissi vel að Hafsteinn ætlaði sér að grípa sinn fyrsta sigur á árinu.

Keppnin fór af stað og fljótlega fór að rigna, en góða veðrið virtist aðeins hafa verið bókað út upphitunina en ekki keppnina sjálfa. Ég stillti mér og nokkrum öðrum sem eru með mér í liði vel fyrir í hópnum, en keppnin fór rólega af stað upp hæðirnar á Þingvöllum. Fyrri hluti brautarinnar inniheldur slatta af fölskum flata og stuttum en þó ekki bröttum brekkum, og þegar hraðinn fór að aukast byrjuðu menn að tínast úr hópnum. Það var þó ekki fyrr en við fórum í einu bröttu brekku brautarinnar sem hópurinn slitnaði og við vorum örfáir eftir. Árni, Miro, Óskar, Emil, Siggi, Hafsteinn og ég. Seinni hluti brautarinnar var langur og nokkurnveginn beinn vegur meðfram vatninu, en aðstæður dagsins gerðu það að verkum að þar var góður meðvindur og hægt að hjóla mjög hratt, en í svona meðvind getur verið erfitt að hanga aftan í mönnum sem eru sterkari og menn nýttu sér það þarna, sér í lagi Hafsteinn. Marklínan var einnig á enda þessa vegar og það voru allir með eitt á hreinu; endaspretturinn verður ekki sá hægasti.

Fljótlega byrjuðu menn að þreytast, og það kom að því að Siggi gat ekki haldið í við okkur lengur og hann lét sig falla aftur í næsta hóp fyrir aftan, en bilið var orðið umtalsvert. Miro var duglegur að rykkja í þegar kom að honum í samvinnu hópsins, og hann virtist vera mjög sterkur eftir góðann vetur á skíðunum. Ég passaði að spara kraftana og gera ekki neitt sem gæti valdið því að menn færu að gera árásir, til að halda því sem eftir var af mínu liði ennþá saman, en það kom að því í kringum miðja keppni að Emil dróst aftur úr og náði okkur ekki aftur. Þá vorum við orðnir 5, og styrkur allra meðlima hópsins slíkur að það var ekki líklegt að hópurinn myndi minnka mikið meira. Við héldum áfram að keyra og börðumst í mótvindinum á leiðinni upp brekkurnar og reyndum að halda okkur saman í hóp í meðvindinum á leið í markið.

Undir lok 4 hrings byrjuðu menn að setja sig í stellinar, spennan fyrir endasprettinum byrjuð og menn voru örlítið farnir að líta á hvorn annan, bíðandi eftir að eitthvað myndi gerast. Árni var fyrstur til að gera árás, en þá var enn amk 2-3km í markið. Þetta var þó sniðugt hjá honum, því þarna voru sterkari menn í sprett heldur en hann, og bestu sigurlíkur hans væru með árás sem myndi senda hann einann í mark, fyrir endasprettinn. Hann reyndi nokkrum sinnum en var alltaf svarað vel af Óskari sem var að búa sig undir að leiða mig inn í endasprettinn. Árni komst aldrei burt en þegar síðasti litli hóllinn kom, 300 metrum fyrir markið byrjaði mesti hasarinn. Ég stóð upp og byrjaði að hjóla örlítið hraðar, og beið eftir að Óskar myndi klára sinn sprett og fara til hliðar til að opna fyrir mér, en áður en það gat gerst hafði Haffi byrjað sinn sprett frá því fyrir aftan mig og kom fljúgandi framhjá. Ég setti allt í botn og var við það að ná honum þegar ég festist á milli Haffa og Óskars, en vegurinn var það mjór að menn höfðu ekki mikið svigrúm og þarna var ekki nógu stórt bil á milli þeirra þannig að ég varð að slá af, Óskar færði sig og ég gaf aftur í, en það var of seint, Haffi var búinn að grípa verðskuldaðann sigur. Ég endaði þó í 2.sæti sem er ekkert til að skammast sín fyrir.

Það er ekki auðvelt að leyna því að maður sé vonsvikinn eftir svona góða keppni sem endar ekki á þann hátt sem maður hafði óskað sér. Ekkert mál að vera fúll yfir svona en það þýðir lítið, keppnin er búin og þær aðstæður sem sköpuðust í endasprettinum algjörlega tilviljanakenndar, og engum um að kenna þar. Ég er áfram jákvæður enda horfi ég fram á við; fyrsta stóra markmið sumarsins er næstu helgi og kallast það Bláalónsþrautin. Spennan er gríðarleg og ég held að ég hafi aldrei verið jafn lítið stressaður en á sama tíma jafn mikið spenntur fyrir einni keppni.

Ég vil þakka Hjólamönnum fyrir frábærlega vel heppnaða keppni. Þeir stóðu sig mjög vel í tímatöku, mótsstjórn og voru svo flottir að vera með bíl fyrir framan hópinn allan tímann, fjórhjól sem sá um að loka vegum og fengu leyfi fyrir að loka veginum sem endaspretturinn var á, sem skapaði mikla öryggistilfinninu. Það er óhætt að segja að ég hlakki smá til að taka þátt í stærstu keppni þeirra eftir 2 vikur , Jökulmílunni. Óskar, Emil og Siggi eiga þakkir skildar fyrir að sjá frábærlega um sín störf innan liðsins, sem og restin af hópnum mínum, Miro, Árni og Hafsteinn, það klikkar ekki að þessir bjóða alltaf upp á hörkukeppni!

RR – HFR Criterium – Vellir

Mynd: Arnold Björnsson

Í gær var haldin criterium götuhjólakeppni í boði HFR – Hjólreiðafélag Reykjavíkur og Porche á Íslandi, fyrir þá sem ekki þekkja til þá er criterium sérstakt form götuhjólreiða þar sem menn og konur hjóla stuttann hring margoft, eða hátt í 14 sinnum eins og í gær, og einkennast af miklum hraða, spennu og æsingi þar sem keppnin er töluvert styttri en vanalega og lítill tími til að gera hluti eða bregðast við þeim.

Keppnin fór ekki eins og ég hafði viljað, og strax eftir keppni var ég ekki sá hressasti, en eftir á að hyggja mætti kanski reka það til þess að hingað til á árinu hefur lítið farið úrskeiðis, og sennilega ekki jafn mikið sem klikkaði og á horfðist strax eftir keppni; það gengur ekki alltaf jafn vel  Svo fór að eftir nokkra hringi byrjuðu svipaðir hlutir að gerast og í fyrra, ég fékk strax á tilfinninguna að það væru í raun 3 “lið” í keppninni, auk fjölmargra sem voru að keppa aðeins fyrir sjálfa sig. Ég var fyrirliði einna þessarra liða, og þegar 1, og svo 2 meðlimir annars hinna liðanna byrjuðu að fylgja sínu plani, fóru á sama tíma hlutirnir mín megin að ganga verr. Þegar þetta gerðist kom á stuttri stundu í ljós að það var nauðsynlegt að breyta til, og hugsa frekar með hjartanu, frekar en hausnum, en það var of seint, 2 Trek-menn voru farnir, annar þeirra einn sterkasti hjólari á landinu.

Stærstu mistökin voru svo gerð þegar sigurvegari keppninnar, Árni Már Jónsson, stakk af fljótlega eftir brekkuna þar sem ég hafði tekið hressilega á því. Hann fór nánast án svars frá neinum öðrum, og ég var sjálfur of þreyttur til að ná í hann. Fljótlega eftir þetta fór megnið af hópnum í vörn, eða hreinlega gerðu ekki neitt, en með nokkrum löngum og öflugum keyrslum fráÓskar Ómarsson og sprettum upp brekkuna frá sjálfum mér fór bilið að minnka, og var ansi stutt í þremeningana fremst á tímapunkti, en þarna var sennilega rétti tíminn til að hætta taktík og keyra bara á eftir þeim, eyða sennilega of mörkum eldspýtum til að draga hópinn saman aftur, en það bara gerðist ekki, erfitt að útskýra það.

Það stóð þó upp úr í keppninni að þegar kom að lokum áttum við Hafsteinngóðann endasprett, ég rétt hafði hann en þykist viss um að hann hafi átt meira inni, enda spretturinn um 4.sæti ekki sá sami og sprettur í átt að sigri. Maður getur ekkert annað gert en að læra af svona keppni og koma klárari í næstu keppni!

Ég þakka mótshöldurum fyrir flott mót og veðurguðunum fyrir að gefa öllum nema þeim hörðustu gott veður  Styrktaraðilarnir góðu voru Kria Cycles,IronViking, Hreysti, Optical Studio og Gló

XC – 2.bikar – Öskjuhlíð

Mynd: Georg Vilhjálmsson

2.bikar í fjallahjólreiðum fór fram í gærkvöldi í Öskjuhlíðinni, í einni af tæknilegustu brautum sem keppt er í á Íslandi. Tindur hélt keppnina og stóð sig frábærlega í brautarmerkingum, þjónustu og almennum skemmtilegheitum.

Ég hef alltaf verið spenntur fyrir þessarri keppni enda held ég mikið upp á tæknilegar fjallahjólreiðar, og ég vissi að framundan væri sennilega ein af erfiðustu keppnum vorsins, enda verðugir andstæðingar skráðir til leiks.

Keppnin byrjaði hratt og örugglega, Hafsteinn Ægir tók kunnuglega til forystunnar og brunaði í gegn um blauta drulluna og sleipar ræturnar, en ég ákvað svo að gefa hressilega í þegar komið var að fyrstu brekku, og opnaði þar ágætis forskot.

Við tóku 45 mínútur, eða 3 hringir af erfiðum, og ég þurfti að leggja mig allan fram til að halda íslandsmeistaranum í afturspeglinum, en fann þó að forskotið jókst með hverjum hring. Sénsar voru teknir og beygjur farnar yfir þægilegum hraða, og oftar en einu sinni var ég við það að fljúga á hausinn, en var heppinn að sleppa við það.

Að 3 hringjum loknum heyrði ég gleðitíðindi frá Karen Axelsdottir, en þær voru að ég væri með rúmlega 30 sek forskot, langur tími í svona stuttri keppni. Ákvað strax að byrja að taka því rólega og passa að gera engin mistök. Það gerði góða hluti og náði ég að koma fyrstur í mark, litlum 12 sekúndum á undan Hafsteini.

Þetta var glæsileg keppni, og ég þakka öllum kærlega fyrir mig 

Þessir hjálpuðu mér að sigra: Kria Cycles, Lauf Forks, IronViking, Hreysti,Optical Studio, Gló

TT – 1.bikar – Krýsuvík

Mynd: Óskar Ómarsson

2.sæti í fyrstu tímatökukeppni sumarsins… hvað get ég sagt?

Þetta kemur ótrúlega mikið á óvart enda hafði ég fyrir kvöldið aðeins tekið þátt í einni alvöru TT keppni, en þetta var líka fyrsta keppnin á nýju hjóli, þannig að ég var ekki 100% viss um hvernig þetta yrði. Markmiðin voru að ná undir 28 mínútur og komast í top 4, en það gekk vægast sagt betur með lokatímann 27:20.

Þetta var snilld og ég þakka kærlega fyrir mig, beint í háttinn enda 2.bikar í fjallahjólreiðum annað kvöld! 

XC – 1.bikar – Rauðavatn

Mynd: David Robertson

Öruggur sigur í fyrsta fjallahjólamóti sumarsins. Keppnin var spennandi frá fyrstu mínútu, tók forystu þegar komið var í fyrstu brekku og þaðan var aldrei snúið aftur. Endaði með um 4 mínútna forskot á góðum tíma, tæplega 2 mínútum hraðar en markmið kvöldsins var. 

Brautin var mjög góð, skemmtilegri en sú sem hefur vanalega verið hjóluð, og það að mestu leyti vegna viðbótar á Paradísardalnum. HFR stóðu sig vel í skipulagi mótsins, og mér var td. bent á að startið var aldrei þessu vant á hárréttum tíma, sem er bara snilld.

Þetta var fyrsta mótið mitt á nýju hjóli sem ég keppi á fyrir Lauf Forks, en hjólið heitir Specialized S-Works Stumpjumper World Cup, lengsta nafn í heimi en hjólið er hreint út sagt frábært og ekki skemmir að það sé undir 8 kílóum, búið besta dempara sem ég gæti hugsað mér fyrir aðstæður kvöldsins. Það er frábært að geta verið á þeim stað í sportinu, að hafa besta búnaðinn til þess að ná toppsæti.

Ég þakka HFR fyrir flott mótshald, og styrktaraðilum mínum fyrir góðann stuðning: Kria Cycles, Lauf Forks, Compressport Iceland, Hreysti, Optical Studio og Gló

Older posts Newer posts

© 2024 On your left

Theme by Anders NorenUp ↑